Search
Close this search box.

Nefndarálit og breytingartillögur við frv. til l. um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og frv.

Nefndarálit  og breytingartillögur við frv. til l. um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.

Meðfylgjandi er nefndarálit  og breytingartillögur frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.við frv. til l. um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
Breytingartillögurnar varða bæði málin. 

138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 433  —  81. og 82. mál.

Nefndarálit

 

um frv. til l. um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.

 

    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti, Valdimar Össurarson frá Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Elinóru Ingu Sigurðardóttur frá Félagi kvenna í nýsköpun, Ágúst H. Ingþórsson frá Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, Rögnvald J. Sæmundsson frá Rannsóknarmiðstöð Háskólans í Reykjavík, Finnboga Jónsson frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Hallgrím Jónasson frá Rannís, Frosta Sigurjónsson, Guðjón Má Guðjónsson og Hjálmar Gíslason.
    Markmið frumvarpsins er að styðja framlög til nýsköpunar og stuðla að aukinni verðmætasköpun. Annars vegar er lagt til að nýsköpunarfyrirtæki sem taka á sig kostnað vegna rannsóknar- og þróunarverkefna verði að greindum skilyrðum heimilt að draga tiltekið hlutfall kostnaðarins frá álögðum tekjuskatti (skattfrádráttur). Hins vegar er lagt til að einstaklingum og lögaðilum verði heimilt að greindum skilyrðum að draga frá tekjuskattsstofni kostnað vegna kaupa á hlutabréfum útgefnum af nýsköpunarfyrirtækjum (skattafsláttur vegna hlutafjáraukningar). Ákvæði frumvarpsins koma ekki til framkvæmda fyrr en það hefur fengið staðfestingu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem lögmæt ríkisaðstoð.
    Með nýsköpunarfyrirtæki er átt við þá lögaðila sem tilgreindir eru í 1. og 3. tölul. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003 og hlotið hafa staðfestingu Rannís skv. 4. gr. frumvarpsins (82. mál). Skilyrði staðfestingar falla ekki að öllu leyti saman þegar sótt er um skattfrádrátt, sbr. 5. gr., annars vegar og hlutafjáraukningu, sbr. 6. gr., hins vegar. Lögaðili á þess kost að sækja um hvort tveggja. Synjun Rannís á staðfestingu sætir ekki stjórnsýslukæru.
    Hlutverk skattyfirvalda er samkvæmt frumvarpinu að hafa eftirlit með framkvæmd skattfrádráttar og skattafsláttar vegna hlutafjáraukningar en um það gilda reglur III. kafla frumvarpsins og frumvarp sem lagt er fram samhliða til breytinga á lögum um tekjuskatt (81. mál).
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og töldu að efling rannsókna og þróunarstarfs væri forsenda öflugs atvinnulífs. Samband íslenskra sveitarfélaga tók fram að tilgangur frumvarpsins réttlætti lækkun tekna opinberra aðila sem af samþykkt þess kynni að leiða í ljósi væntinga um aukna verðmætasköpun til framtíðar.
    Við umfjöllun nefndarinnar var bent á þörfina fyrir að skilyrði frumvarpsins fyrir staðfestingu Rannís væru skýr og hlutlæg og enn fremur að orðskýringar veittu stofnuninni leiðsögn um hvort skilyrðin væru uppfyllt. Huga þyrfti vel að því hvað átt væri við með lykilhugtaki eins „nýsköpun“ en markmið frumvarpsins væri að auka fjárfestingu í henni. Innan nefndarinnar komu fram ólíkar skoðanir á því hversu víðtæka merkingu hugtakið hefði og hvaða aðili væri best til þess fallinn að meta nýnæmi.
    Rætt var hvort eðlilegt væri að fela Rannís vald til að staðfesta umsóknir lögaðila í ljósi þeirrar sérkunnáttu sem þar er til að dreifa og reynslu af rekstri ýmissa samkeppnissjóða. Töldu sumir að þessu valdi væri betur fyrir komið annars staðar og að jafnvel kæmi til greina að eftirláta löggiltum endurskoðendum þetta mat. Jafnframt var gagnrýnt að synjun Rannís á staðfestingu ætti samkvæmt frumvarpinu ekki að vera kæranleg til æðra stjórnvalds. Aðrir bentu á að tilgangur frumvarpsins væri ekki að niðurgreiða hvers konar breytingar sem horfðu til framfara innan fyrirtækja heldur að efla nýsköpun á sviði rannsókna. Hlutverk Rannís væri í því ljósi ekki óeðlilegt þótt e.t.v. mætti leyfa fulltrúum annarra aðila að taka þátt í staðfestingarferlinu eða gerð verklagsreglna sem liggja því til grundvallar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að verklagið verði ákveðið í samráði við helstu hagsmunaaðila og stofnanir á þessu sviði og þess verði gætt að umsóknarferlið verði einfalt, skýrt, hlutlægt og hraðvirkt.
    Áhyggjuefni þótti að skilyrði skattfrádráttar kynnu að vera of íþyngjandi og stæðu í vegi fyrir því að smærri þekkingarfyrirtæki nytu góðs af frumvarpinu. Talsmenn þeirra lögðu því sérstaka áherslu á að lækka fjárhæðina í 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins og hækka hlutfallstöluna í 1. mgr. 10. gr. (mál nr. 82). Fyrrnefnda greinin setur það sem skilyrði staðfestingar að lögaðili hafi varið a.m.k. 20 millj. kr. árlega til rannsókna og þróunar en hin síðarnefnda á við um hámark þess kostnaðar sem staðfestu nýsköpunarfyrirtæki er heimilt að leggja til grundvallar við útreikning á skattfrádrætti. Meiri hlutinn skilur framangreindar áhyggjur og leggur til að fjárhæðarmörkin lækki í 5 millj. kr. Einnig leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 3. tölul. 5. gr. frumvarpsins (82. mál) í þágu ungra fyrirtækja sem hafa oft ekki aðstöðu til rannsóknarstarfa.
    Í tilefni af athugasemdum sem fram komu á fundum nefndarinnar var áréttað af hálfu fjármálaráðuneytisins að lögaðili sem hlyti staðfestingu Rannís til aukningar á hlutafé uppfyllti þegar af þeirri ástæðu skilyrði til að fá staðfestingu til skattfrádráttar en ekki öfugt. Meiri hlutinn telur þessa tilhögun eðlilega.
    Nefndin ræddi árlegar heimildir skattaðila samkvæmt frumvörpunum (81. og 82. mál) til frádráttar frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga í viðurkenndu nýsköpunarfyrirtæki. Á hverju ári getur frádrátturinn numið 300.000 kr. í tilviki einstaklinga, 600.000 kr. hjá hjónum og 15 millj. kr. hjá lögaðilum. Sérstaklega var rætt hvort ástæða væri til að hækka þessi viðmiðunarmörk hjá einstaklingum eða heimila þeim að nýta á einu ári frádráttarheimildir næstu ára sem ætti að gera fjármögnun markvissari. Í annan stað var rætt hvort heimila ætti slíkan skattafslátt ekki aðeins þegar um beina fjárfestingu væri að ræða í nýsköpunarfyrirtæki heldur einnig þegar keypt væri hlutdeild í sjóði sem fjárfesti í slíkum fyrirtækjum. Voru færð rök fyrir því að sjóðirnir mundu auðvelda aðgengi fyrirtækjanna og draga úr áhættu fjárfesta vegna þessara viðskipta sem væru í eðli sínu áhættusöm. Af hálfu fjármálaráðuneytis var lagst gegn því að heimila skattafslátt vegna fjárfestingar í sjóðum þar sem skatteftirlit væri ekki undir það búið og í því efni vísað til fyrri reynslu af skattafslætti vegna hlutafjárkaupa. Jafnframt benti ráðuneytið á að yrði frumvarpið samþykkt kæmu lögin til endurskoðunar að liðnum tveimur árum. Meiri hlutinn fellst á sjónarmið ráðuneytisins. Einnig telur meiri hlutinn ekki ástæðu til að rýmka heimildir einstaklinga til fjárfestingar á þessu stigi en hvetur til þess að vel verði fylgst með þróun nýsköpunar verði frumvarpið samþykkt eins og Samtök verslunar benda á í umsögn sinni. Meiri hlutinn telur enn fremur eðlilegt að við mat á því hvort umsókn lögaðila fullnægi skilyrðum til hlutafjáraukningar verði hugað að vernd fjárfesta og með þeim almenna fyrirvara að fjárfesting í nýsköpun sé í eðli sínu áhættusöm.
    Við umfjöllun nefndarinnar var athygli vakin á því að skilgreining 6. tölul. 3. gr. (82. mál) á opinberu hlutafélagi sé hin sama og í 2. mgr. 1. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995.
    Meiri hlutinn áréttar að Rannís er ríkisstofnun og er samkvæmt því almennt bundin af stjórnsýslulögum.
    Að fengnum ábendingum Félags löggiltra endurskoðenda leggur meiri hlutinn til umorðun á orðalagi 3. mgr. 10. gr. (82. mál). Þá telur meiri hlutinn að tilvísun til sömu félagaforma í 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. sé óþörf enda komi skilgreining á nýsköpunarfyrirtæki fram í 5. tölul. 3. gr. (82. mál).
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 14. des. 2009.

Helgi Hjörvar,

form., frsm.

                                                                                                                                      Lilja Mósesdóttir.

Magnús Orri Schram.
Ögmundur Jónasson.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

 

138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 435  —  82. mál.

 

Breytingartillögur

 

við frv. til l. um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar (HHj, LMós, MSch, ÖJ, SII).

 

    1.      Við 5. gr.
                a.      Í stað tölunnar „20“ í 2. tölul. komi: 5.
                b.      3. tölul. orðist svo: starfsmenn hafi þjálfun, menntun eða reynslu af því sviði sem hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu byggist á.
    2.      Við 10. gr.
                a.      Orðin „sbr. skilyrði reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi“ í 1. málsl. 1. mgr. falli brott.
                b.      3. mgr. orðist svo:
                    Kostnaður sem ekki fellur til í atvinnurekstri tengdum rannsóknum og þróun skapar ekki frádráttarrétt hjá söluaðila, enda færist slíkur kostnaður til frádráttar hjá kaupanda.
    3.      Við 14. gr. Orðin „í sömu félagaformum“ í 2. málsl. 1. mgr. falli brott.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 434  —  81. mál.

Breytingartillaga

 

við frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar (HHj, LMós, MSch, ÖJ, SII).

 

    Í stað orðsins „vera” í 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. komi: nema.

    

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur