Search
Close this search box.

Lög um breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa ofl.

Lög um breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa ,lögum um málefni aldraðra  ofl. GIFA 2010 – Ábsjgjald (Trygggj) 2010.

Samkvæmt meðfylgjandi lögum sem samþykkt voru á Alþingi 18.12 sl verður gjald í framkvæmdarsjóð aldraðara við álagningu í sumar kr 8 400 (var 7 534) og
tekjuviðmiðun  kr 1 361 468  (LÆKKUN : Var 1 143 362 ) . Aldursmörk verða eins og lög standa til , þau sem fædd eru 1940 og síðar.

Samkvæmt lögunum hækkar ábyrðarsjóðsgjald launa í 0,25% (var 0,20%) og tryggingagjald á laun greidd 2010 samsvarandi.

Í lögunum eru einnig ótal ákvæði um hinar ýmsu tekjutengingar og viðmiðanir almmannatryggingakerfis, fæðingarorlofs ofl ofl.

Lögin hafa enn ekki verið birt.

 

 

Lög

um breytingu á lögum um almannatryggingar,
lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa,
lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra
og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum.

 

I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar,
með síðari breytingum.
1. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
    a.      Í stað orðsins „tveimur“ í 6. mgr. kemur: þremur.
    b.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta, sbr. 55. gr.

3. gr.

    Á eftir 1. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Úrskurðir nefndarinnar um endurkröfur ofgreiðslna skv. 1. mgr. 7. gr. eru aðfararhæfir.

4. gr.

    Í stað „16 til 67 ára“ í 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: 18 til 67 ára.

5. gr.

    Við 1. mgr. 34. gr. laganna bætist: með þeirri undantekningu að réttur til örorkulífeyris reiknast frá 16 ára aldri.

6. gr.

    Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er heimilt, að ósk umsækjanda eða bótaþega, að fresta greiðslu bóta og greiða bætur í einu lagi eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur umsækjanda eða bótaþega á bótagreiðsluárinu liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
    a.      Á eftir orðinu „bótaþega“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða dánarbúi hans.
    b.      Á eftir orðunum „um tekjuaukninguna“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eða aðrar breyttar aðstæður.
    c.      3. mgr. orðast svo:
                Ofgreiddar bætur skal að jafnaði draga frá greiðslum til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir að krafa stofnast. Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu. Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að krafa stofnaðist skal greiða 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfunnar. Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum .
    d.      Á eftir orðinu „honum“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: eða dánarbúi hans.
    e.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta samkvæmt ákvæði þessu eru aðfararhæfar, sbr. þó 7. mgr. 8. gr.

8. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    14.      Þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna skal örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2010 hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
    15.      Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. laganna skulu bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., ekki breytast á árinu 2010.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð,
með síðari breytingum.
9. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
    a.      3. málsl. 2. mgr. fellur brott.
    b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.

11. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
    Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
    Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.
    Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.

12. gr.

    9. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Uppbætur á lífeyri.

    Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna.
    Heimilt er að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 180.000 kr. á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 153.500 kr. á mánuði.
    Til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi.
    Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
    b.      Á eftir 1. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa,
með síðari breytingum.
14. gr.

    1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Kröfur skv. a–d-lið 5. gr. skulu bera vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga þeirra til þess dags er Ábyrgðasjóður launa greiðir kröfuna.

15. gr.

    Í stað „0,2%“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: 0,25%.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum.
16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
    a.      Á eftir orðunum „80% af meðaltali heildarlauna“ í 2. mgr. kemur: að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna sem umfram er.
    b.      Í stað „350.000 kr.“ í 3. mgr. kemur: 300.000 kr.
    c.      Á eftir orðunum „80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af“ í 5. mgr. kemur: að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals reiknaðs endurgjalds sem umfram er.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    a.      Í stað „7.534“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 8.400.
    b.      Í stað „1.143.362“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 1.361.468.

18. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Nú tekst stofnun ekki að innheimta hlut vistmanns í dvalarkostnaði og er Tryggingastofnun ríkisins þá heimilt að halda eftir samsvarandi hluta af mánaðarlegum greiðslum vistunarframlags til viðkomandi stofnunar.

19. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (VI.)
    Vegna útreiknings á vistunarframlagi skv. 21. gr. laganna er á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2010 unnt að óska eftir því að Tryggingastofnun ríkisins beri saman útreikning vistunarframlags fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 17/2008. Ef samanburðurinn leiðir til aukinnar kostnaðarþátttöku vistmanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta vistunarframlag vegna framangreinds tímabils til samræmis við það.

    b. (VII.)
    Framkvæmdasjóði aldraðra er heimilt að verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða rekstrarárin 2012 og 2013.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.
20. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lán vegna hjúkrunarheimila eru lán sem Íbúðalánasjóður veitir sveitarfélögum til kaupa eða byggingar hjúkrunarheimila á grundvelli samnings um byggingu og leigu hjúkrunarheimila fyrir aldraða milli félags- og tryggingamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis annars vegar og viðkomandi sveitarfélags hins vegar með veði í hlutaðeigandi eign.

21. gr.

    Á eftir 29. gr. laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Lán vegna hjúkrunarheimila, með einni nýrri grein, 30. gr., er orðast svo ásamt fyrirsögn:

Almennt.

    Íbúðalánasjóði er heimilt að veita sveitarfélögum lán vegna hjúkrunarheimila sem nemur allt að 100% af byggingarkostnaði eða kaupverði hjúkrunarheimilis fyrir aldraða á grundvelli samnings sem gerður hefur verið milli félags- og tryggingamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis annars vegar og viðkomandi sveitarfélags hins vegar um byggingu og leigu hjúkrunarheimilis.
    Lán vegna hjúkrunarheimila skulu tryggð með veði á fyrsta veðrétti í hlutaðeigandi hjúkrunarheimili. Lánið er verðtryggt með föstum vöxtum án heimildar til uppgreiðslu þess. Lánstíminn má nema allt að 40 árum.
    Íbúðalánasjóði er heimilt að veita sveitarfélögum lán á framkvæmdatíma sem nemur allt að 100% byggingarkostnaðar eins og kostnaðurinn er við lánveitingu á grundvelli samningsins um byggingu og leigu hjúkrunarheimilis, sbr. 1. mgr., enda séu fullnægjandi tryggingar veittar að mati stjórnar Íbúðalánasjóðs.
    Félags- og tryggingamálaráðherra setur með reglugerð frekari ákvæði um skilyrði lána vegna hjúkrunarheimila, svo sem lánsumsóknir, lánskjör og lánveitingu, þar með talið lánveitingu á framkvæmdatíma.

VII. KAFLI
Gildistaka.
22. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010.
    Ákvæði 14. gr. á við um kröfur sem hafa fallið í gjalddaga 1. júlí 2009 eða síðar.
    Ákvæði 17. gr. kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2010 vegna tekna ársins 2009.

 

 

Samþykkt á Alþingi 18. desember 2009.

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur