Search
Close this search box.

AUGLÝSING frá ríkisskattstjóra um fresti til að skila framtölum og form framtala vegna álagningar op

AUGLÝSING

frá ríkisskattstjóra um fresti til að skila framtölum og form framtala vegna álagningar opinberra gjalda á árinu 2010 á tekjur ársins 2009 og eignir í lok þess árs.

Skilafrestir:

1. gr.

Framtölum manna, þ.m.t. þeirra sem látist hafa á árinu 2009, skal skila rafrænt á vefnum skattur.is eða á pappír á skattstofu eða aðalskrifstofu ríkisskattstjóra eigi síðar en 23. mars 2010.

Unnt er að sækja um aukinn skilafrest á vefnum skattur.is. Lengdum skilafresti lýkur dagana 29. mars til 31. mars n.k., samkvæmt slembidreifingu.

2. gr.

Framtalsskyldir lögaðilar, þ.m.t. dánarbú þar sem skiptum hafði ekki verið formlega lokið í árslok 2008, skulu skila framtali rafrænt á vefnum skattur.is eða á pappír á skattstofu eða aðalskrifstofu ríkisskattstjóra eigi síðar en 31. maí 2010. Gera skal grein fyrir rekstri sameignarfélaga, sem eru ósjálfstæðir skattaðilar, með framtölum eigenda.

3. gr.

Þeir lögaðilar, sem fengið hafa heimild til að hafa annað reikningsár til skattskila en almanaksárið, skulu skila framtali rafrænt á vefnum skattur.is eða á pappír á skattstofu eða aðalskrifstofu ríkisskattstjóra eigi síðar en 5 mánuðum eftir lok reikningsárs.

4. gr.

Þeir framteljendur, sem af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem veikindum eða vegna dvalar erlendis, geta ekki skilað framtali sínu innan ofangreindra fresta, skulu skila framtali sínu svo fljótt sem auðið er, rafrænt á vefnum skattur.is eða á pappír á skattstofu eða aðalskrifstofu ríkisskattstjóra, og gera grein fyrir ástæðum síðbúinna skila með athugasemd á framtalinu.

Form og skilamáti framtala:

5. gr.

Menn skulu gera grein fyrir tekjum sínum á árinu 2009 og eignum í lok þess árs með eftirfarandi hætti:

a) Á rafrænu skattframtali 2010 (RSK 1.01) á þjónustusíðu á vefnum skattur.is.

b) Með dulrituðu og undirrituðu skeyti úr framtalsforritum 2010, sem vottuð hafa verið af ríkisskattstjóra.

c) Á skattframtali 2010 (RSK 1.01), sem ríkisskattstjóri hefur gefið út á pappír.

d) Á skattframtali 2010 (erlendir starfsmenn) RSK 1.10 (enska) eða RSK 1.13.

Skattframtali manns í atvinnurekstri skal fylgja ársreikningur auk tilskilinna fylgiskjala, sbr. 6. gr.

6. gr.

Menn, sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi á árinu 2009, skulu með skattframtali sínu 2010 gera grein fyrir tekjum sínum og eignum tengdum rekstri á neðangreindum eyðublöðum er fylgja skulu skattframtali 2010:

a) Séu tekjur (velta) undir kr. 500.000 og eignir í rekstri engar eða óverulegar og framteljandi var jafnframt ekki með virðisaukaskattsnúmer á árinu 2009 skal skila eyðublaðinu RSK 4.10.

b) Sé velta á bilinu kr. 500.000 til kr. 20.000.000 skal skila eyðublaðinu RSK 4.11 ásamt viðeigandi fylgiskjölum, enda sé ekki um að ræða samrekstur, fráviksaðferðir í reikningshaldi eða byggingastarfsemi, þar sem beitt er verklokaaðferð. Réttilega útfyllt eyðublað RSK 4.11, sem uppfyllir jafnframt öll skilyrði III. kafla laga um bókhald, telst fullnægjandi ársreikningur í þessu tilliti. Sé eðli starfseminnar hins vegar þannig að sundurliðun á tekjum, gjöldum, eignum og skuldum samkvæmt RSK 4.11 gefi ekki skýra mynd af henni, s.s. sundurliðun helstu tekna- og kostnaðarliða, skal sérstakur ársreikningur fylgja framtali ásamt RSK 4.11.

c) Sé velta yfir kr. 20.000.000 eða um er að ræða samrekstur, fráviksaðferðir í reikningshaldi eða byggingastarfsemi, þar sem beitt er verklokaaðferð, skal skila eyðublaðinu RSK 1.04 ásamt ársreikningi og viðeigandi fylgiskjölum.

7. gr.

Vegna búrekstrar skulu neðangreind eyðublöð fylgja skattframtali manns eða lögaðila:

a) Skattframtali manns skal fylgja eyðublaðið RSK 4.08, í stað RSK 1.04 eða RSK 4.11.

b) Skattframtali lögaðila RSK 1.04, sbr. 8. gr., skal fylgja eyðublaðið RSK 4.07 ef um rafræn framtalsskil er að ræða. Ef skattframtali lögaðila er skilað á pappír skal fylgja útfylltur bústofnshluti landbúnaðarskýrslu RSK 4.08, ásamt framtali vegna búnaðar-gjalds RSK 1.09.

8. gr.

Lögaðilar skulu gera grein fyrir tekjum sínum á árinu 2009 og eignum í lok þess árs með eftirfarandi hætti:

a) Á rafrænu skattframtali 2010 (RSK 1.04) á þjónustusíðu á vefnum skattur.is.

b) Með dulrituðu og undirrituðu skeyti úr framtalsforritum 2010, sem vottuð hafa verið af ríkisskattstjóra.

c) Á skattframtali rekstraraðila 2010 (RSK 1.04), sem ríkisskattstjóri hefur gefið út á pappír.

d) Lögaðilar, sem telja sig undanþegna skattskyldu skv. 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga, skulu skila skattframtali 2010 í samræmi við ofanritað.

e) Lögaðilar, sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. tekjuskattslaga, að frá töldum aðilum skv. 4. tölul. 4. gr., eiga ekki að skila skattframtali lögaðila RSK 1.04 vegna tekjuskatts, en beri þeim að standa skil á öðrum sköttum og gjöldum við álagningu 2010, þá skal það gert í rafrænum skilum á eyðublaðinu RSK 1.06 eða á viðeigandi eyðublöðum á pappír vegna tryggingagjalds (RSK 1.05), fjármagns-tekjuskatts (RSK 1.07), iðnaðarmálagjalds (RSK 1.08) eða búnaðargjalds (RSK 1.09).

Ársreikningi og öðrum tilskildum fylgiskjölum lögaðila skal skilað á sama tíma og skattframtali og með sama hætti og því er skilað, þ.e. rafrænum eða á pappír.

9. gr.

Auglýsing þessi er birt skv. 90. og 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tekur þegar gildi.


Reykjavík 29. janúar 2010.

________________________________________

Skúli Eggert Þórðarson
ríkisskattstjóri


Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur