Search
Close this search box.

144. löggjafarþing 2014–2015. Þingskjal 1039 — 356. mál. 3. umræða.

144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1039  —  356. mál.
3. umræða.

Nefndarálit

um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
og lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum (samræming og einföldun).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Rakel Jensdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sonju Bjarnadóttur frá Samkeppniseftirlitinu, Ingvar Rögnvaldsson, Jón Ásgeir Tryggvason og Berglindi Björnsdóttur frá ríkisskattstjóra og Frosta Ólafsson og Mörtu Blöndal frá Viðskiptaráði Íslands.

Ýmsar breytingar á viðauka við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til samræmis við kerfisbreytingar á virðisaukaskatti.

    Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist nýr kafli með einni nýrri grein, 20. gr., þar sem lagðar eru til breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Nánar tiltekið er annars vegar lagt til að sú hlutfallstala sem tiltekin er í inngangsmálslið viðauka við lögin taki breytingum til samræmis við kerfisbreytingar sem gerðar voru á virðisaukaskatti um síðustu áramót.    Hins vegar eru lagðar til ýmsar breytingar á tollskrárnúmerum í sama viðauka til samræmis við breytingar sem gerðar hafa verið á númerum tollskrár í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005. Síðargreindu breytingarnar eru ótengdar þeim virðisaukaskattskerfisbreytingum sem tóku gildi um síðustu áramót og miða eingöngu að því að lagfæra upptalningu á tollskrárnúmerum vara til manneldis sem tilgreindar eru í viðaukanum.
    Tillögur um breytingar á lögum um virðisaukaskatt koma fram í sautján stafliðum 2. tölul. breytingartillögu meiri hlutans. Tillaga a-liðar hefur þegar verið útskýrð. Tillaga b-liðar á rót sína að rekja til breytinga sem voru gerðar með auglýsingu nr. 154/2011 þegar tollskrárnúmerið 0301.1000 (skrautfiskur) var brotið upp og úr urðu tvö ný tollskrárnúmer. Tillaga c-liðar á rót sína að rekja til 8. gr. laga nr. 38/2008 en með henni var ætlunin að taka af allan vafa um að ógerilsneydd mjólk (hrámjólk) ætti að vera í efra þrepi virðisaukaskatts þar sem ekki væri litið svo á að hún væri matvara til manneldis í skilningi virðisaukaskattslaga. Þá voru gerðar verulegar breytingar á tollskrárnúmerum undirliðar 0401.30 með auglýsingu nr. 154/2011 en dregist hefur að gera breytingar á viðauka við virðisaukaskattslög því til samræmis. Í d-lið er lögð til sú breyting að tollskrárnúmerið 0511.9119 (sundmagi, saltaður) verði fellt brott úr viðaukanum en tollskrárnúmer með sama heiti er ekki lengur að finna í tollskrá. Í e–i-liðum eru lagðar til ýmsar breytingar sem allar eiga það sammerkt að ný númer hafa leyst eldri númer af hólmi. Benda má þó á að breytingar á tollskrárnúmerunum 1008. 3001 og 1104.3001 eiga rót sína að rekja til þess að við kafla tollskrár sem ber heitið „korn“ hafa bæst númer sem varða korn sem er ætlað í fóður eða til fóðurgerðar. Í j-lið er lagt til að tollskrárnúmerið 1301.1000 (kvoðulakk) verði fellt brott þar sem það er ekki lengur að finna í tollskrá. Í k-lið er lögð til breyting á tollskrárnúmerinu 1301.9000 (Kvoðulakk; náttúrlegar gúmkvoður; resín, gúmmíharpixar og oleóresín: Annað) enda hefur það verið brotið upp og nú er í tollskrá að finna sérstakt númer fyrir vörur sem eingöngu eru ætlaðar til matvælaframleiðslu. Í l-lið er lagt til að tollskrárnúmerið 1302.1400 (Jurtasafar og jurtakjarnar: Úr prestafíflum eða rótum plantna sem innihalda rótenón) verði fellt brott enda er það ekki lengur að finna í tollskrá. Í m-lið er lagt til að fjórum tollskrárnúmerum verði skipt út fyrir átta ný númer en þar er um að ræða ýmis númer sem tengjast dýrafeiti til matvælaframleiðslu. Í n-lið er lagt til að tollskrárnúmerið 2836.1001 (ammóníumkarbónat) verði fellt brott þar sem það er ekki lengur að finna í tollskrá. Í o–q-liðum er lagt til að nokkrum tollskrárnúmerum verði bætt við sem öll eiga rót sína að rekja til breytinga sem gerðar voru á viðauka I við tollalög með lögum nr. 156/2012 og lögum nr. 22/2013 þegar ýmsum sérstökum tollskrárnúmerum fyrir sætuefni var bætt við.

Skjölunarskylda innlendra aðila sem eingöngu eiga í viðskiptum við aðra innlenda aðila sem þeir eru tengdir og/eða eru í samsköttun með.

    Á fundi hjá nefndinni hlaut c-liður 3. gr. frumvarpsins nokkra gagnrýni. Bent var á að meginmarkmið milliverðlagningarreglna OECD væri að koma í veg fyrir hliðrun skattstofna milli skattalögsögu ríkja. Í framhaldinu kom það sjónarmið fram að eðlilegt væri að gera vægari kröfur til innlendra aðila sem eingöngu ættu í viðskiptum við tengda innlenda aðila eða innlenda aðila sem þeir væru í samsköttun með.
    Skilningur meiri hlutans er að milliverðlagningarreglur séu skattasniðgöngureglur sem hafi það meginmarkmið að bregðast við óeðlilegri verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila milli landa en hvati til slíkrar verðlagningar getur skapast vegna ólíkra skattareglna í ríkjum. Þannig geta tengdir lögaðilar séð sér hag í því að verðleggja viðskipti sín á milli þannig að hagnaður innan samsteypu verði til þar sem skattaumhverfi er hagstætt. Aðstaðan er önnur þegar viðskipti milli tengdra aðila eiga sér einungis stað innan sama ríkis. Í slíkum tilvikum skapast ekki sami hvati til þess að færa til hagnað með óeðlilegri verðlagningu enda eru lögaðilar hérlendis að jafnaði skattlagðir með sama hætti. Meiri hlutinn telur framangreinda gagnrýni réttmæta og leggur til að nýjum málslið verði bætt við c-lið 3. gr. frumvarpsins þar sem efnislega verði kveðið á um að skjölunarskylda innlendra lögaðila taki aðeins til viðskipta við tengda aðila sem eru heimilisfastir erlendis eða eru með fasta starfsstöð utan Íslands. Þrátt fyrir að lagt sé til að skjölunarskyldan gildi ekki í viðskiptum milli tengdra lögaðila innan lands gilda eftir sem áður um slík viðskipti almennar reglur 3. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, um að verðlagning milli tengdra lögaðila eigi að vera í samræmi við armslengdarregluna.
    Einnig eru lagðar til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.


Alþingi, 25. febrúar 2015.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir, frsm. Willum Þór Þórsson.
Vilhjálmur Bjarnason. Unnur Brá Konráðsdóttir. Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara.
  Pétur H. Blöndal. 

 



144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1040  —  356. mál.
3. umræða.

Breytingartillagavið frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum (samræming og einföldun).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar
(FSigurj, LínS, WÞÞ, VilB, UBK, GStein, PHB).


1.    Við c-lið 3. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skjölunarskylda gildir ekki um viðskipti milli tengdra lögaðila þegar allir aðilar eru heimilisfastir hér á landi. 
2.    Við bætist nýr kafli, VIII. kafli, Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, með einni grein, 20. gr., svohljóðandi: 
                  Eftirfarandi breytingar verða á viðauka við lögin: 
                a.     Í stað hlutfallstölunnar „7%“ í 1. málsl. kemur: 11%. 
                b.     Í stað „0301.1000–0301.9990“ í a-lið kemur: 0301.1100–0301.9990. 
                c.     Í stað „og 0401.3009“ í a-lið kemur: 0401.4009 og 0401.5009. 
                d.     Tollskrárnúmerið 0511.9119 í b-lið fellur brott. 
                e.     Í stað tollskrárnúmeranna 1001.1001, 1001.9001, 1002.0001, 1003.0001, 1004.0001, 1007.0001 og 1008.2001 í c-lið kemur: 1001.1910, 1001.9910, 1002.9010, 1003. 9010, 1004.9010, 1007.9010, 1008.2910. 
                f.     Á eftir tollskrárnúmerinu 1008.3001 í c-lið koma þrjú ný tollskrárnúmer, svohljóðandi: 1008.4010, 1008.5010, 1008.6010. 
                g.     Í stað tollskrárnúmersins 1008.9001 í c-lið kemur: 1008.9010. 
                h.     Í stað tollskrárnúmersins 1102.9021 í c-lið kemur: 1102.9091. 
                i.     Á eftir tollskrárnúmerinu 1104.3001 í c-lið koma þrjú ný tollskrárnúmer, svohljóðandi: 1105.2001, 1106.2001, 1108.1301. 
                j.     Tollskrárnúmerið 1301.1000 í c-lið fellur brott. 
                k.     Í stað tollskrárnúmersins 1301.9000 í c-lið kemur: 1301.9009. 
                l.     Tollskrárnúmerið 1302.1400 í c-lið fellur brott. 
                m.     Í stað tollskrárnúmeranna 1501.0011, 1501.0021, 1502.0011 og 1502.0021 í d-lið koma átta ný tollskrárnúmer, svohljóðandi: 1501.1011, 1501.2011, 1501.2021, 1501.9011, 1501.9021, 1502.1010, 1502.9010, 1502.9030. 
                n.     Tollskrárnúmerið 2836.1001 í g-lið fellur brott. 
                o.     Á eftir tollskrárnúmerinu 2836.9902 í g-lið kemur nýtt tollskrárnúmer, svohljóðandi: 2905.4910. 
                p.     Á eftir tollskrárnúmerinu 2922.4201 í g-lið kemur nýtt tollskrárnúmer, svohljóðandi: 2924.2960. 
                q.     Á eftir tollskrárnúmerinu 2925.1101 í g-lið koma fjögur ný tollskrárnúmer, svohljóðandi: 2932.1910, 2934.9910, 2938.9010, 2940.0010. 
3.    20. gr. orðist svo: 
                  Ákvæði 1.–3. gr., 6.–8. gr., 14.–18. gr. og a-liðar 20. gr. öðlast þegar gildi. 
                  Ákvæði 4.–5. og 9.–12. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu 2016 og á staðgreiðsluárinu 2015 eftir því sem við á. 
                  Ákvæði 13. gr. og b–q-liðar 20. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda fyrsta dag næsta mánaðar eftir gildistöku ákvæðanna. 
                  Ákvæði 19. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu 2016 vegna mismunar á fyrirframgreiðslu 2015 og álagningu 2016. 
4.    Í stað orðanna „og lögum um búnaðargjald“ í fyrirsögn frumvarpsins komi: lögum um búnaðargjald og lögum um virðisaukaskatt.

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur