Nefndarálit og breytingartillaga (65.gr) um frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt, og fleiri lögum. Landið eitt skattumdæmi.Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.
Nál. og brttill.
Upphafl.frv:
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.
Þskj. 466 — 226. mál.
Undirskrift.
Nefndarálit
um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum.
Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Angantý Einarsson frá fjármálaráðuneyti, Skúla Eggert Þórðarson frá ríkisskattstjóra, Stefán Skjaldarson frá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins, Steinþór Haraldsson frá skattstofunni á Suðurlandi, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Árni Stefán Jónsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna. Þá átti nefndin símafund með Inga Tómasi Björnssyni frá skattstofunni í Vestmannaeyjum, Rósu Helgu Ingólfsdóttur frá skattstofunni á Ísafirði og Hönnu Björnsdóttur frá skattstofunni á Siglufirði.
Í frumvarpinu er lagt til að landið skuli vera eitt skattumdæmi og að starfsstöðvum verði skipað niður samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Skattumdæmin verða samkvæmt því sameinuð undir embætti ríkisskattstjóra sem eitt umdæmi og eitt stjórnsýslustig. Staðbundin valdmörk skattstjóra sem nú eru níu talsins verða með breytingunum felld niður og skattákvarðanir verða teknar óháð búsetu gjaldanda.
Tillögur fjármálaráðuneytis sem búa að baki frumvarpinu gera ráð fyrir að fimm skattstofur verði reknar á landinu auk skrifstofu ríkisskattstjóra, þar af verði ein skattstofa á höfuðborgarsvæðinu og fjórar á landsbyggðinni, þ.e. á Vesturlandi/Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Megintilgangur breytinganna er að færa rekstrarkostnað skattkerfisins til samræmis við markmið fjárlagafrumvarpsins og jafnframt að auka skilvirkni í störfum þess.
Í athugasemdum við frumvarpið er lögð áhersla á að þessum skipulagsbreytingum sé ekki ætlað að leiða til fækkunar starfa með uppsögnum, skerts þjónustustigs eða lakari stöðu landsbyggðarinnar. Hins vegar megi búast við að störf verði endurskilgreind og verkefni sameinuð til að unnt verði að ná rekstrarhagræðingu. Það geti orðið til þess að starfseiningum fækki á næstu árum.
Nefndin ræddi áhrif frumvarpsins á stöðu starfsmanna skattkerfisins og áhyggjur af því hvernig þjónustu verði háttað á þeim stöðum þar sem skattstofur verða ekki lengur starfandi. Í umsögn embættis ríkisskattstjóra kemur fram að ekki standi til að segja fastráðnu starfsfólki upp vegna áformaðra breytinga en að líkur séu á að ekki verði endurráðið í störf þeirra sem hætta af eðlilegum ástæðum. Fyrirsjáanlega muni starfsmönnum skattkerfisins fækka á næstu árum en að sú fækkun verði mun meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Fram kom að við niðurlagningu embætta skattstjóra myndaðist réttur til biðlauna en almennt væri gert ráð fyrir að þeir yrðu áfram við stjórn skattstofa sinna.
Að mati ríkisskattstjóra er sameining skattumdæma til þess fallin að hafa mikil samlegðaráhrif sem birtist m.a. í samræmdari skattframkvæmd og sérhæfingu verkefna innan skattkerfisins sem í mörgum tilvikum er hægt að vinna óháð staðsetningu. Aðrir telja aðdraganda breytinganna of skamman í ljósi aðstæðna og að þröng verkaskipting skattstofa geti skaðað nærþjónustu á landsbyggðinni. Fækkun starfa geti auk þess haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir lítil bæjarfélög.
Nefndin er hlynnt sameiningu skattumdæma en leggur áherslu á að landsbyggðin njóti góðs af útvistun verkefna. Nefndin leggur einnig til breytingar á frumvarpinu sem miða allar að því að í stað þess að lokaákvörðun á stjórnsýslustigi um tiltekin atriði verði hjá ríkisskattstjóra verði unnt að skjóta ákvörðunum hans til yfirskattanefndar sem tekur endanlega ákvörðun í málinu á stjórnsýslustigi.
Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGUM:
1. Lokamálsliður 4. gr. falli brott.
2. C-liður 7. gr. falli brott.
3. A-liður 24. gr. orðist svo: 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Nú telur skattaðili skatt sinn eða skattstofn, þar með talin rekstrartöp, ívilnun skv. 65. gr. og reikningsár skv. 1. mgr. 59. gr., ekki rétt ákveðinn og getur hann þá sent rökstudda kæru, skriflega eða rafræna, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, studda nauðsynlegum gögnum, til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu auglýsingar ríkisskattstjóra um að álagningu skv. 1. mgr. 98. gr. sé lokið.
4. B-liður 25. gr. falli brott.
Alþingi, 14. des. 2009.
Helgi Hjörvar,
form., frsm.
Lilja Mósesdóttir.
Magnús Orri Schram.
Ögmundur Jónasson.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Þór Saari.