144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1031 — 540. mál.
Svarfjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni
um stjórnir opinberra hlutafélaga.
1. Hversu margir eru í stjórnum opinberra hlutafélaga, og hvaða hlutafélög eru það?
Opinbert hlutafélag (skammstafað ohf.) er afbrigði af hlutafélagi sem innleitt var í íslensk lög 2006. Opinber hlutafélög, að hluta eða öllu í eigu ríkisins eða ríkis og sveitarfélags, eru samtals níu talsins og er fjöldi stjórnarmanna í þeim eftirfarandi:
– Isavia ohf., fimm aðalmenn og fimm varamenn.
– Íslandspóstur ohf., fimm aðalmenn og fimm varamenn.
– Orkubú Vestfjarða ohf., fimm aðalmenn og einn varamaður.
– Nýr Landspítali ohf., þrír aðalmenn og þrír varamenn.
– Neyðarlínan ohf., fjórir aðalmenn og einn varamaður.
– Ríkisútvarpið ohf., níu aðalmenn og níu varamenn.
– Rarik ohf., fimm aðalmenn og tveir varamenn.
– Matís ohf., sjö aðalmenn.
– Harpa ohf., fimm aðalmenn.
2. Hversu há eru stjórnarlaunin í þessum félögum?
Laun stjórnarmanna í umræddum hlutafélögum hafa á síðustu aðalfundum verið ákvörðuð með eftirfarandi hætti:
– Isavia ohf. Aðalmenn 137 þús. kr. á mánuði, formaður tvöfalda þá fjárhæð. Varamenn 65 þús. kr. fyrir hvern fund.
– Íslandspóstur ohf. Aðalmenn 100 þús. kr. á mánuði, formaður tvöfalda þá fjárhæð.
– Orkubú Vestfjarða ohf. Aðalmenn 95 þús. kr. á mánuði, formaður tvöfalda þá fjárhæð. Varamenn 40 þús. kr. fyrir hvern fund.
– Nýr Landspítali ohf. Aðalmenn 50 þús. kr. á mánuði. Varamenn 10 þús. kr. fyrir hvern fund.
– Neyðarlínan ohf. Aðalmenn 70 þús. kr. á mánuði, formaður tvöfalda þá fjárhæð. Varamaður sömu stjórnarlaun og aðalmenn.
– Ríkisútvarpið ohf. Aðalmenn 85 þús. kr. á mánuði, formaður tvöfalda þá fjárhæð. Varamenn 21 þús. kr. fyrir hvern fund.
– Rarik ohf. Aðalmenn 115 þús. kr. á mánuði, formaður tvöfalda þá fjárhæð.
– Matís ohf. Aðalmenn 77 þús. kr. á mánuði, formaður tvöfalda þá fjárhæð.
– Harpa ohf. Aðalmenn 93 þús. kr. á mánuði, formaður tvöfalda þá fjárhæð.
Loading…