05.11.2010 10-008
Hluti arðs er  telst til tekna sem laun 
Ríkisskattstjóri hefur þann 30. ágúst 2010 móttekið fyrirspurn varðandi þann hluta arðs sem telja ber til tekna sem launatekjur samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Frambornar spurningar og svör ríkisskattstjóra við þeim  eru eftirfarandi:
„Hvernig/hvar/hvað“ er skattalegt eigið fé sem  prósenturnar reiknast út frá að þínu mati?“
Skattalegt eigið fé  félags er eignir félagsins að frádregnum skuldum. Á framtali rekstraraðila er  skattalegt eigið fé nú fært í reit [7990]1.
„Hver reiknar það,  hvenær og hvernig?“
Það félag sem greiðir út arðinn reiknar út frá  eigin fé, í árslok viðmiðunarárs, hvernig skiptingin á að vera ef um skiptingu  er að ræða yfir höfuð. Sjá svar við fyrstu spurningunni varðandi það hvernig  skattalegt eigið fé er fundið.
„Hvílir það ekki á atvinnurekenduum að  skila inn greiðslum?“
Það hvílir á þeim aðila sem greiðir/úthlutar  arði að halda eftir staðgreiðslu af honum og skila í ríkissjóð, eftir atvikum  fjármagnstekjuskatti eða staðgreiðslu af launum.
„Við hvað á að miða  ef skattframtal er í september en arðsúthlutun fer fram í janúar?“
Af  ákvæði 99. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, leiðir að samþykktur  ársreikningur verður að liggja fyrir áður en arðsúthlutun fer fram. Er því ljóst  að þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við útreikning á skattalegu eigin fé  samkvæmt framansögðu eru til staðar þrátt fyrir að ekki hafi verið gengið frá  skattframtali félagsins.
„Hvernig verða  launamiðar/hlutafjármiðar?“
Það liggur ekki fyrir á þessari stundu.  Upplýsingar um það verða kynntar bráðlega.
„Getur þú ímyndað þér  hvernig þetta er fært í launakerfum?“
Ríkisskattstjóri getur ekki svarað því hvernig upplýsingar skulu færðar í launakerfið. Gera þarf ráð fyrir því að unnt sé að veita skattyfirvöldum upplýsingar um þann hluta arðsúthlutunar sem telst til launa.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem hefur orðið á svari.