Af vef rsk:
http://www.rsk.is/einstaklingar/tekjur-og-fradrattur/erlendir-serfraedingar/
“Erlendir sérfræðingarHinn 1. janúar 2017 tók gildi sérstök regla um skattlagningu erlendra sérfræðinga sem koma til starfa hingað til lands. Samkvæmt henni eru 25% af launum þeirra felld undan skattlagningu fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Sérstök nefnd, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið skipar, metur hvort skilyrðin séu uppfyllt.
Frá samþykkt umsóknar er staðgreiðslu opinberra gjalda haldið eftir af 75% tekna sem starfsmaður nýtur sem erlendur sérfræðingur. Staðgreiðsla, sem haldið hefur verið eftir að heildartekjum fram að samþykkt umsóknar, er leiðrétt. Launatengd gjöld ásamt barnabótum og vaxtabótum tekur mið af heildarlaunum.
Starfsmaður telst erlendur sérfræðingur séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
- Hann hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á fimm ára tímabili næst á undan því almanaksári er hann hóf störf hér á landi.
- Hann búi yfir þekkingu sem ekki sé fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli.
Þá gildir reglan einungis ef hinn erlendi sérfræðingur:
- er ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og sá aðili greiði honum laun sem sérfræðingi; og
- er ráðinn til að sinna verkefnum er krefjast sérþekkingar og reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og
- hann starfi á sviði rannsókna, þróunar og/eða nýsköpunar, kennslu eða við úrlausn og/eða uppbyggingu sérhæfðra verkefna; eða
- hann sinni framkvæmda- eða verkefnastjórnun eða öðrum verkefnum sem eru lykilþættir í starfsemi fyrirtækisins.
Umsóknum skal skila til Rannsóknarmiðstöðvar Íslands, merktum „Frádráttur frá tekjum erlendra sérfræðinga“, Rannís, Borgartúni 30, 105 Reykjavík.