D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember í máli nr. S-708/2010:
Ákæruvaldið
(Einar Tryggvason aðstoðarsaksóknari)
gegn
Hafþóri Sigtryggssyni
Ár 2010, þriðjudaginn 30. nóvember, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 708/2010: Ákæruvaldið (Einar Tryggvason) gegn Hafþóri Sigtryggssyni, sem tekið var til dóms í sama þinghaldi.
Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, dagsettri 22. október sl. á hendur ákærða, Hafþóri Sigtryggssyni, kennitala 000000-0000, Grænlandsleið 28, Reykjavík, „fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi ákærða, með því að hafa:
1. Hvorki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum, né staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni á árinu 2006, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 4.158.037, sem sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil: | Vantalin skattskyld velta: | Vangoldinn VSK: | ||
Árið 2006 | ||||
janúar – febrúar | kr. | 3.809.037 | kr. 933.213 | |
mars – apríl | kr. | 4.356.627 | kr. 1.067.373 | |
maí – júní | kr. | 1.811.526 | kr. 443.823 | |
júlí – ágúst | kr. | 2.291.800 | kr. 561.491 | |
september – október | kr. | 2.438.800 | kr. 597.506 | |
nóvember – desember | kr. | 2.263.800 | kr. 554.631 | |
kr. | 16.971.590 | kr. 4.158.037 | ||
Samtals: | kr. | 16.971.590 | kr. 4.158.037 |
2. Eigi staðið skil á skattframtali sínu gjaldárið 2007 vegna tekjuársins 2006 og þannig ekki talið fram til skatts tekjur sínar af eigin atvinnustarfsemi sem skattskyldar eru, samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, og með þessu komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars samtals að fjárhæð kr. 2.778.228, sem sundurliðast sem hér greinir:
Vangreiddur tekjuskattur tekjuárið 2006: | ||
Rekstrartekjur skv. rannsókn: | kr. | 16.971.590 |
Rekstrargjöld: | kr. | 2.747.951 |
Tekjuskattsstofn: | kr. | 14.223.639 |
Áætlaður tekjuskattsstofn ásamt álagi: | kr. | -6.670.000 |
Vantalinn tekjuskattsstofn: | kr. | 7.553.639 |
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 23,75% | kr. | 1.793.989 |
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 13,03% | kr. | 984.239 |
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldárið 2007 samtals: | kr. | 2.778.228 |
3. Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar vegna rekstrarársins 2006.
Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.
b) 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, að því er varðar 2. tölulið ákæru.
Framangreind brot ákærða samkvæmt 3. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Málavextir
Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæðis. Ákærði hefur áður gerst sekur um hegningarlagabrot. Fram er komið í málinu að hann átti við spilafíkn að stríða um tólf ára skeið og að það hafi leitt hann út í afbrot. Hann kveðst þó hafa unnið bug á þeirri fíkn. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 7 mánuði. Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Dæma ber ákærða auk þess til þess að greiða 20.800.000 krónur í sekt og ákveða að í stað sektarinnar komi fangelsi í 4 mánuði, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Sakarkostnað hefur ekki leitt af málinu.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Hafþór Sigtryggsson, sæti fangelsi í 7 mánuði. Framkvæmd refsingar þessarar er frestað og fellur hún niður að 2 árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði 20.800.000 krónur í fésekt og komi fangelsi í 4 mánuði í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Pétur Guðgeirsson