Search
Close this search box.

Dómur. Úrsk. hérd. Óskar K Guðm. Breytingar RSK á skattframt.l



                                  Ú R S K U R Ð U RHéraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2015 í máli nr. E-2770/2014:

                                               Óskar Karl Guðmundsson

                                               (Sjálfur ólöglærður)

                                               gegn

                                               íslenska ríkinu

                                               (Soffía Jónsdóttir hrl.)

                                                                    I.

       Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 3. febrúar sl., er höfðað 29. ágúst 2014 af Óskari Karli Guðmundssyni, Hofgörðum 2 á Seltjarnarnesi, gegn íslenska ríkinu.

       Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi samkvæmt lýsingu í stefnu:

       „Stefnandi krefst þess að breytingar sem RSK gerði á framtölum 2009 og 2010 á kt: 120849-7869, verði felldar úr gildi og að stefndi greiði stefnanda 9.503.112 kr. með áföllnum vöxtum og kostnaði, skýringar í dómskjali nr. 2.

       Dómkrafan er sundurliðuð í fylgigögnum og tölulið 1-8.

Framtöl 2009 og 2010 rekstrarárin 2008 og 2009

1. Í úrskurði 2. mars 2010 er tap fellt niður, krafist er að tap standi ……… kr.                                 13.531.779

2. Skattstofn í úrskurði 2. mars, með vöxtum verði felldur niður …………. kr.                                 1.609.476

Úrskurður nr. 185/2011 frá yfirskattanefnd 22. júní 2011 sem snýr að rekstrarfjármunum aflamarki skv. 73. gr. og sérreglu 3. mgr. 48. gr. lög nr. 90/2003 verði ógildur fyrir dómi.

3. Úrskurður nr. 185/2011 22. júní skv. 73. gr. um álag standi …………….. kr.                                 -258.764

4. Álagning 2010 rekstrarárið 2009 með álagi verði felld niður ………….   kr.      6.856.244

5. Endurgreiddir verði vextir og kostnaður til stefnanda ……………………   kr.      1.088.508

6. Endurgreiddur verði auðlegðarskattur rekstrarárið 2009…………………   kr.         119.726

7. Endurgreitt verði ofgreitt tryggingargjald 2010 …………………………….   kr.         108.059

8. Keypt krafa, vextir, ónýtt. pers.afsl. (kr. 59.863+kr. 4.016-kr.28.169).. kr.           35.710

                                                                  Samtals dómkrafa ……………….. kr.      9.503.112

       Krafist er dráttarvaxta á dómkröfu skv. IV. kafla 6. gr. lög nr. 38/2001.

       Þá krefst stefnandi þess sem rekur málið á kt. 120849-7869, að fá allan málskostnað úr hendi stefnda og dráttarvexti á málskostnað samkv. IV. kafla 6. gr. lög nr. 38/2001.

       Til vara verði dráttarvextir felldir niður.

       Til þrautavara, að málskostnaður verði allur felldur niður.“

       Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda auk þess sem hann krefst málskostnaðar.

       Málið var flutt um frávísunarkröfu stefnda 3. febrúar sl. Við málflutninginn taldi stefnandi að ekki væru þeir annmarkar á stefnu að vísa bæri málinu frá dómi.

                                                                     II.

       Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi sé útgerðarmaður sem geri út bátinn Sigrúnu RE-303. Samkvæmt framlögðum gögnum úrskurðaði ríkisskattstjóri 2. mars 2010 um álagningu opinberra gjalda stefnanda fyrir gjaldárið 2009. Í úrskurðinum var vísað til bréfs ríkisskattstjóra 12. janúar 2010 þar sem boðaðar voru tilteknar breytingar á framtali stefnanda 2009 vegna rekstrar hans á árinu 2008. Þessar breytingar lutu í fyrsta lagi að bókfærðu verði eigna í upphafi árs í eignaskrá RSK 4.01 sem fylgt hafði skattframtalinu. Þar var boðað að bókfært verð umræddra eigna yrði fært til samræmis við niðurstöðu í úrskurði skattstjóra Reykjanesumdæmis frá 9. júní 2009. Kemur þar fram að við fyrirhugaðar breytingar myndu gjaldfærðar fyrningar í rekstrarskýrslu lækka úr 4.737.226 krónum í 3.764.358 krónur, eða um 972.868 krónur. Í öðru lagi lutu breytingarnar að afskrift að fjárhæð 4.570.630 krónur vegna 33,4% niðurskurðar á þorskkvóta á árinu 2008, sem stefnandi hafði fært til gjalda í rekstrarreikningi ársins 2008. Í boðunarbréfinu voru færð rök fyrir því að lagaheimild stæði ekki til þess að gjaldfæra skerðingu á aflamarki bátsins Sigrúnar RE. Því var boðað að umrædd gjaldfærsla yrði strikuð út úr rekstrarskýrslunni.

       Í úrskurðinum var vikið að andmælum stefnanda við fyrirhugaðar breytingar. Þær voru ekki taldar koma til álita þar sem þær samrýmdust ekki lögum. Af þeim sökum voru áður boðaðar breytingar gerðar á framtali stefnanda fyrir rekstrarárið 2008. Leiddu þær til þess að í stað rekstrartaps að fjárhæð 1.673.017 krónur varð hagnaður af einstaklingsrekstri stefnanda á árinu um 3.870.481 krónu. Þá var 25% álagi bætt ofan á hækkun tekjuskattstofns stefnanda gjaldárið 2009 vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á gjaldfærslu aflamarksskerðingar á árinu 2008. Nam álagið 724.403 krónum. Fram kemur í úrskurðinum að tekjuskatts- og útsvarsstofn stefnanda gjaldárið 2009 yrði eftir þessar breytingar 6.979.524 krónur.

       Stefnandi kærði framangreinda breytingu til yfirskattanefndar 15. apríl 2010. Laut kæran einungis að niðurfellingu á gjaldfærslu að fjárhæð 4.570.630 krónur vegna 33,4% niðurskurðar á þorskkvóta og ákvörðunar um að beita hann álagi. Með úrskurði yfirskattanefndar 22. júní 2011 var fallist á kröfu stefnanda um niðurfellingu álags en kröfum hans að öðru leyti hafnað.

       Með bréfi ríkisskattstjóra 28. maí 2010 var óskað eftir því að stefnandi og eiginkona hans, Helga Guðný Jónsdóttir, létu í té gögn og skýringar á tilteknum atriðum í framtalsskilum þeirra gjaldárið 2010. Var meðal annars óskað skýringa á tiltekinni athugasemd í reitnum 5160 „Sjóður, bankainnstæður og annað reiðufé“ og færslunni „Laust fé“ á eyðublaði RSK 4.01, þar sem tilgreint var kaupverð/stofnverð að fjárhæð 5.833.794 krónur, bókfært verð í upphafi að fjárhæð 5.831.127 krónur og bókfært verð í lok reikningsárs, 17.949.518 krónur. Þá var farið fram á skýringar á 35% fyrningu á 2.040.894 krónum á þessum lið. Jafnframt var farið fram á skýringar á færslu aflahlutdeildar í eignaskránni og forsendum fyrir því að færa út aflahlutdeild að fjárhæð 21.486.920 krónur. Umboðsmaður stefnanda svaraði fyrirspurnarbréfinu 14. júní 2010.

       Með bréfi ríkisskattstjóra 23. júlí 2010 var stefnanda tilkynnt að ekki hefðu borist fullnægjandi svör við framangreindum tveimur atriðum og var það nánar rökstutt í bréfinu. Því lægi fyrir að framlagður rekstrar- og efnahagsreikningur ásamt fylgigögnum væri ekki í samræmi við ákvæði skattalaga. Í bréfinu kom fram að þar sem tekjur stefnanda byggðust fyrst og fremst á einkarekstri stefnanda, og í ljósi þeirra ágalla sem ríkisskattstjóri taldi vera á framtalsgerð hans, yrði ekki fallist á tekjuhlið skattframtalsins. Af þessum sökum og þar sem um háar fjárhæðir væri að tefla „í seldum veiðiheimildum og offærslu fyrninga“ yrði útsvars- og tekjuskattstofn stefnanda gjaldaárið 2010 áætlaður 16 milljónir króna, sbr. heimild í 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Við það bættist 25% álag, sbr. 2. mgr. 108. gr. sömu laga, eða um 3.403.840 krónur, enda væri um verulegan annmarka að ræða.

       Bráðabirgðakæra barst í tilefni af framangreindri ákvörðun 19. ágúst 2010. Þá sendi stefnandi nánari rökstuðning fyrir henni með bréfi 28. september sama ár. Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð af því tilefni 11. nóvember 2010. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að nánar tilgreindar eignir, sem stefnandi hafði fært sem fyrnanlegar eignir, gætu ekki talist til varanlegra rekstrarfjármuna sem heimilt væri að fyrna. Um það var vísað til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 90/2003. Þá samrýmdist færsla á verðmæti aflahlutdeildar á framtali 2010 ekki fyrirmælum laga og fyrri úrskurðum skattyfirvalda eins og nánar er rökstutt í úrskurðinum. Jafnframt var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið forsenda til annars en að áætla tekjur stefnanda eins og framtali hans hafi verið háttað og að beita 25% álagi í samræmi við 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

                                                                  III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

       Í stefnu er gerð svohljóðandi grein fyrir málsástæðum og lagarökum stefnanda:

1) Á fiskveiðiárinu 2007 til 2008 myndast rekstrarfjármunur þegar þorsk-aflamark var skert um 33,44% sem er veruleg skerðing skv. fjórða hluta 3. mgr. 48. gr. lög nr. 90/2003 og 3. gr. lög nr. 116/2006. Hjá stefnanda var skerðingin 28.442 kg af aflamarki *250 kr./kg meðal markaðsverð á þorsk-aflamarki á árinu =7.110.500 kr. Síðan eru þrír seldir rekstrarfjármunir frádregnir -1.721.978 kr. skv. eignaskrá. Virðisrýrnun á tveimur keyptum aflahlutdeildum á árunum 2002 og 2005 er alls 44.040.000 kr. *33,44%=14.726.876 kr. sem er rekstrarkostnaður  skv. 31. gr. lög nr. 90/2003. Þetta gerir samtals  kr. 13.531.779  rekstrartap árið 2008.

2) Þetta tap var fellt niður og breytt í skattstofn kr. 1.609.476  með úrskurði RSK Hafnarfirði 2. mars  2010 á grundvelli 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.

3) Úrskurður nr. 185/2011 fellir niður álag á rekstrarfjármuninum 2008, kr. –258.764 og lækkar skattstofn í úrskurði 2. mars 2010 um þá upphæð. Ekki dugar að beita 1. og 5. mgr. 96. gr. laga  nr. 90/2003, gegn sérreglu 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 og því eru þessir úrskurðir RSK, skattstofu Hafnarfjarðar 2. mars, 11. nóvember 2011 og úrskurður nr. 185/2011 (að undan að skildu álagi) frá yfirskattanefnd marklausir og ólöglegir, þar að auki er brotin Stjórnarskrá  Íslands samkv. 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. laga nr. 33/1944.

4) Álagning 2010 rekstrarárið 2009 hefur með álagi kr. 167.226, útsvar- og skattstofn kr. 6.856.244/0.362 sem er kr. 18.939.900 hreinar tekjur. Þá er tapið rekstrarárið 2008 ekki frádregið kr. 13.272.131, vegna úrskurða frá RSK, skattstofu Hafnarfjarðar 2. mars, 11. nóvember 2010 og nr. 185/2011 frá yfirskattanefnd, þar sem ekki er virtur rekstrarfjármunur kr. 5.388.522 vegna 73. gr. og sérreglu 3. mgr. 48. gr. lög nr. 90/2003.

5) Greiddir verði vextir og kostnaður til stefnanda frá 30. apríl 2012 fyrir rekstrarárið 2009.  Sjá dómskjal nr. 2. kr. 1.088.508.

6) Auðlegðarskattstofn rekstrarárið 2009 er innan við 100.000.000 kr., því er auðlegðarskattur 0 kr. Samkv. álagningu 2010 er auðlegðarskattur kr. 119.726 því ber að fella hann allan niður. Eignaskrár, rekstrarreikningar, efnahagsreikningar og samræmingarblöð fyrir rekstrarárin 2002 til 2009 voru innsend breytt skv. lögum. Breytingarnar eru gerðar með því að taka út endurmat á aflahlutdeildum sem er óefnisleg eign, þar semendurmatið var ólöglegt og brot á 1. mgr. 30. gr. lög nr. 3/2006, staðli IAS38, 15. gr. lög nr. 144/1994, 8. tölul. 73. gr. lög nr. 90/2003 og hefur enga lagastoð.

7) Tryggingagjald í álagningu 2010 er kr. 289.559 það er kr. 108.059 hærra en reglur segja, eða kr. 197.283 rétt reiknað, þar sem reiknuð laun eru 3.197.448 kr. á rekstrarárinu  2009. Þessi  álagning er án lagastoðar, brot á lögum nr. 113 /1990, reglum um tryggingagjöld og ber að endurgreiða kr. 108.059.

8) Keypt krafa og vextir af kt. 020649-2919 stofn kr. 59.863. Í dómkröfu er einnig ónýttur persónuafsláttur kr. 28.169 sem var full nýttur við álagninguna 2010. En vextir kr. 4.016 er líka fært á dómkröfu. Þá er þess krafist að sjómannaafsláttur verði notaður í nýja álagningu á kt. 120849-7869 og er hann kr. 360.255.

 

       Í málflutningi um frávísunarkröfu stefnda mótmælti stefnandi því að slíkir annmarkar væru á málatilbúnaði hans að vísa bæri málinu frá dómi. Útskýrði hann tölulegan þátt málsins og lagði meðal annars fram frekari gögn til útskýringar á dómkröfum sínum.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

       Stefndi rökstyður frávísunarkröfu sína með því að málatilbúnaður stefnanda sé mjög ruglingslegur og illskiljanlegur. Telur stefndi að stefna í málinu uppfylli ekki að neinu leyti kröfur sem gerðar séu til stefnu í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, nema ef vera skyldu upphafsorð stefnu fyrir dómkröfu og lokaorð í stefnu um fyrirkall til stefnda. Dregur stefndi í efa að stefnandi sé hæfur til þess að gæta hagsmuna sinna, sbr. 6. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.

       Stefndi kveður frávísunarkröfu sína byggjast á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós og vanreifaður að varði frávísun málsins frá dómi sbr. d-, e-, f- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og dómkrafan sé orðuð í stefnu uppfylli hún ekki lágmarksskilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi geri m.a. kröfu um að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum 9.503.112 krónur en hvergi sé í stefnunni gerð grein fyrir því hvernig sú fjárhæð sé fundin, né fjárhæðir einstakra kröfuliða, heldur vísað í framlögð skjöl um skýringar á kröfugerðinni. Í þeim skjölum sé heldur ekki neina útlistun kröfugerðar að finna. Þá séu stefnanda mislagðar hendur við samlagningu dómkröfuliðanna, en við samlagningu kröfuliða fáist ekki sú niðurstaða sem stefnandi kveði vera heildardómkröfu sína.

       Stefndi vísar til þess að ekki sé gerð nein raunveruleg grein fyrir kröfum stefnanda. Grundvöllur fjárkröfunnar sé því óljós og ómögulegt sé að taka afstöðu til hennar. Kröfugerðin uppfylli ekki þá almennu leiðbeiningarreglu 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að vera svo ákveðin og ljós að unnt sé að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu í máli ef efnisleg skilyrði eru fyrir þeim málalokum. Í dómkröfulið 1 til 4 sé blandað saman dómkröfum og málsástæðum þannig að ekki verði með vissu ráðið hvers krafist sé af stefnda. Kröfugerðin fullnægi því ekki skilyrðum d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

       Stefndi byggir einnig á á því að engin tilraun sé gerð til þess í stefnu að rökstyðja einstaka kröfuliði. Kröfuliðir 6 og 8 virðist einnig varða eiginkonu stefnanda, en engin grein sé gerð fyrir því í stefnu á hvaða grunni þær kröfur séu settar fram. Hún eigi ekki aðild að málinu með stefnanda. Telur stefndi að vísa beri málinu frá dómi þegar af þeirri ástæðu að skilyrði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um samaðild séu ekki uppfyllt. Þá sé kröfuliður 8 óskiljanlegur.

       Stefndi vísar enn fremur til þess að ekki sé neina málavaxtalýsingu að finna í stefnu. Þá sé afar örðugt að henda reiður á málsástæðum og lagarökum, sem stefnandi byggi dómkröfur sínar á, og samhengi þeirra, öndvert við fyrirmæli e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Gagnaframlagningu sé áfátt þar sem slitrum úr ýmsum skjölum er hrúgað saman, án þess að unnt sé að gera sér grein fyrir því hvers efnis þau séu. Af þessum sökum sé afar erfitt að átta sig á málatilbúnaði stefnanda og taka með viðhlítandi hætti til varna svo sem réttarfarslögum sé ætlað að tryggja þeim sem stefnt sé fyrir dómi.

       Stefndi kveður stefnanda vísa á rangan og ófullnægjandi hátt til lagaákvæða og án rökstuðnings. Stefnandi vísi meðal annars til laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, í heild sinni án tilvísunar til ákveðinna greina laganna. Þá vísi stefnandi almennt til laga nr. 144/1994 um ársreikninga, en þau hafi verið endurútgefin sem lög nr. 3/2006.

       Stefndi byggir einnig á því að krafa um málskostnað sé vanreifuð, en ekki sé vísað til þess í stefnu á hvaða lagagrundvelli krafan sé reist, sbr. fyrirmæli f-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé dráttarvaxtakrafa stefnanda einnig vanreifuð þar sem ekki sé í stefnu meðal annars tilgreindur upphafsdagur vaxta. Varakrafa stefnanda og þrautavarakrafa um að málskostnaður og dráttarvextir verði felldir niður séu sömuleiðis órökstuddar og vanreifaðar.

       Að lokum vísar stefndi til þess að fyrirsvar í stefnu sé rangt. Ríkislögmaður sé ekki í fyrirsvari fyrir stefnda, heldur sé það fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, sbr. 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

       Í greinargerð sinni færir stefndi einnig rök fyrir sýknukröfu sinni. Telur hann með öllu óljóst á hvaða grundvelli eigi að hnekkja úrskurðum ríkisskattstjóra eða úrskurði yfirskattanefndar, sem séu reistir á ótvíræðum lagaákvæðum og/eða áratuga langri úrskurðarframkvæmd. Er á því byggt að framtalsskil stefnanda árin 2009 og 2010 hafi ekki samrýmst ákvæðum tekjuskattslaga í veigamiklum atriðum. Þá hafi málsmeðferð ríkisskattstjóra verið í fullu samræmi við 96. gr. laganna. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Í greinargerð stefnda eru færð nánari rök fyrir málsástæðum hans fyrir sýknukröfunni og gerð grein fyrir inntaki þeirra lagaákvæða sem fyrrgreindar úrlausnir skattyfirvalda eru reistar á, þ. á m. 48., 96. og 97. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Ekki er ástæða til að rekja þá umfjöllun nánar í tengslum við úrlausn frávísunarkröfunnar.

                                                                  IV.

       Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má frá þeim atriðum sem nánar eru rakin í einstökum stafliðum ákvæðisins. Þar segir í d-lið ákvæðisins meðal annars að í stefnu skuli meðal annars koma fram dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum og vextir ef því er skipta. Í stefnu verður enn fremur að tilgreina málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laganna. Verður þessi lýsing að vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Þá verður í stefnu að vísa til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á, sbr. f-lið sömu málsgreinar, og geta helstu gagna sem stefnandi hefur til sönnunar auk gagna sem hann telur að enn þurfi að afla. Þessi upplýsingagjöf í stefnu miðar að því að röksemdir stefnanda fyrir kröfugerð sinni liggi ljósar fyrir þegar í öndverðu þannig að stefndi geti tekið afstöðu til þess hvort ástæða sé til þess að grípa til varna og það með hvaða rökum.

       Í umfjöllun í stefnunni, sem liggur til grundvallar málshöfðun stefnanda, er gerð grein fyrir kröfugerð stefnanda á þann hátt að blandað er saman dómkröfum og nánari sundurliðun dómkrafna. Þá er sundurliðun kröfunnar, sem þar birtist, ekki í samræmi við þá fjárhæð sem stefnandi virðist gera kröfu um. Er þar vísað til þess að séu einstakir kröfuliðir (nr. 2 til 8) lagðir saman fæst fjárhæðin 9.558.959 krónur, meðan krafa er gerð um greiðslu 9.503.112 króna. Jafnframt er þess krafist í upphafi að felldar verði úr gildi breytingar „sem RSK gerði á framtölum 2009 og 2010“ en í sundurliðuninni kemur fram að hluti af dómkröfunum lúti að breytingu sem yfirskattanefnd hefur fellt úrskurð um 22. júní 2011. Með réttu hefði því þurft að krefjast ógildingar á þeim úrskurði ef málshöfðun á að þjóna þeim tilgangi sem stefnandi ætlar sér að ná fram. Að þessu leyti uppfyllir útlistun á dómkröfum stefnanda ekki áskilnað 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um að vera nægjanlega skýr og glögg til að unnt sé að taka hana óbreytta upp í dómsorð. Þá er krafa um greiðslu „áfallinna vaxta“ engan veginn nægilega afmörkuð þannig að fullnægt sé kröfum d-liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Auk þess er tekið undir með stefnda að dráttarvaxtakrafa stefnanda fullnægi ekki sömu kröfum þar sem ekki er tilgreint frá hvaða tíma dráttarvextirnir falli á höfuðstól kröfunnar.

       Í stefnu er enn fremur gerð ófullnægjandi grein fyrir því hvaða atvik eða aðstæður eiga að leiða til þess að fallast beri á kröfu þess efnis að fyrrgreindar úrlausnir skattyfirvalda verði felldar úr gildi á þann hátt sem stefnandi fer fram á. Einkennist málatilbúnaður stefnanda af fullyrðingum um að úrlausnirnar stangist á við tiltekin lagaákvæði án frekari rökstuðnings. Þá er þar vísað til fjölda gagna og útreikninga, sem virðast stafa frá stefnanda sjálfum, en eru ekki útskýrð af hans hálfu á þann hátt að gagnaðili og dómurinn geti gert sér grein fyrir því á hvaða grundvelli þessir útreikningar eru reistir. Virðist málatilbúnaður stefnanda raunar miða að því að stefnandi fái að haga skattskilum sínum í samræmi við þá afstöðu sem hann leggur til grundvallar í framtölum sínum án þess að færð séu fyrir því gild rök að lögskylt sé að leggja þá afstöðu til grundvallar. Þá er krafa gerð um endurgreiðslu skatta án þess að skírskotað sé til lagafyrirmæla um það efni, sbr. lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Jafnframt er ekki útskýrt á hvaða forsendum stefnandi geti krafið stefnda um endurgreiðslu skatts sem hann telur að eiginkona hans hafi ofgreitt. Stangast málatilbúnaður stefnanda í heild á við e- og f-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

       Ofangreindir annmarkar á stefnu eru þess eðlis að óhjákvæmilegt er að fallast á kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi. Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

       Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                              Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

       Máli þessu er vísað frá dómi.

       Stefnandi, Óskar Karl Guðmundsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað.

                                         Ásmundur Helgason (sign.)

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur