Search
Close this search box.

Dómur. Hérd.Refsimál. North Bygg ehf / Birgir Einarsson. Staðgreiðsluskil.

Meðfylgjandi refsimál má rekja til ábendingar skiptastjóra þrotabús North Bygg ehf til skattrannsóknarstjóra um  vanskil á staðgreiðslu þeirri sem félaginu hefði borið að skila vegna starfsmanna þess, alls 15,7 millj.kr.
Mál var höfðað eftir ákæru sérstaks saksóknara í mars sl. gegn framkvæmdastjóra félagsins og gerð krafa um refsingu. Framkvæmdastjórinn neitaði sök og taldi það vera á ábyrgð endurskoðunarfyrirtækis að standa skil á staðgreiðsluskilagreinum North Bygg.
Í niðurstöðu dómsins segir að manninum hafi sjálfum borið skylda til að annast um að starfsemi félagsins væri í réttu horfi og að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld og stæði skil á skilagreinum til skattyfirvalda á lögmæltum tíma. Tók dómarinn fram að það
  firri mann ekki ábyrgð að hann hafi falið bókhaldsstofu að annast útreikning launa og færslu bókhalds.
Var framkvæmdastjórinn, sem átti nokkurn sakaferil í skattamálum að baki, dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi auk 31,5 millj, króna sektar.
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2012 í máli nr. S-193/2012:
Ákæruvaldið
(Ásmunda Björg Baldursdóttir saksóknarfulltrúi) gegn Birni Einarssyni (Kristján Stefánsson hrl.)
             Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 6. júní 2012, er höfðað með ákæru, útgefinni af sérstökum saksóknara 16. mars 2012, á hendur Birni Einarssyni, kennitala 000000-0000, Þverási 25, Reykjavík, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélagsins North Bygg ehf., kt.
00000-0000, með því að hafa eigi staðið skil á skilagreinum einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna september, október og desember rekstrarárið 2008, janúar, febrúar, mars, maí, ágúst, september, nóvember og desember rekstrarárið 2009 og janúar og febrúar rekstrarárið 2010, og hafa eigi staðið ríkissjóði, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins, vegna greiðslutímabilanna september rekstrarárið 2008 til og með mars rekstrarárið 2010, samtals að fjárhæð 15.729.530 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir:
Greiðslutímabil:                      Vangoldin staðgreiðsla:
Árið 2008:
september                                kr.  1.226.641
október                                    kr.  1.375.875
nóvember                                kr.  1.423.229
desember                                 kr.      643.271
                                                 kr.  4.669.016
Árið 2009:
janúar                                      kr.      363.100
febrúar                                     kr.      357.509
mars                                         kr.      329.660
apríl                                         kr.      299.060
maí                                          kr.      377.524
júní                                          kr.      875.619
júlí                                           kr.      809.428
ágúst                                        kr.   1.282.918
september                                kr.   1.109.574
október                                    kr.   2.268.210
nóvember                                kr.      964.188
desember                                 kr.   1.046.760
                                                 kr. 10.083.550
Árið 2010:
janúar                                      kr.       848.688
febrúar                                     kr.         82.596
mars                                         kr.         45.680
                                                 kr.      976.964
Samtals:                                   kr.  15.729.530
Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 2. mgr. 30. gr.
laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr.
42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005.
             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
             Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa, sem jafnframt verði bundin skilorði að öllu leyti. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
      Með bréfi, dagsettu 2. maí 2012, vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli ákærða til lögreglurannsóknar, á grundvelli gagna um rannsókn á skilum einkahlutafélagsins North Bygg á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda.
      Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2010 var bú North bygg ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Kemur fram í kæru skattrannsóknarstjóra að ábending skiptastjóra þrotabúsins hafi verið tilefni rannsóknar á skattskilum lögaðilans. Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, útgefnu 22. nóvember 2010, var skráður tilgangur North Bygg ehf. hvers kyns hönnunar- og byggingarstarfsemi, rekstur fasteigna og almenn lánastarfsemi. Var ákærði, Björn Einarsson, skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Ákærði gaf skýrslu vegna málsins hjá sérstökum saksóknara 1. febrúar 2012 og var ákæra gefin út á hendur honum 16. mars sl., sem að framan greinir.
      Ákærði neitaði sök í þinghaldi 9. maí sl. og kvað það hafa verið á ábyrgð endurskoðunarfyrirtækis að standa skil á skilagreinum North Bygg ehf. á lögmæltum tíma. Þá kvaðst ákærði ekki geta tekið afstöðu til ákæru um vanrækslu staðgreiðslu opinberra gjalda. Var bókað eftir verjanda ákærða að það væri ?vegna óskýrleika í rannsóknargögnum og ennfremur að ákæra virðist m.a. lúta að greiðslu á uppsagnartíma eftir að fyrirtækið hætti störfum?.
      Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið eigandi North Bygg ehf. og kannaðist við að hafa jafnframt verið skráður framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi á því tímabili sem ákæra tekur til. Þá kvaðst hann hafa annast daglegan rekstur félagsins. Ákærði kvað tilgreinda bókhaldsstofu hafa annast færslu bókhalds félagsins, útreikning launa til starfsmanna og skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda.
Bornar voru undir ákærða staðgreiðsluskilagreinar, ásamt gögnum um launagreiðslur félagsins og sundurliðunarfærslur vegna staðgreiðslu þau tímabil sem ákæra tekur til. Ákærði kvaðst ekki geta staðfest að þessi gögn væru rétt, en ekki geta rengt það heldur. Hann kvaðst reikna með að gögnin sem stöfuðu frá bókhaldsstofunni væru rétt. Hann kvaðst ekki hafa fylgt því eftir að starfsmenn bókhaldsstofunnar stæðu skil á skilagreinum.
Ákærði gerði ekki tölulegar athugasemdir við ákæruna.
      Ekki var talin þörf á að vitnaleiðslur færu fram í málinu.
Niðurstaða
             Ákærði var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins North Bygg á þeim tíma sem ákæra tekur til og hefur hann jafnframt kannast við að hafa annast daglegan rekstur félagsins.
Ákærði hefur ekki borið brigður á að ekki hafi verið staðið skil á skilagreinum einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma, svo sem í ákæru greinir. Hann neitar hins vegar sök að þessu leyti og hefur borið að starfsmenn bókhaldsstofu hafi borið ábyrgð á því að annast skil á skilagreinum til skattyfirvalda.
Þá hefur ákærði borið að hann geti ekki staðfest að vanhöld hafi verið á staðgreiðsluskilum og verða varnir ákærða skildar svo að hann telji gögn málsins er þetta varðar óskýr. Gögnin sem um ræðir eru skýr og voru þau borin undir ákærða við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann þá hvorki rengja þau, né gera tölulegar athugasemdir við ákæruna. Verður óljósum mótbárum ákærða á þessum grundvelli hafnað.
Samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 bar ákærða skylda til að annast um að starfsemi félagsins væri í réttu horfi og jafnframt að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld og stæði skil á skilagreinum til skattyfirvalda á lögmæltum tíma. Það firrir hann ekki ábyrgð að hann hafi falið bókhaldsstofu að annast útreikning launa og færslu bókhalds. Með vísan til þessa, og gagna málsins að öðru leyti, verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og telst háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.
             Ákærði er fæddur árið 1946. Hann gekkst undir sektarrefsingu árið 1999 vegna brots gegn skattalögum. Þá var hann dæmdur 27. maí 2011 fyrir brot gegn skattalögum. Var sakfelling í því máli staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands frá 19. janúar 2012 í málinu nr. 413/2011 og ákærði dæmdur til fimm mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í tvö ár, auk greiðslu sektar til ríkissjóðs. Brot ákærða sem hann er sakfelldur fyrir í máli þessu voru framin fyrir uppkvaðningu héraðsdóms í framangreindu máli.
Verður dómurinn því tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi fyrir bæði málin, sbr. 60. gr. og 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
             Sektarrefsing verður ákveðin með hliðsjón af lögbundnu refsilágmarki svo að nemi tvöfaldri vanskilafjárhæð, sbr. 2. mgr. 30. gr.
laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Verður ákærði dæmdur til að greiða 31.500.000 króna í sekt til ríkissjóðs og komi 240 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan þess tíma sem í dómsorði greinir.
             Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 401.600 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið mið af vinnu lögmannsins við meðferð málsins hjá skattrannsóknarstjóra, embætti sérstaks saksóknara og fyrir dómi og eru þau jafnframt ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
             Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ásmunda Björg Baldursdóttir saksóknarfulltrúi.
             Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
             Ákærði, Björn Einarsson, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
             Ákærði greiði 31.500.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 240 daga.
             Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 401.600 krónur.
                                                             Ragnheiður Harðardóttir
Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur