Frétt fjmrn: Gjalddagi virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins janúar og febrúar 2009. Frestur til 14.apríl.
Tímabundin niðurfelling álags vegna skila á virðisaukaskatti
6.4.2009
Fréttatilkynning nr. 23/2009
Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er 6. apríl 2009 gjalddagi virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins janúar og febrúar 2009.
Í 1. mgr. 27. gr. laganna kemur fram að sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma skuli aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla skv. 25. gr. hefur verið of há. Þá skal aðili sæta álagi ef endurgreiðsla skv. 3. og 4. mgr. 42. gr. og 3. mgr. 43. gr. hefur verið of há. Í 6. mgr. 27. gr. laganna kemur fram að fella megi niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geti skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.
Vegna áframhaldandi truflana sem orðið hafa á bankastarfsemi hér á landi og áhrifa þess á atvinnulífið telur ráðuneytið að gildar ástæður séu til að beita heimild 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, til tímabundinnar niðurfellingar álags vegna skila á virðisaukaskatti fyrir uppgjörstímabilið janúar og febrúar 2009.
Hefur ráðuneytið í dag beint þeim tilmælum til skattstjóra að fellt verði tímabundið niður álag vegna skila á virðisaukaskatti sem á gjalddaga er 6. apríl 2009 og gildi sú niðurfelling í átta daga eða til 14. apríl 2009.
Vakin er athygli á því að ráðuneytið hefur að undanförnu í tvígang beint samskonar tilmælum til skattstjóra vegna síðustu uppgjörstímabila virðisaukaskatts. Jafnframt voru nýverið á Alþingi samþykkt lög sem kveða á um ákveðinn greiðslufrest á aðflutningsgjöldum (þ.m.t. virðisaukaskatts) vegna uppgjörstímabila á árinu 2009. Standa því vonir til þess að ekki reynist þörf á frekari tilslökunum vegna skila á virðisaukaskatti á næstu mánuðum.
Fjármálaráðuneytinu, 6. apríl 2009