Meðfylgjandi er frumvarp til laga um Íslandsstofu. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á laggirnar ný stofnun, Íslandsstofa, á grunni Útflutningsráðs Íslands. Verkefni Íslandsstofu verða m.a. að setja ramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands og að sinna markaðs- og kynningarmálum sem heyra undir Ferðamálastofu.
Áformað er að verkefni og fjárheimildir færist frá Útflutningsráði og einnig mun Íslandsstofa fá til ráðstöfunar fyrir sín verkefni hluta af fjárheimildum til ferðamála er tilheyra iðnaðarráðuneytinu.
Þannig er meðal tekna Íslandsstofu markaðsgjald, 0,05%, sem lagt er á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Um álagningu og innheimtu markaðsgjalds fer eftir ákvæðum þeirra laga. Markaðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
Ákvæði er um að verði ekki annað ákveðið með lögum falli markaðsgjaldið niður frá og með 1. janúar 2013, þó þannig að álagning gjaldsins fari fram árið 2013 vegna gjaldstofns ársins 2012.
Gert er ráð fyrir að lögin, ef frumvarpið hlýtur samþykki, taki þegar gildi við birtingu þeirra.