Kæru félagsmenn til hamingju með vel heppnaðan dag
Ráðstefnan síðasta föstudag var sérstaklega vel heppnuð, bæði mjög fræðandi og skemmtileg í senn.
Þátttakan var sérstaklega góð, í raun besta þátttaka sem hefur verið til þessa eða tæplega 160 manns. Jákvætt andrúmsloft og mikill kraftur ríkti í salnum og var það umtalað af fyrirlesurum hvað bókarar væru í raun skemmtilegir. Við erum öflugt félag og með sterkt lið innanborðs og er það ykkur öllum að þakka hve vel tókst til. Sérstakt hrós fá allir þeir sjálfboðaliðar er lögðu sitt af mörkum, þá gífurlegu vinnu sem liggur að baki svona degi. Við skulum hafa það hugfast að öll okkar störf eru bæði gefandi og krefjandi en gefa ómetanlega og dýrmæta reynslu fyrir lífstíð.
Afmælisboðið var einstaklega skemmtilegt og var gaman að sjá hversu margir sáu sér fært um að staldra við og gleðjast saman. Már Jóhannsson sagði okkur sögu félagsins, frá stofnun þess og fyrstu árunum í starfi. Inga Jóna Óskarsdóttir ásamt skemmtinefndinni var með innlegg í dagskránna og skemmtu sér allir konunglega yfir því. Ég vil benda á hér um leið að afmælisfögnuði félagsins er langt frá því að vera lokið. Við eigum von á skemmtilegri uppákomu með hækkandi sól sem enn hvílir mikil leynd yfir. Við bíðum spennt eftir því hvað skemmtinefndin hefur fram að færa.
Kveðja
Júlía Sigurbergsdóttir, formaður