Úrskurður nr. 138/2017 
Bifreiðagjald
ÚrvinnslugjaldKröfum kæranda um niðurfellingu eða lækkun bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds vegna bifreiðar hennar, sem byggðust m.a. á því að enginn koltvísýringur hefði mælst frá bifreiðinni, var hafnað. Taldi yfirskattanefnd að þar sem ekkert væri skráð í ökutækjaskrá um losun koltvísýrings bifreiðarinnar færi um ákvörðun bifreiðagjalds eftir fyrirmælum 3. mgr. 2. gr. laga nr. 39/1988, hvað sem liði mælingum skoðunarstofu um CO-innihald í útblæstri bifreiðarinnar. 
Úrskurður nr. 140/2017 
Vaxtabætur
Álag á vaxtabætur

Kærendur í máli þessu voru hvorki talin hafa sýnt fram á að lán, sem þau tóku á árunum 2008, 2012, 2013 og 2015, hefðu verið tekin vegna greiðsluerfiðleika þeirra né að lánsféð hefði verið nýtt til greiðslu á lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Var kröfum kærenda um vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum þessum því hafnað. Þá var kröfu þeirra um niðurfellingu 15% álags á ofgreiddar vaxtabætur hafnað og tekið fram í því sambandi að kærendur hefðu tilgreint allmörg lán meðal skulda vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota fimm ár í röð þótt ekki hefði verið um að ræða réttmæt vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta. 

Úrskurður nr. 141/2017 
Auðlegðarskattur
Skattalegt bókfært eigið fé
Eignfærsla viðskiptakrafnaRíkisskattstjóri hækkaði stofn kærenda til auðlegðarskatts í skattframtölum kærenda árin 2012, 2013 og 2014 vegna vanframtalinnar hlutafjáreignar í K ehf. og vanframtalinnar kröfu á hendur sama félagi. Kærendur kröfðust þess að auðlegðarskattur yrði lækkaður þar sem raunvirði hlutabréfaeignarinnar væri lægra en nafnvirði bréfanna. Yfirskattanefnd rakti lagaákvæði um auðlegðarskatt og komst að þeirri niðurstöðu, m.a. í ljósi tilgangs löggjafans með lagasetningu um auðlegðarskatt, að einungis hefði verið ætlunin að víkja frá meginreglu laga um eignfærslu hlutabréfa í þeim tilvikum er raunvirði hlutabréfa væri hærra en næmi nafnvirði þeirra. Var kröfu kærenda um að miða eignarhlut í K ehf. við skattalegt bókfært eigið fé félagsins hafnað. Þá voru kærendur hvorki talin hafa sýnt fram á að skilyrði hefðu verið fyrir hendi til að víkja mætti frá meginreglu 5. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 um framtal hlutabréfa miðað við nafnverð eða eftir atvikum stofnverð né að réttmætt hefði verið að færa niður kröfu kærenda á hendur K ehf. Var kröfum kærenda því hafnað.


Úrskurður nr. 143/2017 
Aðflutningsgjöld 
Kolefnisgjald 
Endursending vöru til útlanda

Kærandi fór fram á endurgreiðslu kolefnisgjalds af eldsneyti sem kærandi flutti til landsins og seldi síðar erlendu félagi. Talið var að krafa kæranda um endurgreiðslu kolefnisgjalds vegna sölu eldsneytisins yrði að byggjast á ákvæðum 7. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þar sem fyrir lá að beiðni kæranda um undanþágu var ekki lögð fram fyrr en að liðnum sex mánaða fresti til að láta tollstjóra í té slíka beiðni var kröfu kæranda hafnað.