Þingmál. Landið eitt skattumdæmi. Nefndarálit og rökstudd dagskrá um frávísun á frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum. Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.
________________________________________
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 432 — 226. mál.
Nefndarálit
um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum.
Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.
Frumvarp þetta gengur út á það að landið verði gert að einu skattumdæmi undir yfirstjórn embættis ríkisskattstjóra. Með því er stefnt að aukinni skilvirkni í störfum. Minni hlutinn fellst ekki á slíka framkvæmd án þess að vandað sé betur til verka:
a. Samhliða stærstu skattkerfisbreytingu sem gerð hefur verið hér á landi í marga áratugi verði ekki farið í umfangsmiklar breytingar á skattumdæmum. Það fer ekki saman og getur beinlínis reynst hættulegt. Miðað við umsagnir við málið og fleiri gögn, og þær breytingar sem eru fram undan á skattkerfinu, má telja víst að hér séu stjórnvöld að færast of mikið í fang með því að fara einnig út í þessar breytingar.
b. Tillögur að breytingum verði unnar í nánu samráði við skattstjóraembættin út um landið. Þvert á móti var það ekki gert heldur voru tillögur unnar af vinnuhópi ráðherra sem skipaði tvo skrifstofumenn úr ráðuneyti, ríkisskattstjóra og aðeins tvo af níu af skattstjórum landsins. Aðrir fengu ekki að koma að störfum hópsins. Þar að auki hafa komið fram upplýsingar við þinglega meðferð málsins um að hópnum hafi verið sagt hvernig niðurstöður hans ættu að verða.
c. Vinna ætti málið í anda byggðastefnu stjórnvalda í stað þess að leggja fram tillögur sem í raun munu leggja niður skattstofur, m.a. í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og á Siglufirði. Í þessu felst ómakleg aðför að landsbyggðinni þar sem engar ráðningar verða í stað þeirra starfa sem losna. Rétt er að muna hversu miklu máli það getur skipt minni bæjarfélög ef jafnvel þrjú til fjögur störf eru lögð niður.
d. Nánari útfærsla mála ætti að liggja fyrir til að auðvelda starfsfólki vinnu sína áður en farið er í lagabreytingar. Þvert á móti er ekkert orðið ljóst um að hægt verði að dreifa verkefnum og ekkert orðið klárt varðandi framkvæmdarleg atriði. Það verður að gefa starfsmönnum skattsins frið og skattyfirvöldum kost á að kynna breytingarnar, enda eiga skrifstofur þeirra að vera tilbúnar að svara spurningum varðandi þær innan fárra daga.
e. Mikilvægast er að komið sé fram af virðingu við starfsfólk. Þvert á móti virðist fátt ef nokkuð vera fast í hendi fyrir það.
f. Algjör vissa ætti að ríkja um hvort breytingar á skattumdæmum landsins spari 140 millj. kr. árið 2010. Þvert á móti þykir líklegra að kostnaður við breytingarnar muni auka útgjöld ríkissjóðs.
Minni hlutinn mælist til þess að málið verði unnið með framangreindum hætti, sem sómi væri að, áður en Alþingi samþykkir lög í þessa veru.
Í ljósi þessa samþykkir Alþingi að aðhafast ekki frekar í málinu að svo stöddu og leggur til að það verði afgreitt með svofelldri
RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:
Þar sem færð hafa verið fyrir því gild rök að ekki sé hægt að fallast á slíka framkvæmd, án þess að fjármálaráðherra vandi betur til verka, samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.
Alþingi, 12. des. 2009.
Birkir Jón Jónsson,
frsm.
Pétur H. Blöndal.
Tryggvi Þór Herbertsson.