Search
Close this search box.

Dómur. Refsimál.Hérd. Sigurður Ragnarsson.(Viðskipti með hross)

D Ó M U RHéraðsdóms Reykjaness föstudaginn 24. apríl 2015 í máli nr. S-93/2014:

Ákæruvaldið

(Þorbjörg Sveinsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Sigurði Vigni Ragnarssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

Mál þetta, sem var tekið til dóms 27. mars síðastliðinn, er höfðað af sérstökum saksóknara með ákæru útgefinni 5. febrúar 2014 á hendur Sigurði Vigni Ragnarssyni, kt. […], Ránarvöllum 6, Reykjanesbæ, „fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi á Íslandi, með því að hafa:

1.                  Staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006 til og með og 2010 vegna rekstraráranna 2005 til og með 2009 og þannig skýrt rangt frá rekstrartekjum sínum vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar, sem honum bar að telja fram skv. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaganna. Með þessu vantaldi ákærði tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn um samtals 154.026.108 krónur og kom sér þannig undan greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð samtals 39.788.896 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir:

Gjaldárið 2006:

Tekjuskattur og útsvar:

Framtaldar tekjur :                                                                              kr.  5.852.160

Vanframtaldar rekstrartekjur :                                                                        kr.  1.252.089

Möguleg rekstrargjöld:                                                                        kr.                0

                                                                                                            kr.  1.252.089

Tekjuskattur, skattprósenta 24,75%                                                    kr.     309.892

Útsvar, útsvarsprósenta 12,70%                                                         kr.     159.015

Sérstakur tekjuskattur 2%                                                                   kr.       34.274

                                                                                                             

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:                                      kr.     503.181

Gjaldárið 2007:

Tekjuskattur og útsvar:

Framtaldar tekjur :                                                                              kr.  7.849.160

Vanframtaldar rekstrartekjur :                                                                        kr.  2.570.040

Möguleg rekstrargjöld:                                                                        kr.                0

                                                                                                            kr.  2.570.040

Tekjuskattur, skattprósenta 23,75%                                                    kr.     610.384

Útsvar, útsvarsprósenta 12,70%                                                         kr.     326.395

                                                                                                             

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:                                      kr.     936.779

 

Gjaldárið 2008:

Tekjuskattur og útsvar:

Framtaldar tekjur :                                                                              kr.   4.579.200

 

Tekju- og útskattur:

Vanframtaldar rekstrartekjur :                                                                        kr.  27.289.157

Möguleg rekstrargjöld:                                                                        kr.  21.114.864

                                                                                                            kr.    6.174.293

Tekjuskattur, skattprósenta 22,75%                                                    kr.    1.404.651

Útsvar, útsvarsprósenta 12,70%                                                         kr.       784.135

                                                                                                             

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:                                      kr.   2.188.786

 

Gjaldárið 2009:

Tekjuskattur og útsvar:

Framtaldar tekjur :                                                                              kr.     5.727.272

 

Tekju- og útskattur:

Vanframtaldar rekstrartekjur :                                                                        kr.   93.793.408

Möguleg rekstrargjöld:                                                                        kr.   17.680.585

                                                                                                            kr.   76.112.823

Tekjuskattur, skattprósenta 22,75%                                                    kr.  17.315.667

Útsvar, útsvarsprósenta 12,70%                                                         kr.    9.666.328

                                                                                                             

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:                                      kr.  26.981.995

 

Gjaldárið 2010:

Tekjuskattur og útsvar:

Framtaldar tekjur :                                                                              kr.                  0

 

Tekju- og útskattur:

Vanframtaldar rekstrartekjur :                                                                        kr.  29.121.414

Möguleg rekstrargjöld:                                                                        kr.    3.212.851

                                                                                                            kr.  25.908.563

Tekjuskattur, skattprósenta 24,10%                                                   kr.    6.243.964

Útsvar, útsvarsprósenta 13,28%                                                         kr.    3.440.657

Persónuafsláttur                                                                                  kr.      -506.466

                                                                                                             

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:                                      kr.    9.178.155

 

Samtals vanframtaldar rekstrartekjur:                                                 kr.  154.026.108

Samtals vangreiddur tekjuskattur og útsvar:                                      kr.    39.788.896

2.                  Staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna rekstraráranna 2005 til og með 2009 vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar, maí – júní og september – október 2005, september – október og nóvember – desember 2006, mars – apríl, september – október og nóvember – desember 2007, janúar – febrúar, mars – apríl, maí – júní, september – október og nóvember – desember 2008 og mars – apríl, maí – júní, júlí – ágúst, september – október og nóvember – desember 2009 í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 17.610.694, sem sundurliðast sem hér greinir:  

Árið 2005

janúar – febrúar                                   kr.   147.590

maí – júní                                             kr.     59.036

september – október                            kr.    100.135

                                                                        kr.    306.761

Árið 2006

september – október                            kr.   531.266

nóvember – desember                         kr.     98.394

                                                                        kr.   629.660

Árið 2007

mars – apríl                                          kr.  4.678.614

september – október                            kr.  1.006.566

nóvember – desember                         kr. -4.157.704

                                                                        kr.  1.527.476

Árið 2008

janúar – febrúar                                   kr.     -915.030

mars – apríl                                          kr.      531.325

maí – júní                                             kr.   4.850.773

september – október                            kr.      818.566

nóvember – desember                         kr.   3.951.644

                                                                        kr.   9.237.278

Árið 2009

mars – apríl                                          kr.     905.221

maí – júní                                             kr.     649.397

júlí – ágúst                                           kr.  3.581.526

september – október                            kr.     232.210

nóvember – desember                         kr.     541.165

                                                                        kr.  5.909.519

Samtals:                                               kr. 17.610.694

3.                  Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna viðskipta með hross, vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar, rekstrarárin 2005 til og með 2009.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 3. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði sótti þing við þingfestingu málsins 27. febrúar 2014 og með honum Björgvin Jónsson hæstaréttarlögmaður sem var skipaður verjandi ákærða að ósk hans. Ákærði neitaði sök að því er varðar 1. og 2. tölulið ákærunnar en játaði sök að því er varðar 3. tölulið ákæru. Verjandi skilaði greinargerð í málinu fyrir ákærða 21. maí 2014. Voru kröfur ákærða aðallega þær að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að ákærði yrði sýknaður af kröfum ákæruvalds er lúta að því að honum hafi borið að telja fram viðskipti með hross á árunum 2005 og 2006 (gjaldárin 2006 og 2007). Jafnframt krafðist ákærði sýknu af refsikröfum ákæruvaldsins er byggjast á því að ákærða hafi borið að standa skil á tekjuskatti, útsvari og virðisaukaskatti vegna áðurgreindra viðskipta. Einnig krafðist ákærði sýknu af refsikröfum byggðum á því að ákærði hafi látið undir höfuð leggjast að halda bókhald og varðveita bókhaldsgögn fyrir áðurgreint tímabil vegna viðskiptanna. Loks var krafist sýknu af refsikröfum ákæruvalds byggðum á því að ákærði hafi vantalið tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn fyrir árið 2007 (gjaldárið 2008) og að ákærði hafi eigi staðið skil á virðisaukaskatti vegna ársins 2007. Til vara krafðist ákærði lækkunar á þeim fjárhæðum sem nemi vangreiddum tekjuskatti og útsvari samkvæmt ákæru, svo og virðisaukaskatti og að ákærða verði einungis gerð sú vægasta refsing sem lög frekast heimili og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti. Skipaður verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna sér til handa.

Með úrskurði dómsins 31. október 2014 var frávísunarkröfu ákærða hafnað. 

I

                Ákærði, sem er löggiltur fasteignasali, rak frá árinu 1988 til maí 2008 fasteignasöluna Eignamiðlun Suðurnesja. Lýsir ákærði því að hestamennska hans hafi verið sem hvert annað áhugamál hjá honum. Hann hafi átt nokkur hross tengt því að dóttir hans hafi stundað keppni í hestaíþróttum. Þannig hafi þessu verið farið á árunum 2005-2006 og hafi hann ekki átt viðskipti með hross umfram það sem þurfti til að þau gætu sinnt þessu áhugamáli. Hafi hans eina starf á þessum tíma verið við fasteignasöluna. Á árunum 2007 hafi ákærði farið að stunda viðskipti með hross í auknum mæli og á árinu 2008, eftir að hann hafi selt fasteignasöluna, hafi hann snúið sér að viðskiptum með hross, þótt ekki væri um fullt starf að ræða. Hafi hann lent í fjárhagsvandræðum í kjölfar efnahagslægðar sem vart hafi orðið við fljótlega á árinu 2008 og þá reynt að skapa sér tekjur með viðskiptum með keppnishross.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins tók ákvörðun um að rannsaka bókhald og virðisaukaskattsskil ákærða rekstarárin 2005 til og með 2009. Byggðist sú ákvörðun á tilkynningu frá ríkisskattstjóra um sölu á hrossum þar sem ekki hafði verið staðið skil á virðisaukaskatti. Rannsóknin hófst 8. september 2011 með því að ákærða var send tilkynning um að rannsókn væri hafin á bókhaldi og skattskilum hans vegna sjálfstæðrar starfsemi rekstraráranna 2005 til og með 2009. Takmarkaðist rannsóknin við viðskipti ákærða með hross á greindum rekstrarárum.

Með bréfi 24. september 2012 var ákærða send skýrsla skattrannsóknarstjóra, dagsett 20. september sama ár, og var honum gefinn frestur til 8. október 2012 til að tjá sig um efni skýrslunnar og koma að mótmælum, skriflegum skýringum og gögnum áður en tekin yrði ákvörðun um framhald málsins. Að ósk ákærða var andmælafrestur hans framlengdur til 22. október 2012, en andmæli bárust ekki. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að um væri að ræða skil rangra skattframtala vegna tekjuáranna 2005 til og með 2009, vanrækslu á að gera grein fyrir virðisaukaskattsskyldri veltu og útskatti vegna viðskipta með hross og jafnframt innskatti vegna viðskiptanna og vanrækslu á færslu bókhalds vegna viðskiptanna. Þá þótti ljóst að ekki hefðu verið gefnir út sölureikningar vegna allra viðskipta ákærða með hross. Rekstrartekjur þóttu vantaldar og undanþegin velta og skattskyld velta ásamt útskatti.

Með bréfi 29. október 2012 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ríkisins ákærða um lok rannsóknar og fyrirhugaða ákvörðun skattrannsóknarstjóra um refsimeðferð. Var ákærða veittur 30 daga frestur til að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun. Sama dag var skýrsla skattrannsóknarstjóra um rannsókn á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum ákærða send til ríkisskattstjóra.

Hinn 15. janúar 2013 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málinu til opinberrar rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Var málið til rannsóknar þar til ákæra var gefin út 5. febrúar 2014. Málið var þingfest 27. febrúar sama ár. Sem fyrr segir var kröfu ákærða um að málinu yrði vísað frá dómi hafnað með úrskurði dómsins 31. október 2014. Aðalmeðferð í málinu fór fram 27. mars síðastliðinn.

II

Samkvæmt greinargerð ákærða er krafa hans um sýknu meðal annars byggð á því að á árunum 2005 og 2006 hafi ekki verið um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hjá honum að ræða hvað varði viðskipti með hross, enda hafi umfangið ekki verið umfram það sem tíðkast hjá aðilum sem hafi hestamennsku að áhugamáli. Þá segir að því sé ekki mótmælt að umfang hestaviðskipta ákærða á árunum 2007-2009 hafi verið slíkt að teljist um sjálfstæða atvinnustarfsemi að ræða. Byggt er á því af hálfu ákærða að rekstrargjöld sem hann hafi haft af umsýslu með hross á árinu 2007 hafi verið mun meiri en lagt sé til grundvallar í ákæru, og hærri en tekjur ákærða af hrossasölu á því ári. Í greinargerð ákærða eru rakin í þessu sambandi vantalin kaup ákærða á nafngreindum hrossum og kaupverð þeirra, svo og greiðslur á reikningsyfirliti bankareiknings sem sagðar eru vera vegna kaupa á þjónustu vegna hrossa ákærða á árinu 2007. Um er að ræða kostnað vegna tamningar, fóðrunar, beitargjalda og reiðtygja.

Þá vísar ákærði einnig til umfangs viðskipta sinna með hross vegna sýknukröfunnar af öðrum lið ákærunnar vegna þeirra virðisaukaskattstímabila sem greinir í ákæru vegna áranna 2005-2006. Ekki hafi verið um virðisaukaskattsskylda sölu að ræða, sbr. 1. tölulið 3. mgr. laga nr. 50/1988. Að því er varði árið 2007 byggi ákærði á því að sýkna beri hann af því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, 1.527.476 krónum, þar sem mótreikningur vegna innskatts, til dæmis vegna kaupa á stóðhestinum Glym frá Árgerði, leiði til þess að innskattur sé hærri en útskattur í starfsemi ákærða á því ári. Að því er varði virðisaukaskatt vegna áranna 2008 og 2009 sé byggt á því að lækka beri fjárhæðir sem byggt sé á í stefnu.

Um ákæruatriði í 3. tölulið ákæru sé vísað til þess sem áður segi um að ekki hafi verið um sjálfstæða atvinnustarfsemi að ræða hjá ákærða hvað varði hrossasölu hans á árunum 2005-2006. Krafist sé sýknu að því er þessi ár varði, þar sem umrædd viðskipti hafi ekki heyrt undir bókhaldsskylda starfsemi.

Ákærði mótmælir því að brot hans teljist vera meiri háttar brot gegn ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 eða lögum um bókhald.

III

Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst aðspurður ekki geta nema að litlu leyti gert grein fyrir viðskiptum sínum með hross á því tímabili sem tilgreint er í ákærunni. Framan af hefði verið um að ræða áhugamennsku en á síðari stigum hafi félagið Skúfslækur ehf. verið stofnað fyrir reksturinn. Kvaðst ákærði þá hafa átt orðið talsvert af hrossum og verið með nokkur umsvif í hrossaræktinni þótt ekki hafi verið um aðalatvinnu hans að ræða. Ekki hafi þó verið um neinn rekstur hjá Skúfslæk ehf. að ræða og hafi félagið orðið gjaldþrota. Kvaðst ákærði hafa verið orðinn aðþrengdur fjárhagslega og nánast gjaldþrota og því hefði hann ekki komið rekstrinum í félagið svo neinu næmi. Allar greiðslur vegna rekstursins hafi því farið inn og út af reikningi ákærða og eiginkonu hans.

Ákærði kvaðst aðspurður kannast við framlögð skattframtöl í málsgögnum sem sín skattframtöl. Ákærði kvaðst ekki hafa talið fram til skatts viðskipti sín með hross á ákærutímabilinu og því kæmi ekki fram á framtölunum tekjur af viðskiptum með hross. Ætlun ákærða hafi verið að viðskiptin færu í gegnum áðurnefnt félag hans. Þá viðurkenndi ákærði að hafa ekki staðið skil á tekjuskatti og útsvari vegna viðskipta sinna með hross á ákærutímabilinu. Spurður um virðisaukaskattsskýrslur í gögnum málsins bar ákærði að þær snéru að rekstri fasteignasölu, en ekki að hrossunum. Engum skýrslum hafi verið skilað út af viðskiptum með hross og virðisaukaskattur ekki greiddur vegna hrossaviðskipta.

Spurður um vantaldar rekstrartekjur bar ákærði að upplýsingar um þær væru réttar, en í reynd hefði hann ekki haft neinar tekjur af rekstrinum, en gerðar væru athugasemdir við rekstrargjöldin. Þá kvaðst ákærði ekki gera athugasemdir við tölulegar upplýsingar í málsgögnum um sölureikninga og sundurliðun á þeim og peningafærslum inn á reikning ákærða og eiginkonu hans sem voru lagðar til grundvallar við útreikning á vanframtöldum rekstrartekjum og virðisaukaskatti. Ákærði kvaðst engar athugasemdir geta gert við tölurnar. Ekki sé hægt að bera á móti því að fjármunirnir hafi verið mótteknir eða að þeir hafi verið lagðir inn á reikningana. Þá kannaðist ákærði við að hafa gefið út sölureikninga fyrir hrossum og sagði þá stafa frá sér. Spurður um yfirlit frá skattrannsóknarstjóra yfir útlagðan kostnað bar ákærði að um brot af heildarkostnaði við reksturinn hefði verið að ræða. Þá viðurkenndi ákærði að hafa ekki haldið bókhald vegna hrossaviðskipta. Ákærði kvaðst hafa vitað að skylda væri að halda bókhald og það hafi hann viljað gera og ætlað sér að gera í gegnum Skúfslæk ehf., félagið sem hann hafi stofnað fyrir reksturinn.

Þá kom fram hjá ákærða að hann væri löggiltur fasteignasali. Hann hefði rekið fasteignasölu en selt hana á vormánuðum 2008 og ekki verið á þeim tíma í annarri vinnu. Aðalstarf hans hafi verið fasteignasala fram í maí 2008. Einnig kom fram að hann væri ekki með menntun á sviði hestabúskapar og ekki lærður tamningamaður. Hefði hann ekki tamið hrossin eða þjálfað nema að óverulegu leyti. Hann hefði ekki verið í skipulagðri tamningu en stundað útreiðar að einhverju marki. Aðrir hafi verið með hrossin í þjálfun og tamningu fyrir hann. Þá greindi ákærði frá því að mikið vantaði af kostnaðargögnum í málinu. Erfitt sé að sýna fram á slíkan kostnað þar sem reikningar hafi ekki verið gefnir út í öllum tilvikum. Eigi það við um kostnað vegna tamningar, dýralæknaþjónustu og skráningargjöld vegna móta. Slíkur kostnaður geti verið allt að 100.000 krónur á mánuði.

Vitnið A gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti efni skriflegar yfirlýsingar sem hann gaf um kaup ákærða á hryssunni Álfrúnu frá Reykjavík 16. september 2005 fyrir fjórar milljónir án virðisaukaskatts. Staðfesti vitnið að hafa undirritað yfirlýsinguna.

Vitnið B gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti efni skriflegar yfirlýsingar sem hann gaf um kaup ákærða á stóðhestinum Glotta frá Sveinatungu á árinu 2007 fyrir fjórar milljónir án virðisaukaskatts. Staðfesti vitnið að hafa undirritað yfir lýsinguna.

IV

Ákærða er gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald, sem framin voru í sjálfstæðri atvinnustarfsemi ákærða hér á landi. Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald, með síðari breytingum.

Brot ákærða í 1. tölulið ákæru eru talin varða lög nr. 90/2003 um tekjuskatt og lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga vegna áranna 2006-2010 með því að standa skil á efnislega röngum skattframtölum og hafa ekki staðið skil á tekjuskatti og útsvari að fjárhæð samtals 39.788.896 krónur. Í 2. tölulið ákæru er ákærða gefið að sök brot gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á rekstrarárunum 2005-2009 með því að standa skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í sjálfstæðri atvinnustarfsemi ákærða, samtals að fjárhæð 17.610.694 krónur. Í 3. tölulið ákæru er ákærða gefið að sök brot gegn lögum nr. 145/1994 um bókhald með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna viðskipta með hross í sjálfstæðri atvinnustarfsemi ákærða rekstarárin 2005-2009.

Eins og fram kemur í kafla I hér að framan tók skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um að rannsaka bókhald og virðisaukaskattsskil ákærða rekstarárin 2005 til og með 2009. Var sú ákvörðun byggð á tilkynningu frá ríkisskattstjóra um sölu á hrossum þar sem ekki höfðu verið staðin skil á virðisaukaskatti. Rannsóknin hófst 8. september 2011 með því að ákærða var send tilkynning um að rannsókn væri hafin á bókhaldi og skattskilum hans vegna sjálfstæðrar starfsemi rekstraráranna 2005-2009. Takmarkaðist rannsóknin við viðskipti ákærða með hross á greindum rekstrarárum. Vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli ákærða til rannsóknar hjá lögreglu vegna ætlaðra brota á ákvæðum laga um tekjuskatt, laga um virðisaukaskatt, laga um bókhald og eftir atvikum almennra hegningarlaga.

Krafa ákærða um sýknu er meðal annars byggð á því að viðskipti hans með hross á árunum 2005-2006 hafi ekki verið slík að umfangi að viðskiptin geti fallið undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Hafi umfangið ekki verið umfram það sem tíðkist hjá aðilum sem hafi hestamennsku að áhugamáli. Hafi ákærða því ekki borðið að greiða tekjuskatt, útsvar og virðisaukaskatt vegna þessara viðskipta gjaldárin 2006 og 2007. Vísar ákærði í þessu sambandi til þess að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sé hagnaður af sölu lausafjár ekki skattskyldur nema salan falli undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða eignarinnar hafi verið aflað í þeim tilgangi að selja hana með hagnaði. Þá hafi ákærði verið í fullu starfi sem fasteignasali á þessum tíma. Sama eigi við um virðisaukaskatt á þessum árum. Umfang viðskipta ákærða með hross á þessum tíma hafi ekki verið slík að þau teljist hafa átt sér stað í sjálfstæðri atvinnustarfsemi. Hafi þau því ekki verið virðisaukaskattsskyld sala, sbr. 1. tölulið 3. mgr. laga nr. 50/1988.

Um greiðslu tekjuskatts gildir sú meginregla samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 að skattskyldar tekjur teljast, með þeim undantekningum sem er að finna í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs, þar á meðal allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi, þar með talið endurgjald fyrir selda vöru, sbr. B. lið 7. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt ber að greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands. Nær skattskyldan samkvæmt 2. gr. laganna til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra. Vinna og þjónusta sem tilgreind er í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er undanþegin virðisaukaskatti. Fela undanþágurnar í sér undantekningu frá meginreglu um skattskyldu sem ber að skýra þröngt. Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á að starfsemi ákærða á greindum árum hafi fallið undir undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna þannig að hún teljist ekki virðisaukaskattsskyld. Þá þykir heldur ekki sýnt fram á að við eigi ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, en þar segir að hagnaður af sölu lausafjár sem ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi teljist ekki til tekna, enda falli salan ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða að eignarinnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði.

Að áliti dómsins verður að ganga út frá því að viðskipti ákærða með hross á því tímabili sem um getur í ákærunni hafi allt frá árinu 2005 verið þess eðlis að ákærða hafi borðið að telja starfsemina fram til tekju- og virðisaukaskatts. Hafi verið um að ræða sjálfstæða atvinnustarfsemi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði. Er það mat dómsins að viðskipti ákærða með hross hafi á öllu því tímabili sem ákært er fyrir uppfyllt fyrrgreint skilyrði og breytir þá engu þótt starfsemi hafi í upphafi verið smærri í sniðum og síðan aukist eftir því sem á leið. Í framburði ákærða fyrir dómi kom fram að hann hefði ekki menntun á sviði hestamennsku og hefði ekki sjálfur þjálfað eða tamið hrossin nema að óverulegu leyti. Þá kom fram hjá ákærða að á árinu 2007 hefðu viðskipti hans verið orðin það umfangsmikil að hann hefði stofnað félagið Skúfslæk ehf. á árinu 2007 í þeim tilgangi að halda utan um tekjur og gjöld vegna viðskipta hans með hross. Af þessu verður ráðið að starfsemi ákærða hafi ekki borið yfirbragð áhugamáls heldur atvinnureksturs.

Ákærði skilaði skattframtölum og virðisaukaskattsskýrslum vegna viðskipta sinna með fasteignir á ákærutímabilinu. Fyrir dómi gekkst ákærði við því að hafa ekki talið fram tekjur sínar vegna viðskipta með hross á skattframtölum eða virðisaukaskattsskýrslum sem hann skilaði inn. Þá gekkst ákærði einnig við því fyrir dómi að hafa ekki greitt virðisaukaskatt, tekjuskatt eða útsvar vegna viðskipta sinna með hross á ákærutímabilinu. Hefur ákærði ekki vefengt þær tölulegu upplýsingar sem standa að baki þeim tekjum sem hann hafði af viðskiptum með hross. Hann hefur hins vegar haldið því fram að í tölurnar vanti upplýsingar um kostnað.  

Sannað þykir að ákærði hafi staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006-2010 með því að skýra ekki frá þeim rekstrartekjum sem hann hafði af viðskiptum sínum með hross á skattframtölum sínum á tímabilinu og þannig komið sér hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar vegna þeirra tekna. Þá liggur fyrir að ákærði stóð skil á efnilega röngum virðisaukaskattsskýrslum og stóð ekki ríkissjóði skil á þeim virðisaukaskatti sem innheimtur var í viðskiptum hans með hesta á þeim uppgjörstímabilum sem tilgreind eru í 2. tölulið ákæru.

Við upphaf aðalmeðferðar í málinu lagði ákæruvaldið fram endurskoðað yfirlit vegna vangoldins tekjuskatts ákærða þar sem tekið hefur verið tillit til hluta af rekstrargjöldum sem ákærði lagði fram reikninga fyrir undir rekstri málsins. Enn fremur var lagt fram endurskoðað yfirlit vegna vanframtalins virðisaukaskatts að teknu tilliti til innskatts af sömu reikningum sem ákærði lagði fram við upphaf aðalmeðferðar málsins.

Ákærði byggir á því, verði sala hans á hrossum á árunum 2005 og 2006 talin falla undir sjálfstæða atvinnustarfsemi, að hann hafi ekki komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars þar sem hann hafi átt inni ónotað tap frá fyrra ári vegna fasteignasölu að fjárhæð 4.043.144 krónur. Á þetta er ekki fallist með ákærða. Samkvæmt ákæru er ákærða gefið að sök að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á tekjuskatti, útsvari og virðisaukaskatti. Brot ákærða eru fullframin á eindaga vantalinna gjalda en fyrir liggur að ákærði stóð ríkissjóði ekki skil á tilgreindum fjárhæðum svo sem honum bar að lögum. Ákvæði um heimild til að nýta ónotað tap af öðrum rekstri ákærða breyta ekki ótvíræðri skyldu ákærða til greiðslu umræddra gjalda í ríkissjóð á þeim árum sem um ræðir.

Varnir ákærða lúta einnig að því að brot ákærða eigi ekki að teljast meiri háttar brot gegn ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt eða lögum nr. 145/1994 um bókhald.

Samkvæmt 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telst verknaður meiri háttar brot samkvæmt 1. eða 2. mgr. greinarinnar ef brotið lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins. Fyrir liggur að ákærði vantaldi tekjur og virðisaukaskatt vegna viðskipta með hross yfir fimm ára tímabil og komst þannig hjá greiðslu tekjuskatts, útsvars og virðisaukaskatts, en vangreiddur skattur nam meira en 50 milljónum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 39/1995 um breytingu á almennum hegningarlögum segir beinlínis að veruleg fjárhæð geti verið mælikvarði á það hvað teljist vera meiri háttar brot í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu og með vísan til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 421/2006, 419/2006, 724/2009, 132/2007, 391/2007 og 477/2011 er niðurstaða dómsins sú að brot ákærða í málinu, sem eru samfelld, eðlislík og samkynja, teljist meiri háttar brot í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga þegar brotin eru virt sem heild á því tímabili sem ákært er fyrir. Á það einnig við um brot ákærða gegn lögum nr. 145/1994 um bókhald.

Saknæmisskilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 eru ásetningur eða stórkostlegt hirðuleysi, en ásetningur eða stórfellt gáleysi samkvæmt 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald og samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Eins og fram er komið vanframtaldi ákærði tekjur sínar og virðisaukaskattsskylda starfsemi á því tímabili sem ákæra tekur til og var um að ræða verulegar fjárhæðir. Af því sem fram er komið og gögnum málsins að öðru leyti verður ályktað sem svo að ákærði hafi ekki haft reiður á fjármunum sínum. Verður ekki hjá því komist að virða ákærða það til stórfellds hirðuleysis eða gáleysis að láta undir höfuð leggjast að skila efnislega réttum skattframtölum og standa ríkissjóði skil á tekjuskatti, útsvari og virðisaukaskatti eins og greinir í ákæru vegna viðskipta sinna með hross. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í 1. og 2. tölulið ákæruskjalsins. Þá vanrækti ákærði af stórkostlegu hirðuleysi að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna viðskipta með hross í sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni rekstrarárin 2005, 2006, 2007, 2008 og 2009, sbr. 3. tölulið ákæru. Eins og fram er komið er ekki fallist á þá málsvörn ákærða að ekki hafi verið um sjálfstæða atvinnustarfsemi ákærða að ræða vegna sölu hans á hrossum á árunum 2005-2006 og því heyri umrædd viðskipti ekki undir bókhaldsskylda starfsemi. Telst ákærði einnig hafa brotið gegn 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald, með síðari breytingum, sbr. einnig 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt framangreindu er að mati dómsins sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt ákæruskjali og er háttsemin þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í nóvember 1960. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki sætt refsingu. Brot ákærða varðar skil á efnislega röngum skattframtölum og vanskil á tekjuskatti og útsvari, auk skila á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum og vanskila á virðisaukaskatti samfellt í fimm ár og varða verulegum fjárhæðum. Eru brot ákærða stórfelld og verða heimfærð undir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu þessarar refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og 1. og 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 varða brot gegn ákvæðunum sekt, sem skal aldrei vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Heildarvanskil ákærða nema alls 52.023.773 krónum. Hefur þá verið tekið tillit til hluta af þeim kostnaðargögnum sem ákærði aflaði undir rekstri málsins, svo og reiknings fyrir hestinum Pendúl frá Sperðli sem ákærði keypti í maí 2008, en reikningurinn var lagður fram við upphaf aðalmeðferðar málsins. Samkvæmt þessu verður ákærði dæmdur til að greiða 104.047.546 krónur í sekt til ríkissjóðs. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skal ákærði sæta í hennar stað 12 mánaða fangelsi.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 1.477.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan sakarkostnað leiddi ekki af málinu.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Þorbjörg Sveinsdóttir saksóknarfulltrúi.

Jón Höskuldsson héraðsdómari dæmir málið.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Sigurður Vignir Ragnarsson, sæti fangelsi í 10 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði 104.047.546 króna sekt til ríkissjóðs og komi 12 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.477.000 krónur.

Jón Höskuldsson


Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur