Í meðfylgjandi máli stefndi tryggingarfélag tjónþola vegna vangreiðslu.
Tjón varð á gólfi með þeim hætti að parket varð fyrir skemmdum af völdum leka. Tryggingafélagið bætti allt tjónið, þ.m.t. virðisaukaskatt á íhluti og vinnu. Þar sem að tjónþolinn er skráður aðili bar honum að telja þennan skatt til innskatts hjá sér og endurgreiða hann tryggingafélaginu..
Byggt var af hálfu félagsins á skjali sem tjáðist vera minnisatriði ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt og vátryggingar og hafði verið lagt fram á félagsfundi Sambands íslenskra tryggingafélaga 22. janúar 1990.
Í minnisatriðunum segir svo: „Láti tryggingarfélag gera við tjónamun greiðir það virðisaukaskatt af viðgerðinni og fær hann ekki frádreginn, sbr. lið I. Sé tryggingartaki (tjónþoli) skráður aðili getur hann hins vegar talið þennan skatt til innskatts hjá sér að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum: – Vátryggingarfélagið afhendi tjónþola frumrit kvittaðs reiknings fyrir viðgerðinni. – Á reikningi viðgerðaraðila komi fram að viðgerðin sé vegna eignar tryggingartaka, þ.e. fram skal koma lýsing þeirrar eignar sem viðgerð varðar og hver sé eigandi.“
Í málinu taldist ósannað að meginskilyrði téðra minnisatriða ríkisskattstjóra hafi verið uppfyllt og einnig sýnt að tryggingarfélagið hefði sýnt verulegt tómlæti við að gæta ætlaðs réttar síns .
Tjónþolinn var sýknaður.