Af vef fjmrn. 08 10 07: "Einföldunaráætlun
Áætlun fyrir fjármálaráðuneytið og stofnanir þess um einföldun opinberra reglna og stjórnsýslu 2007-2009.
Samræmd upplýsingagjöf og þjónusta við skattborgara (Borgaraþjónusta)
Úrlausnarefni: Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi þurfa skattgreiðendur að snúa sér til nokkurra stofnana til þess að fá upplýsingar um skattamál sín t.d. ríkisskattstjóra, viðkomandi skattstjóra og síðan eftir atvikum innheimtumanns ríkissjóðs. Markmiðið er að borgarinn þurfi aðeins að fara á einn stað þar sem hann getur fengið allar upplýsingar. um stöðu sinna mála gagnvart skattyfirvöldum.
Markmið: Komið verði á sameiginlegri upplýsingagjöf og þjónustu um álagningu og innheimtu skatta og gjalda þar sem borgarinn geti fengið allar upplýsingar sem tengjast álagningu og innheimtu skatta.
Hverjir hafa hag að aðgerðinni: Almenningur
Kostnaðarleg áhrif: Kostnaður takmarkaður þar sem að upplýsingagjöfin fer samkvæmt gildandi fyrirkomulagi fram á skattstofum, hjá ríkisskattstjóra og innheimtumönnum. Dregur úr álagi vegna upplýsingaþjónustu hjá þessum embættum.
Tímaáætlun: Reglugerð 1. janúar 2009.
Umsjón: Embætti ríkisskattstjóra.
Skattaleg umsýsla og þjónusta við stórfyrirtæki
Úrlausnarefni: Samkvæmt gildandi lögum er álagning og eftirlit með lögaðilum í 8 skattumdæmum. Íslensk fyrirtæki hafa breyst mikið á undanförnum árum. Þau hafa stækkað, viðskiptaumhverfi þeirra er flóknara en áður var, viðskipti þeirra fara yfir landamæri osfrv. Breytt umhverfi kallar á aukna og sérhæfða þjónustu við stærstu og flóknustu fyrirtækin.
Markmið: Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn sérstök skrifstofa sem fer með málefni stærstu og flóknustu fyrirtækjanna. þe. álagningu og eftirlit, þjónustu og upplýsingagjöf. Markmiðið er að auka þjónustu við stærstu fyrirtækin og gera þeim auðveldara að leita til skattyfirvalda með fyrirspurnir um álitamál sín, upplýsingar um túlkun laga og reglna.
Hverjir hafa hag að aðgerðinni: Fyrirtæki
Kostnaðarleg áhrif: Gert er ráð fyrir aukinni þjónustu sem kallar á aukinn kostnað. Hins vegar dregur úr þjónustu annarra skattembætta sem hafa haft það hlutverk hingað til að annast skattalega umsýslu og þjónustu við stórfyrirtæki. Breyttu fyrirkomulagi fylgir aukin þjónusta og hagræðing til lengri tíma litið.
Tímaáætlun: 1. júní 2008.
Umsjón: Fjármálaráðuneytið.
Almenn útbreiðsla rafrænna skilríkja á Íslandi
Úrlausnarefni: Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnvalda í Evrópu er að einfalda stjórnsýslu svo minni tími fari í að sinna erindum gagnvart hinu opinbera. Nýting upplýsingatækninnar er lykilatriði hvað þetta varðar þar sem rafræn stjórnsýsla getur einfaldað samskipti. Ein hindrun fyrir frekari framþróun rafrænnar stjórnsýslu lýtur að öruggri auðkenningu á Netinu auk kröfu um rafræna undirritun.
Markmið: Hefja almenna útbreiðslu rafrænna skilríkja fyrir almenning og fyrirtæki þannig að aðilar geti auðkennt sig með auðveldum og öruggum hætti ásamt því að skrifa rafrænt undir skjöl og skuldbindingar.
Hverjir hafa hag að aðgerðinni: Almenningur, fyrirtæki og opinberir aðilar
Kostnaðarleg áhrif: Stofnkostnaður vegna verkefnisins er töluverður meðan verið er að innleiða rafræn skilríki. Samstarfsaðili ríkisins er Auðkenni ehf. f.h. íslenskra banka. Kostnaður við innleiðingu verkefnisins skiptist milli fjármálaráðuneytisins og Auðkennis ehf skv. sérstökum samningi milli aðila. Erfitt er að meta beina arðsemi af rafrænum skilríkjum. Búist er við töluverðri lækkun á umsýslukostnaði, gífurlegum tímasparnaði með tilheyrandi fjárhagslegum sparnaði og einföldun við að reka erindi og afgreiða þau.
Tímaáætlun: Útbreiðsla rafrænna skilríkja hefst 2007 og er stefnt að almennri útbreiðslu fyrir árslok 2008.
Umsjón: Fjármálaráðuneytið.
Einföldun framtalsskila einstaklinga
Úrlausnarefni: Ríkisskattstjóri hefur ákveðið að á næstu þremur árum verði unnið að einföldun framtalsskila einstaklinga utan atvinnurekstrar. Í þágu þessa verkefnis skiptir miklu máli að rafræn skil upplýsinga launagreiðenda eflist og vinnsla upplýsinga verði með þeim hætti að unnt verði að árita fyrirliggjandi fjárhagsupplýsingar um laun, skuldir, eignir og fleira á rafrænt fyrirframgert framtal. Ef hlutaðeigandi framteljendur hafa áður samþykkt í gegnum heimabanka sína flutning bankaupplýsinga rafrænt inn á framtal þarf hlutaðeigandi gjaldandi ekki að aðhafast frekar og er laus undan framtalsskyldu
Markmið: Einföldun framtalsskila einstaklinga utan atvinnurekstrar með þeim hætti að framteljendur þurfa annað hvort aðeins að staðfesta framtal sitt eða ekkert að aðhafast.
Hverjir hafa hag af aðgerðinni: Almenningur, skattyfirvöld og vissir opinberir aðilar
Kostnaðarleg áhrif: Með einföldun framtalsskila er framteljendum auðveldað mjög verulega samskipti við skattyfirvöld og framtalsgerð. Vinnutap vegna umstangs við framtalsskil ætti að hverfa hjá þeim sem njóta munu hagræðisins. Framtalsskil munu batna og tekjur hins opinbera ættu að aukast. Kostnaður við að koma þessu fyrirkomulagi á verður nokkur í upphafi en mun minnka verulega á næstu árum eftir það.
Tímaáætlun: Tilraun verður gerð með þetta fyrirkomulag hjá u.þ.b. 20.000 framteljendum í tveimur skattumdæmum á árinu 2009. Verkefninu hrint í fulla notkun árið 2010 ef ekki koma upp teljandi hnökrar. Munu þá framteljendur á landinu öllu njóta sama hagræðis frá og með árinu 2010.
Umsjón: Embætti ríkisskattstjóra."………………