Nefndarálit og breytingartillaga (65.gr) um frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt, og fleiri lögum. Landið eitt skattumdæmi.Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.

 

Ríkisskattsjóri hefur birt skattstiga sem gilt gætu vegna skila á staðgreiðslu 2010. Fylgja þeir hér með.

Skattstigar þessir miðast við 13,10% útsvar og fyrirliggjandi stjórnarfrumvarp á þskj. 292, 256. mál yfirstandandi þings.  

Útreikningarnir eru birtir  með svofelldum fyrirvara :

"Athugið að útreikingarnir byggjast á frumvarpi til laga sem gæti tekið breytingum í þinglegri meðferð. "

 
Forsendur tekjuskatts og útsvars
Þrep  Tekjuskattur  Útsvar  Tekjumörk  Persónuafsláttur  Lífeyrisiðgjald
1  24.10%  13,10%  0  44.205  4%
2  27.00%  13,10%  200.000   
3  33.00%  13,10%  650.000

Nefndarálit  og breytingartillögur við frv. til l. um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.

Meðfylgjandi er nefndarálit  og breytingartillögur frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.við frv. til l. um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
Breytingartillögurnar varða bæði málin. Meðfylgjandi er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2009 í málinu Fjárfestingastingafélagið Gaumur ehf.gegn íslenska ríkinu. 

Dómurinn varðar skattrannsóknarmál sem úrskurðað var af ríkisskattstjóra og gekk síðan til yfirskattanefndar. Það hafði orðið niðurstaða nefndarinnar að  Gaumur, eignarhaldsfélag  hefði haft skattskyldan hagnað af  viðskiptum með hluti í verslunarkeðjunni Arcadia. Vegna þessa hefði  félagið átt að tekjufæra nærri 1.230 milljónir króna og greiða tekjuskatt, ríflega 200 milljónir.

Því var haldið fram í málinu af hálfu Gaums að eigandi bréfanna hefði aldrei verið íslenska Gaumsfélagið heldur Gaumur Holding, eignarhaldsfélag í  Lúxemborg. 

Héraðsdómur féllst ekki á þetta og staðfesti að Gaumur hér heima ætti að færa þessa fjárhæð sem tekjur.

Einnig varðaði málið viðskipti í makaskiptum með hlut í Hagkaupum og Bónus. Yfirskattanefnd taldi að þar hefði Gaumur átt að færa sér til tekna sem söluhagnað 670 milljónir króna. Til grundvallar lá að ekki hefði verið lagt rétt mat á verðgildi hlutanna í Hagkaupum í makaskiptunum. Bent var á að  í sama mánuði hefði verið greitt hátt í sexfalt hærra verð fyrir Hagkaupshluti.

Niðurstaða dómsins varðandi þennan þátt  var að fallast ekki á kröfu ríkisins. Aftur á móti var Gaumi gert að færa til tekna sem söluhagnað 175 milljónir vegna þessara viðskipta.

Tekið skal fram að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur ákært í sakamáli vegna þessara viðskipta með Hagkaupsbréfin

Í meðfylgjandi dómsmáli var deilt um efni kaupsamnings um hlutafé.  Seljandi hlutafjárins taldi sig hlunnfarinn. Nánar tiltekið var um það að ræða að innan þess félags sem kaupin vörðuðu  hafði safnast upp tekjuskattsskuldbinding vegna söluhagnaðar fasteignar.
Þegar frá sölu hlutabréfanna var gengið  var tekjuskattur  lögaðila 18 %. Við tekjufærslu söluhagnaðarins var  hann  15 %.
Seljandinn  miðaði við í málflutningi sínum að tekjuskattsskuldbindingu hefði átt að gera upp miðað við 15% tekjuskatt en ekki 18%.  Gerði hann kröfu um greiðslu mismunar hér á þar sem um það leyti sem frá kaupunum var gengið hafi legið fyrir að hlutfallið myndi lækka í 15%.
Seljandinn taldi að viðskiptavenja væri  fyrir því að gera tekjuskattsskuldbindingu upp á þann hátt í viðskiptum með hluti milli hluthafa innan félags að seljandi taki helming skuldbindingarinnar á sig og kaupandinn hinn helminginn.
Þessu andmælti kaupandinn.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna sem lá frammi í málinu, segir að ekki sé um að ræða neinar algildar reglur í uppgjöri skattskuldbindinga.
Taldi dómarinn að seljanda hefði  ekki tekist að sýna fram á neina viðskiptavenju í þessu sambandi. Teldist þessi fullyrðing  því ósönnuð.
Tapaði seljandinn málinu á þessum forsendum og öðrum sem nánar eru raktar í dómnum..

 Sjá skjal

Þingmál. Landið eitt skattumdæmi. Nefndarálit og rökstudd dagskrá um frávísun á   frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum. Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.


________________________________________
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 432  —  226. mál.


Nefndarálit

 

um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.

 

    Frumvarp þetta gengur út á það að landið verði gert að einu skattumdæmi undir yfirstjórn embættis ríkisskattstjóra. Með því er stefnt að aukinni skilvirkni í störfum. Minni hlutinn fellst ekki á slíka framkvæmd án þess að vandað sé betur til verka:
    a.      Samhliða stærstu skattkerfisbreytingu sem gerð hefur verið hér á landi í marga áratugi verði ekki farið í umfangsmiklar breytingar á skattumdæmum. Það fer ekki saman og getur beinlínis reynst hættulegt. Miðað við umsagnir við málið og fleiri gögn, og þær breytingar sem eru fram undan á skattkerfinu, má telja víst að hér séu stjórnvöld að færast of mikið í fang með því að fara einnig út í þessar breytingar.
    b.      Tillögur að breytingum verði unnar í nánu samráði við skattstjóraembættin út um landið. Þvert á móti var það ekki gert heldur voru tillögur unnar af vinnuhópi ráðherra sem skipaði tvo skrifstofumenn úr ráðuneyti, ríkisskattstjóra og aðeins tvo af níu af skattstjórum landsins. Aðrir fengu ekki að koma að störfum hópsins. Þar að auki hafa komið fram upplýsingar við þinglega meðferð málsins um að hópnum hafi verið sagt hvernig niðurstöður hans ættu að verða.
    c.      Vinna ætti málið í anda byggðastefnu stjórnvalda í stað þess að leggja fram tillögur sem í raun munu leggja niður skattstofur, m.a. í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og á Siglufirði. Í þessu felst ómakleg aðför að landsbyggðinni þar sem engar ráðningar verða í stað þeirra starfa sem losna. Rétt er að muna hversu miklu máli það getur skipt minni bæjarfélög ef jafnvel þrjú til fjögur störf eru lögð niður.
    d.      Nánari útfærsla mála ætti að liggja fyrir til að auðvelda starfsfólki vinnu sína áður en farið er í lagabreytingar. Þvert á móti er ekkert orðið ljóst um að hægt verði að dreifa verkefnum og ekkert orðið klárt varðandi framkvæmdarleg atriði. Það verður að gefa starfsmönnum skattsins frið og skattyfirvöldum kost á að kynna breytingarnar, enda eiga skrifstofur þeirra að vera tilbúnar að svara spurningum varðandi þær innan fárra daga.
    e.      Mikilvægast er að komið sé fram af virðingu við starfsfólk. Þvert á móti virðist fátt ef nokkuð vera fast í hendi fyrir það.
    f.      Algjör vissa ætti að ríkja um hvort breytingar á skattumdæmum landsins spari 140 millj. kr. árið 2010. Þvert á móti þykir líklegra að kostnaður við breytingarnar muni auka útgjöld ríkissjóðs.
    Minni hlutinn mælist til þess að málið verði unnið með framangreindum hætti, sem sómi væri að, áður en Alþingi samþykkir lög í þessa veru.
    Í ljósi þessa samþykkir Alþingi að aðhafast ekki frekar í málinu að svo stöddu og leggur til að það verði afgreitt með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:

 

    Þar sem færð hafa verið fyrir því gild rök að ekki sé hægt að fallast á slíka framkvæmd, án þess að fjármálaráðherra vandi betur til verka, samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 12. des. 2009.


Birkir Jón Jónsson,


frsm.


Pétur H. Blöndal.


Tryggvi Þór Herbertsson.

 

Meðfylgjandi er dómur Hæstaréttar í máli þar sem deilt var um hvort greiða skyldi almennan tekjuskatt eða fjármagnstekjuskatt af leigutekjum.
Um það var að ræða að gjaldandi leigði hluta af íbúðarhúsnæði sínu til einkahlutafélags í hennar eigu , sem þar stundaði atvinnurekstur. Fólst hann í því að veita sjúklingum geðræna meðferð.

Gjaldandinn  hélt því fram að henni hefði verið heimilt að telja fram þessar húsaleigutekjur sem fjármagnstekjur utan atvinnurekstrar.

 Talið var að í skilningi meginreglu laga um tekjuskatt og eignarskatt teldist slík starfsemi atvinnurekstur væri hún sjálfstæð, reglubundin um einhvern tíma og nokkur að umfangi og að auki stunduð í þeim efnahagslega tilgangi að hafa af henni hagnað, en um þetta var að ræða í tilviki gjaldandans.

Varð það því niðurstaða Hæstaréttar að skattstjóri hefði réttilega lagt til grundvallar að leigutekjur gjaldandans  bæru tekjuskatt en ekki fjármagnstekjuskatt.

 Sjá skjal

 

Umfrádrátt frá skattskyldum  tekjum. Frumvarp.  Hvað ekki telst frádráttarbært. Tilkynning rsk vegna frétta þar um.


Eftirfarandi er að finna á vef ríkisskattstjóra  varðandi frádráttarbærni vaxtagjalda í tilefni af nýju lagafrumvarpi:
________________________________________


Tilkynning frá ríkisskattstjóra
________________________________________

Af gefnu tilefni vegna umfjöllunar í Skattatíðindum KPMG, tölublaði 42 frá desember 2009, vill ríkisskattstjóri koma eftirfarandi á framfæri:
1.        Það er grundvallarregla tekjuskattslaga að á móti skattskyldum rekstrartekjum megi færa kostnað sem gengið hefur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Þessi regla gildir jafnt um vaxtagjöld eins og annan kostnað. Þess háttar kostnaður þarf því að vera af skuldum sem tengjast rekstrinum til að geta verið frádráttarbær. Í 50. gr. tekjuskattslaga er kveðið á um takmarkanir á frádráttarbærni rekstrarkostnaðar. Nánar er einnig fjallað um frádráttarbæran rekstrarkostnað í reglugerð nr. 483/1994, sbr. 5. gr. að því er varðar vaxtagjöld.
2.        Í frumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi (Þskj. 292  —  256. mál) og vísað er til í Skattatíðindum KPMG er lagt til í 8. gr. að 3. tölul. 50. gr. tekjuskattslaga., sem fjallar um að ekki megi telja til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar arð eða vexti af framlögðu fé manns til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi, verði breytt. Við bætist ákvæði sem áréttar að vaxtagjöld af skuldum sem færast yfir við samruna þegar um er að ræða vexti af lánum í kjölfar þess að eignarhalds- eða fjárfestingarfélag kaupir meiri hluta hlutafjár í öðru félagi séu ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður. Sama eigi við um vaxtagjöld af lánum sem tekin eru vegna arðgreiðslna.
3.        Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins kemur fram að afstaða skattyfirvalda hafi verið sú að vextir af skuldum sem stofnað hafi verið til í þeim tilgangi að yfirtaka fyrirtæki á þann hátt að fyrirtækin sjálf fjármagni kaup hluthafanna, eða beinar úttektir þeirra úr fyrirtækjunum, séu ekki frádráttarbærir frá tekjum þar sem ekki séu uppfyllt grundvallarskilyrði fyrir frádráttarbærni. Því hafi á hinn bóginn oft verið haldið fram að það sem ekki sé beinlínis bannað með beinum lagaákvæðum hljóti að vera heimilt. Í ljósi þessa þyki rétt að taka af öll tvímæli um að annars vegar sé hlutafélagi ekki heimilt að draga frá skattskyldum tekjum kostnað við að kaupa félagið sjálft og hins vegar verði ekki dreginn frá skattskyldum tekjum kostnaður sem falli til vegna ófrádráttarbærra greiðslna, eins og vaxtagjöld af lánum sem stofnað sé til við úthlutun arðs.
4.        Það er því mikill misskilningur hjá Skattatíðindum KPMG að með umræddu frumvarpi sé lögð til efnisbreyting varðandi frádráttarbærni vaxtagjalda. Einungis er verið að útfæra nánar þá grundvallareglu sem við líði hefur verið áratugum saman. Fullyrðing um afturvirka skattlagningu er því algjörlega úr lausu lofti gripin. Samkvæmt núgildandi tekjuskattslögum er heimilt að endurákvarða skatt vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram, að uppfylltum formskilyrðum laganna. Í greindu frumvarpi er engin breyting lögð til að því er þetta varðar.

Reykjavík 4. desember 2009
Ríkisskattstjóri


Á þskj. 315  —  274. mál sem lagt var fram  í dag er  frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Þar segir  :

 


"V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    a.      Í stað „7.534“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 8.400.
    b.      Í stað „1.143.362“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 1.361.468. "


Í greinargerð kemur þetta fram:

"Um 17. gr.


    Í a-lið ákvæðisins er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað um 866 kr., um 11,5%, og nemi 8.400 kr. á hvern gjaldanda í stað 7.354 kr. samkvæmt gildandi lögum. Gjaldið kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2010 vegna tekna ársins 2009.
    Samkvæmt b-lið ákvæðisins er gert ráð fyrir hækkun fjárhæðar skv. 2. mgr. 10. gr. laganna þar sem vísað er til tekjuviðmiðs sem notað er til að ákvarða þá sem undanþegnir eru gjaldinu."


Gert er ráð fyrir að ákvæðið komir til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2010 vegna tekna ársins 2009.

 


Núgildandi lög segja svo:

"10. gr.
(1) [Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldið skal nema [7.534]3) kr. á hvern gjaldanda og kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
(2) Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru undanþegnir gjaldinu einstaklingar sem hafa tekjuskattsstofn skv. 1. og 3. tölul. 61. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, samtals lægri en [1.143.362 kr. á því ári sem næst er á undan álagningarárinu.]3) Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal þó skipta sameiginlegum fjármagnstekjum skv. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin. Tekjuviðmiðun þessi skal breytast árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á persónuafslætti skv. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og innheimtuhlutfalli viðkomandi staðgreiðsluárs samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Skattstjóri skal fella gjald þetta niður af öldruðum og öryrkjum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.]2)
(3) Við álagningu og innheimtu gjalds þessa skulu gilda sömu reglur og um álagningu og innheimtu tekjuskatts samkvæmt [lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt]1), eftir því sem við á. Í stað tíu gjalddaga skal þó gjalddagi vera einn, 1. ágúst ár hvert. Dragist framlagning álagningarskrár fram yfir 1. ágúst færist gjalddagi til 1. dags næsta mánaðar eftir framlagningu álagningarskrár.
(4) Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra skulu einnig vera frjáls framlög, aðrar tekjur er til kunna að falla og vaxtatekjur.
(5) Í miðmánuði hvers ársfjórðungs skal fjármálaráðuneytið skila Framkvæmdasjóði aldraðra fjórðungi tekna sjóðsins á því ári."
1)


Á þskj. 315  —  274. mál sem lagt var fram  í dag er  frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum.
Þar segir svo :

 

"III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa,
með síðari breytingum.
..............................
15. gr.


    Í stað „0,2%“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: 0,25%."

 

Gjaldið er þáttur í innheimtu tryggingagjaldi.

Greinargerð með þessu ákvæði er á þessa leið :

"Um 15. gr.


    Í því skyni að koma til móts við þann kostnaðarauka sem af því hlýst að Ábyrgðasjóður launa greiði vexti af kröfum sem hann ábyrgist skv. 5. gr. laganna, sbr. 14. gr. frumvarps þessa, er lagt til að ábyrgðargjaldið sem stendur straum af fjármögnun Ábyrgðasjóðs launa skv. 23. gr. laganna verði hækkað úr 0,2% í 0,25% af gjaldstofni þess. Með þessari hækkun á ábyrgðargjaldinu mun gjaldið jafnframt standa betur undir áætluðum útgjöldum Ábyrgðasjóðs launa en ella hefði verið. Áætluð útgjöld sjóðsins eru 1.773 millj. kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010."

Gert er ráð fyrir að ofangreint taki gildi 1. janúar 2010.

Núgildandi lagaregla er þessi :
    
"23. gr.
Fjármögnun.
(1) Ábyrgðasjóður launa skal fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem nefnist, sem skattskylt er. Ákvæði laga um tryggingagjald eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu ábyrgðargjalds.
(2) Ábyrgðargjaldið skal vera [0,2%]2) 3) af gjaldstofni."