Í meðfylgjandi dómsmáli var deilt um efni kaupsamnings um hlutafé. Seljandi hlutafjárins taldi sig hlunnfarinn. Nánar tiltekið var um það að ræða að innan þess félags sem kaupin vörðuðu hafði safnast upp tekjuskattsskuldbinding vegna söluhagnaðar fasteignar.
Þegar frá sölu hlutabréfanna var gengið var tekjuskattur lögaðila 18 %. Við tekjufærslu söluhagnaðarins var hann 15 %.
Seljandinn miðaði við í málflutningi sínum að tekjuskattsskuldbindingu hefði átt að gera upp miðað við 15% tekjuskatt en ekki 18%. Gerði hann kröfu um greiðslu mismunar hér á þar sem um það leyti sem frá kaupunum var gengið hafi legið fyrir að hlutfallið myndi lækka í 15%.
Seljandinn taldi að viðskiptavenja væri fyrir því að gera tekjuskattsskuldbindingu upp á þann hátt í viðskiptum með hluti milli hluthafa innan félags að seljandi taki helming skuldbindingarinnar á sig og kaupandinn hinn helminginn.
Þessu andmælti kaupandinn.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna sem lá frammi í málinu, segir að ekki sé um að ræða neinar algildar reglur í uppgjöri skattskuldbindinga.
Taldi dómarinn að seljanda hefði ekki tekist að sýna fram á neina viðskiptavenju í þessu sambandi. Teldist þessi fullyrðing því ósönnuð.
Tapaði seljandinn málinu á þessum forsendum og öðrum sem nánar eru raktar í dómnum..