D Ó M U RHéraðsdóms Reykjaness mánudaginn 2. mars 2015 í máli nr. S-535/2014:
Ákæruvaldið
(Kristín Ingileifsdóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
Geir Sæmundssyni
(Sveinn Jónatansson hdl.)
Mál þetta er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, útgefinni 10. október 2014, á hendur Geir Sæmundssyni, kt. 000000-0000, búsettum í Kanada. Í ákærunni eru ákærða gefin að sök hegningarlagabrot og meiri háttar háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdarstjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins GG tæki (nú þrotabú), kt. 000000-0000, „með því að hafa:
1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu einkahlutafélagsins fyrir tímabilið júlí – ágúst rekstarárið 2012 innan lögboðins tíma og fyrir að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna september–október rekstrarárið 2010, mars–apríl, júlí–ágúst, september–október og nóvember-desember rekstrarárið 2011, janúar–febrúar, mars– apríl, júlí–ágúst, september–október og nóvember-desember rekstrarárið 2012, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 6.410.207, sem sundurliðast sem hér greinir:
Árið 2010 | ||
september – október | kr. | 367.325 |
367.325 | ||
Árið 2011 | ||
mars – apríl | kr. | 1.262.990 |
júlí – ágúst | kr. | 426.426 |
september – október | kr. | 1.965.976 |
nóvember – desember | kr. | 240.150 |
3.895.542 | ||
Árið 2012 | ||
janúar – febrúar | kr. | 302.843 |
mars – apríl | kr. | 229.976 |
júlí – ágúst | kr. | 288.060 |
september – október | kr. | 935.439 |
nóvember – desember | kr. | 391.022 |
2.147.340 | ||
Samtals | kr. | 6.410.207 |
2. Eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðsluskilagreinum fyrir tímabilin júní og september rekstrarárið 2011, júní, september, október og desember rekstrarárið 2012 og janúar rekstrarárið 2013 innan lögboðins frests og fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna nóvember og desember rekstrarárið 2010, allra greiðslutímabila rekstraráranna 2011 og 2012, og janúar rekstrarárið 2013, samtals að fjárhæð kr. 9.205.952, sem sundurliðast sem hér greinir.
Árið 2010 | ||
nóvember | kr. | 266.715 |
desember | kr. | 207.894 |
474.609 | ||
Árið 2011 | ||
janúar | kr. | 516.989 |
febrúar | kr. | 353.107 |
mars | kr. | 427.735 |
apríl | kr. | 496.530 |
maí | kr. | 517.048 |
júní | kr. | 154.164 |
júlí | kr. | 549.520 |
ágúst | kr. | 405.785 |
september | kr. | 556.727 |
október | kr. | 502.389 |
nóvember | kr. | 757.048 |
desember | kr. | 268.073 |
5.505.115 | ||
Árið 2012 | ||
janúar | kr. | 280.709 |
febrúar | kr. | 364.691 |
mars | kr. | 144.324 |
apríl | kr. | 255.829 |
maí | kr. | 176.223 |
júní | kr. | 176.223 |
júlí | kr. | 148.840 |
ágúst | kr. | 190.525 |
september | kr. | 220.030 |
október | kr. | 225.070 |
nóvember | kr. | 369.551 |
desember | kr. | 396.802 |
2.948.817 | ||
Árið 2013 | ||
janúar | kr. | 279.917 |
febrúar | kr. | – 2.506 |
277.411 | ||
Samtals | kr. | 9.205.952 |
Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.
b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið ákæru.“
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.
I
Ákærði hefur fyrir dómi játað skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tekur til. Samræmist játningin rannsóknargögnum málsins, en ákæra styðst við lögreglurannsókn sem fram fór á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til embættis sérstaks saksóknara 15. október 2013 og rannsóknargagna sem því fylgdu. Hafa með þessu verið færðar viðhlítandi sönnur fyrir sakargiftum samkvæmt ákæru. Eru brotin réttilega heimfærð þar til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.
II
Með 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005 var nýjum málsliðum bætt við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Þeir eru efnislega samhljóða á þá leið að fésektarlágmark samkvæmt þessum málsgreinum eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu opinberra gjalda samkvæmt skilagrein eða virðisaukaskatti samkvæmt virðisauka-skattskýrslu, „enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar“.
Ákærði hefur haldið uppi þeirri málsvörn að niðurlagsorð framangreindra lagaákvæða um miklar málsbætur eigi hér við. Hefur hann í því sambandi vísað til þess að aðstæður í íslensku samfélagi á þeim tíma sem sakarefni málsins nær til hafi bitnað með mjög ósanngjörnum hætti á þeim rekstri sem GG tæki ehf. hafði með höndum. Félagið hafi haft einkasamning um flutning á öllum jarðvarmaborum landsins og allar virkjanir sem voru á teikniborðinu hafi verið jarðvarmavirkjanir. Skuldir félagsins hafi ekki verið miklar og fyrir hendi hafi verið vilji af hálfu bankastofnana hér á landi til að lána út á þennan samning. Ekki hafi hvarflað að ákærða að þetta myndi ekki ganga upp. Annað hafi komið á daginn og þar hafi mestu ráðið að stjórnvöld hafi dregið lappirnar varðandi virkjanaframkvæmdir og ítrekað svikið loforð sem gefin hafi verið þar að lútandi. Ákærði hafi allan þennan tíma reynt að halda starfseminni gangandi, enda hafi væntingar manna staðið til þess, réttilega að því er hann telur, að úr myndi rætast. Það hafi ekki gengið eftir og sumarið 2013 hafi hann staðið uppi eignalaus.
Ákærði var á þeim tíma sem í ákæru greinir framkvæmdastjóri og stjórnarmaður GG tækja ehf. Samkvæmt 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög bar honum að tryggja að virðisaukaskatti og staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna félagsins væri skilað eins og lög áskilja. Erfiðleikar í rekstri félagsins og ástæða þeirra, sem ákærði hefur lýst, breyta í engu þessari skyldu ákærða. Samkvæmt þessu og í ljósi atvika að öðru leyti eru ekki efni til að fallast á að í málinu séu fyrir hendi miklar málsbætur í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.
Samkvæmt málatilbúnaði ákæruvalds og í samræmi við gögn málsins telst vangoldinn virðisaukaskattur vegna eins af þeim tíu tímabilum sem ákæran lýtur að hafa verið greiddur að verulegu leyti. Verður samkvæmt þessu miðað við að undanþága frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 eigi við um skuld vegna tímabilsins júlí-ágúst 2011 að fjárhæð 426.426 krónur. Um skuldir vegna annarra tímabila, sem nema samtals 5.983.781 krónu, gildir hins vegar sektarlágmark ákvæðisins. Þá á sektarlágmark samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda við um skuld vegna staðgreiðslu samkvæmt 2. lið ákæru að fjárhæð 8.939.237 krónur og nær undanþága frá því eingöngu til skuldar vegna nóvember 2010 að fjárhæð 266.715 krónur.
Samkvæmt framangreindu verða viðurlög vegna vanskila að fjárhæð 693.141 króna ákveðin í samræmi við fyrrgreindar undanþágur. Á hinn bóginn gildir sektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um vanskil að fjárhæð 14.923.018 krónur. Að því virtu verða brot ákærða talin stórfelld og varða því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing hans með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu þessarar refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá verður honum að auki gert að greiða sekt til ríkissjóðs, sem þykir með vísan til þess sem áður er rakið um vanskil á greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, hæfilega ákveðin 29.900.000 krónur, en um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Ákærða verður gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Jónatanssonar héraðsdómslögmanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Ekki verður séð að annar sakarkostnaður hafi fallið til vegna málsins.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð
Ákærði, Geir Sæmundsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 29.900.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skal ákærði í hennar stað sæta fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Jónatanssonar héraðsdómslögmanns, 558.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson