"Álagning tekjuskatts á lögaðila
Álagning opinberra gjalda á lögaðila var birt nú í vikunni. Tekjuskattur þeirra nemur í ár samtals 42,7 ma.kr. Það er aukning milli ára um 8 ma.kr. eða 23,2%. Liðlega 15 þúsund lögaðilar greiða tekjuskatt í ár en það er um helmingur gjaldskyldra félaga. Tekjuskattstofn lögaðila nemur alls 234 ma.kr. Hluti hans er byggður á áætlun skattstjóra um þá aðila sem ekki hafa skilað skattframtali. Fjöldi þeirra jókst nokkuð milli ára en sem hlutfall af öllum gjaldskyldum félögum dróst fjöldinn saman í fyrsta sinn frá árinu 1998 og er nú 31,4%. Áætlanir nema nú um 55 ma.kr. eða 23,6% af tekjuskattstofninum.
Tekjuskattur lögaðila hefur aukist verulega á undanförnum þremur árum. Þetta endurspeglar gott efnahagsástand og kraftmikið atvinnulíf. Þá hefur mikill hagnaður nokkurra stórra félaga haft veruleg áhrif á þessa þróun og hefur dreifing álagðs tekjuskatts á félögin orðið þéttari í efsta hlutanum á undanförnum árum. Sé t.d. aðeins horft á þau tíu fyrirtæki sem mest greiða í tekjuskatt þá greiða þau samtals 18,8 ma.kr. í ár og standa því að baki 44% skattsins. Þetta hlutfall var 41% í fyrra og hefur hækkað úr 13% á árinu 2001."