Search
Close this search box.

Dómur. Þb.Motormax. Greiðsla á virðisaukaskatti: Riftunarkrafa þrotabús.

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2010 í máli nr. E-475/2010:

Þrotabú Motormax ehf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember síðastliðinn, var höfðað 14. janúar sl. af Þrotabúi Motormax ehf., Aðalstræti 6, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi greiðslu stefnanda á virðisaukaskatti til stefnda 8. maí 2009, að fjárhæð 13.846.142 krónur, og að stefnda verði gert að greiða stefnanda þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. maí 2009 til greiðsludags. Einnig er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Einnig krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt mati réttarins.

 

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2009 var bú Motormax ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptastjóri þrotabúsins var skipaður sama dag. Frestdagur var 7. maí sama ár, en þann dag barst héraðsdómi beiðni stjórnar félagsins um töku félagsins til gjaldþrotaskipta.

Stefnandi greiddi stefnda kröfu vegna virðisaukaskatts 8. maí s.á. að fjárhæð 13.846.142 krónur.

Stefnandi hefur höfðað málið til riftunar á greiðslunni samkvæmt 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 eða 141. gr. og endurgreiðslu fjárhæðarinnar samkvæmt 143. gr. sömu laga.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að skilyrði riftunar séu fyrir hendi. Einnig er því mótmælt að nokkrar málsástæður stefnanda komist að í málinu sem ekki komi fram í stefnu.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að greiðslan, sem krafist er að verði rift, hafi farið fram eftir frestdag en slíkar greiðslur séu riftanlegar samkvæmt 139. gr. laga um gjaldþrota­skipti o.fl. Greiðslan hafi verið vegna kröfu sem komið hafi til vegna álagningar virðisaukaskatts í nóvember og desember 2007. Skuldin hefði ekki greiðst við gjaldþrotaskipti samkvæmt reglum XVII. kafla laganna og hinu gjaldþrota félagi hafi ekki verið nauð­syn­legt að greiða hana til að komast hjá neins konar tjóni. Þessar undanþágur samkvæmt lagaákvæðinu eigi því ekki við. Síðasta skilyrði ákvæðisins kveði á um að sá sem greiðslu naut hafi þurft að vita eða mátt vita að komin væri fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Hið gjaldþrota félag hefði ekki skilað virðisaukaskattskýrslum í marga mánuði fyrir frestdag. Með vísan til þess megi leiða líkur að því að stefndi hafi vitað hvernig komið var fyrir félaginu eða a.m.k. mátt vita um það í skilningi 139. gr. laganna. Þetta eigi sérstaklega við í því efnahags­fárviðri sem geisað hafi á þeim tíma sem félagið fór í þrot, þ.e. vorið 2009. Auk þessa vísi stefnandi til fréttaflutnings um greiðsluerfiðleika félagsins fyrir gjaldþrot, sem styðji þá niðurstöðu að stefndi hafi mátt vita að frestdagur væri kominn. Hin um­deilda greiðsla hafi verið vegna álagn­ingar virðisaukaskatts í nóvember og desember 2007 og því hafi krafan verið um eins og hálfs árs gömul á greiðsludegi.

Fjárkrafa stefnanda byggðist á 142. gr. sömu laga, en samkvæmt henni skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hefði orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabúsins. Tjónið svari til greiðslunnar sem innt hafi verið af hendi 8. maí 2009.

Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á framangreindar röksemdir stefnanda sé krafa um riftun einnig byggð á því að hinn umdeildi gerningur hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og sé því riftanlegur með vísan til 1. mgr. 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndi hafi vitað, eða a.m.k. mátt vita, um ógjaldfærni félagsins er framangreind greiðsla var innt af hendi og einnig löngu áður. Greiðslan hafi því verið ótilhlýðileg. Þá sé ljóst að greiðslan hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra og jafnframt leitt til þess að eignir hefðu ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum.

Stefnandi vísi til riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 139. og 141. gr. en fjárkrafan styðjist við 142. gr. laganna. Dráttarvaxta sé krafist samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málsatvikalýsingu stefnanda mótmælt. Staðhæfingar stefnanda um að Mótormax ehf. hafi verið í vanskilum með virðisaukaskatt í aðdraganda frestdags og að félagið hefði ekki skilað virðisaukaskattskýrslum í marga mánuði fyrir 7. maí 2009 séu rangar. Félagið hafi verið í skilum allt fram að frestdegi og hafi greitt reglulega áfallinn virðisaukaskatt á þeim gjalddögum sem við hafi átt. Ranglega sé haldið fram af hálfu stefnanda að greiðslan, sem krafist er að rift verði, hafi verið vegna eins og hálfs árs gamallar skuldar. Greiðslan hafi komið til vegna skattbreytinga á virðisaukaskattstímabili VA 2007 48 sem hafi fyrst verið færð inn í bókhaldskerfi stefnda 8. maí 2009, sama dag og hún hafi verið greidd. Þetta hafi því verið greiðsla á skattbreytingu en ekki greiðsla á eldri eða fyrirliggjandi skuld. Greiðslan umræddan dag hafi komið til vegna leiðréttingar, sem hafi verið gerð, en ekki vegna vanskila félagsins sem varð gjaldþrota.

Stefndi hafi enga hugmynd haft um greiðsluerfiðleika sem leitt hafi til gjaldþrots Mótormax ehf. í maí s.á. Engar forsendur hafi verið fyrir því að innheimtumaður stefnda útbyggi aðfararbeiðni á félagið vegna vanskila. Ekki hafi heldur verið hægt að sjá upplýsingar um árangurslaus fjárnám félagsins í opinberum vanskilaskrám. Gjaldþrot hafi því komið stefnda í opna skjöldu, enda hefðu engar vísbendingar komið fram um erfiða stöðu félagsins. Stefndi mótmæli því að erfitt efnahagsástand hafi gefið innheimtumanni stefnda tilefni til að ætla að félagið hefði verið í greiðsluerfiðleikum. Stefnda hafi ekki verið kunnugt um umfjöllun á opinberum vett­vangi um greiðslu­erfiðleika félagsins fyrir frestdag. Stefndi hafi verið í góðri trú áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta.

Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að innheimtumaður stefnda hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hefði fram krafa um gjaldþrotaskipti Mótormax ehf. þegar greiðsla virðisaukaskattsins fór fram. Stefnanda beri að sýna fram á grandsemi stefnda en sú sönnun hafi ekki tekist. Þar sem grandleysi innheimtumanns um vandræði félagsins 8. maí 2009 og gjaldþrotabeiðnina hafi verið algjört vanti skilyrði til riftunar á greiðslunni samkvæmt 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Riftun ráðstafana á grundvelli 141. gr. laganna byggðist á sambærilegum sjónarmiðum og við ættu samkvæmt 139. gr. þeirra. Stefndi hafi sýnt fram á að stefnandi hefði ekki leitt líkur að grandsemi innheimtumanns stefnda við móttöku greiðslunnar 8. maí. Þegar af þeirri ástæðu geti stefnandi ekki krafist riftunar á grundvelli 141. gr. laganna.

 

Niðurstaða

Af hálfu stefnanda er krafist riftunar á greiðslu virðisaukaskatts 8. maí 2009. Því er haldið fram af hálfu stefnanda að innheimtumanni ríkissjóðs hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um að komin var fram krafa um gjaldþrotaskipti þegar greiðslan fór fram og því séu skilyrði samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir riftun greiðslunnar. Verði ekki á það fallist er því haldið fram að stefnda hafi verið kunnugt um að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg og því geti stefnandi krafist riftunar á grundvelli 141. gr. sömu laga. Krafan um að stefnda verði gert að greiða stefnanda umrædda fjárhæð er háð því skilyrði að riftun greiðslunnar fari fram.

Vísað er til þess af hálfu stefnanda að innheimtumanni virðisaukaskattsins, sem krafist er riftunar á, hafi mátt vera kunnugt um greiðsluerfiðleika hins gjaldþrota félags þar sem um gamla skuld hafi verið að ræða sem ekki hefði tekist að innheimta. Því til staðfestu er af hálfu stefnanda vísað til hreyfingarlista innheimtumanns. Þar kemur fram að greiðslan 8. maí er, annars vegar 12.587.496 krónur og hins vegar álag, að fjárhæð 1.258.749 krónur, samtals 13.846.145 krónur. Hvorki verður af þessum lista ráðið, né af öðrum gögnum málsins, að þarna hafi verið um skuld að ræða, sem ekki hafi tekist að innheimta, og að innheimtumanni stefnda hafi af þeim sökum mátt vera ljós staða félagsins eða ógjaldfærni þess þegar greiðslan var innt af hendi. Þá hefur ekkert komið fram um að innheimtumanni hafi verið kunnugt um gjaldþrota­beiðnina, sem kom fram daginn áður en greiðslan var innt af hendi, en úrskurður um að félagið væri tekið til gjaldþrotaskipta var kveðinn upp 11. maí s.á., eins og áður er komið fram. Verður því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að innheimtu­maður stefnda hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hefði fram beiðni um gjald­þrota­skipti á félaginu þegar virðisaukaskatturinn var greiddur 8. maí s.á.

Með vísan til þessa eru ekki uppfyllt skilyrði til að verða við kröfu stefnanda um riftun greiðslunnar á grundvelli 129. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Með hliðsjón af þessu og þegar litið er til málsatvika, eins og þeim er lýst í málatilbúnaði málsaðila og gögnum málsins, þykir ekki liggja fyrir að innheimtumanni stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að aðstæður væru þannig að greiðslan væri ótilhlýðileg. Samkvæmt því eru heldur ekki skilyrði til að rifta greiðslunni á grundvelli 141. gr. sömu laga.

Með vísan til þess að skilyrði riftunar á greiðslu stefnanda á virðisaukaskatti 8. maí 2009, að fjárhæð 13.846.142 krónur, eru ekki fyrir hendi ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Þrotabús Mótormax ehf., í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Sigríður Ingvarsdóttir.

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur