Staðgreiðsla 201827.12.2017

Fjármála- og efnhagsráðuneytið hafa gefið út tilkynningu með upplýsingum um staðgreiðslu 2018 sem gildir frá og með 1. janúar 2018. 
Staðgreiðsluprósentur og þrep einstaklinga verða eftirfarandi:

  • 36.94% af tekjum 0 - 893.713 kr.
  • 46,24% af tekjum yfir 893.713 kr.
Persónuafsláttur verður 53.895 kr. á mánuði.
Tryggingagjald helst óbreytt 6,85%


Nánar hér :
https://www.rsk.is/atvinnurekstur/stadgreidsla-og-reiknad-endurgjald/stadgreidsla/2018
Tíund
22. desember 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Persónuafsláttur og skattleysismörk hækka um 1,9%Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal í upphafi árs hækka persónuafslátt hvers einstaklings í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.Á grundvelli þess verður persónuafsláttur 646.739 kr. fyrir árið 2018, eða 53.895 á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 11.859 kr. milli áranna 2017 og 2018, eða um 988 kr. á mánuði og nemur hækkunin 1,9%.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 151.978 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð, samanborið við 149.192 kr. á mánuði árið 2017. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 1,9%.

Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Hann byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 249.514 kr. á mánuði árið 2018, samanborið við 244.940 kr. á mánuði árið 2017.

Tekjuskattur og útsvar í staðgreiðslu

Þrepamörk tekjuskatts uppreiknast samkvæmt lögum í upphafi ársins í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu á undangengnu tólf mánaða tímabili (nóv. til nóv.) Launavísitala nóvembermánaðar liggur nú fyrir og er hækkun hennar á tólf mánaða tímabili 7,1%. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við 10.724.553 kr. árstekjur (893.713 kr. á mánuði) fyrir árið 2018.

Tekjuskattsprósentur eru óbreyttar frá fyrra ári, 22,50% í neðra þrepi, og 31,8% í efra þrepi.
Útsvar til sveitarfélaga er líkt og tekjuskattur innheimt í staðgreiðslu og er það mishátt eftir sveitarfélögum. Þau geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Af 74 sveitarfélögum leggja 56 á hámarksútsvar. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Eitt sveitarfélag mun hækka útsvarsprósentuna. Þá mun eitt sveitarfélag lækka útsvar sitt fyrir tilstilli afnáms sérstaks álags. Þannig er ekkert sveitarfélag sem nýtir sér sérstakt álag árið 2018. Útsvarshlutfall einstakra sveitarfélaga kemur fram í fylgiskjali.


Meðalútsvar verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga óbreytt milli ára: 14,44%. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðalútsvarshlutfallið.
Staðgreiðsluhlutfall ársins 2018 í heild, þ.e. samanlagt hlutfall tekjuskatts og meðalútsvars, verður því áfram 36,94% á tekjur í neðra þrepi og 46,24% á tekjur í efra þrepi.


Tryggingagjald

Tryggingagjald er óbreytt milli ára. Skipting þess er sem hér segir.

Almennt tryggingagjald                                                          5,40%
Atvinnutryggingagjald                                                            1,35%
Gjald í Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota                       0,05%
Markaðsgjald                                                                           0,05%
Samtals til staðgreiðslu                                                            6,85%


Sérstök trygging (0,65%) bætist við vegna launa sjómanna á fiskiskipum. Tryggingagjaldi skal skila mánaðarlega til innheimtumanna ríkissjóðs.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 188/2017 
Lánveiting einkahlutafélags til tengds aðila
Duldar arðgreiðslur
MálsmeðferðRíkisskattstjóri færði kæranda til tekna sem gjafir meintar óheimilar lánveitingar frá X ehf. á árunum 2013 og 2014. Í úrskurði yfirskattanefndar var talið að niðurstaða ríkisskattstjóra um fjárhæð greiðslna X ehf. til kæranda umrædd ár hvíldi á harla ótraustum grundvelli, en fyrir lá að í því sambandi hafði ríkisskattstjóri eingöngu litið til framtalinna skulda kæranda við félagið í skattframtölum hans árin 2014 og 2015. Mótsagnir í skattframtölum kæranda og skattskilum X ehf. um skuldir kæranda við félagið hefðu gefið sérstakt tilefni til þess að ríkisskattstjóri aflaði frekari upplýsinga um skipti aðilanna en gert hefði verið, þar á meðal með því að leita eftir skýringum og gögnum frá X ehf. um skuld kæranda og hugsanlega annarra hluthafa við félagið. Þar sem ríkisskattstjóri var ekki talinn hafa séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók ákvörðun sína voru hinar kærðu tekjufærslur með öllu felldar úr gildi. 

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 192/2017 
Bindandi álit 
Teknategund 
Öflun eigin hluta 
Hlutafjárlækkun

Samlagshlutafélagið A, sem ekki var sjálfstæður skattaðili, var eigandi alls hlutafjár í D hf. A slhf. og D hf. ráðgerðu að gera með sér kaupsamning þar sem D hf. keypti af A slhf. allt hlutaféð að undanskildu lögbundnu lágmarkshlutafé. Var jafnframt gert ráð fyrir því að hin ráðgerðu kaup D hf. á eigin hlutum yrðu liður í eftirfarandi lækkun hlutafjár félagsins. Í máli þessu vegna bindandi álits ríkisskattstjóra komst embættið að þeirri niðurstöðu að virða bæri tekjur eigenda A slhf., þ.e. B hf. og C hf., vegna fyrirhugaðrar sölu A slhf. á hlutafénu í D hf. sem arð samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, en kærendur töldu að líta bæri á tekjurnar sem söluhagnað hlutabréfa í skilningi 18. gr. sömu laga. Yfirskattanefnd taldi að þegar umræddar ráðstafanir væru virtar heildstætt í ljósi ákvæða hlutafélagalaga nr. 2/1995 varðandi öflun eigin hluta, þar á meðal að um væri að ræða kaup á megninu af hlutafé félags langt umfram það sem lög leyfðu og þegar í upphafi afráðið að láta bréfin ekki af hendi heldur „annullera“ þau með tilheyrandi lækkun hlutafjárins, yrði að taka undir þá niðurstöðu ríkisskattstjóra að í raun væri á ferðinni lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa. Tekjur, sem mynduðust vegna kaupa D hf. á eigin hlutum, teldust því til arðs, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Á hinn bóginn var fallist á með kærendum að B hf. og C hf. væri heimilt að draga arðsfjárhæð vegna lækkunar hlutafjár í D hf. frá tekjum á því ári sem greiðsla (úthlutun) ætti sér stað.

         Lækkun á vsk % Áhrif hennar á uppgjör verktaka

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 176/2017 
Endurupptaka máls
Málskostnaður

Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 119/2017, sem byggði á því að kæranda hefði láðst að leggja fyrir nefndina gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu, var hafnað. Voru skýringar kæranda á ástæðu þess að gögnin voru ekki lögð fram undir meðferð málsins, þ.e. að kærandi hefði búist við því að fá ábendingu frá yfirskattanefnd um að málið væri tilbúið til meðferðar, ekki taldar gefa neitt tilefni til að taka málið til nýrrar meðferðar hvað varðaði ákvörðun málskostnaðar.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 177/2017 
Tvísköttunarsamningur 
Lífeyrisgreiðslur 
Málsmeðferð 

Kærendur, sem báru ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, fengu greiddan lífeyri frá Noregi sem skattlagður var þar í landi. Talið var að skattaleg meðferð hinna erlendu tekna kærenda, þ.e. að telja tekjurnar með í skattstofni en lækka íslenskan skatt (tekjuskatt og útsvar) sem svaraði hlutfalli norskra tekna í skattstofni, hefði verið í fullu samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna. Var kröfum kærenda hafnað. Úrskurður yfirskattanefndar nr. 179/2017 
 Söluhagnaður fyrnanlegra eigna   
Frestun skattlagningar 
Álag vegna söluhagnaðar 
 Kærandi, sem var einkahlutafélag, hafði óskað eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum um tvenn áramót í skattskilum sínum árið 2015 og féllst ríkisskattstjóri á þá ósk. Í skattskilum sínum gjaldárið 2016 færði kærandi til tekna hinn frestaða söluhagnað og taldi ríkisskattstjóri að reikna bæri 10% álag á mismun tekjufærðs söluhagnaðar og sérstakra fyrninga. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins með vísan til ótvíræðs orðalags viðkomandi lagaákvæða og verklagsreglu ríkisskattstjóra sem þótti vera í samræmi við lagaákvæðin.