Ársreikningaskrá ríkisskattstjóra hefur í samráði við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) tekið ákvörðun um að fresta álagningu sekta, frá 1. september til 16. september næstkomandi. Ákvörðunin er tekin vegna áhrifa af Kórónuveirufaraldrinum (COVID-19) á vinnu við uppgjör félaga. Álagning sekta miðast því við lista yfir þau félög sem eru á lista hjá ársreikningaskrá yfir skilaskyld félög og ekki hafa skilað ársreikningi fyrir miðnætti þriðjudaginn 15. september 2020.
Ársreikningaskrá vill benda fagaðilum á að skilafrestur fyrir örfélag sem velur að skila svonefndum hnappsreikningi miðast við frest sem Skatturinn hefur veitt atvinnumönnum til að skila skattframtölum. Í praktík þýðir þetta að ársreikningaskrá mun fella niður sektir á félög sem skila hnappsreikningi á tímabilinu 16. september fram til miðnættis sunnudaginn 4. október næstkomandi. Ársreikningaskrá vill ítreka að félögum er skylt að senda ársreikningaskrá til opinberrar birtingar, þann ársreikning sem staðfestur var á aðalfundi viðkomandi félags, eins og reikningurinn var staðfestur. Ekki er heimilt að breyta eða fella niður neinar upplýsingar í þeim reikningi sem sendur er ársreikningaskrár til opinberrar birtingar. Ekki er því heimilt að staðfesta hefðbundinn ársreikning á aðalfundi félags en senda inn hnappsreikning til ársreikningaskrár í stað þess reiknings sem staðfestur var á fundinum.
Fyrirkomulag álagningar stjórnvaldssekta vegna vanskila á ársreikningum vegna reikningsársins sem lauk 31. desember 2019 verður með eftirfarandi hætti:
- Miðvikudaginn 16. september 2020 verður lögð á stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. á öll félög sem eru á lista ársreikningaskrár yfir skilaskyld félög.
- Mánudaginn 5. október 2020 verða felldar niður stjórnvaldssektir á félög sem sendu inn hnappsreikning á tímabilinu 16. september til miðnættis sunnudaginn 4. október 2020.
- Mánudaginn 19. október verðu sektir lækkaðar úr 600.000 kr. niður í 60.000 kr. (90% lækkun) fyrir öll félög sem skila ársreikningi (að hnappsreikningum undanskyldum) á tímabilinu 16. september til miðnættis sunnudaginn 18. október 2020.
- Miðvikudaginn 11. nóvember verða sektir lækkaðar úr 600.000 kr. niður í 60.000 kr. (90% lækkun) fyrir öll félög sem skila hnappsreikningi á tímabilinu 5. október til miðnættis sunnudagsins 8. nóvember 2020.
- Þriðjudaginn 17. nóvember verða sektir lækkaðar úr 600.000 kr. niður í 240.000 kr. (60% lækkun) fyrir öll félög sem skila ársreikningi (að hnappsreikningum undanskildum) á tímabilinu 19. október til miðnættis mánudagsins 16. nóvember 2020.
- Mánudaginn 7. desember verða sektir lækkaðar úr 600.000 kr. niður í 240.000 kr. (60% lækkun) fyrir öll félög sem skila hnappsreikningi á tímabilinu 9. nóvember til miðnættis sunnudaginn 6. desember 2020.
- Fimmtudaginn 17. desember verða sektir lækkaðar úr 600.000 kr. niður í 360.000 kr. (40% lækkun) fyrir öll félög sem skila ársreikningi (að hnappsreikningum undanskildum) á tímabilinu 17. nóvember til miðnættis miðvikudaginn 16. desember 2020.
- Miðvikudaginn 6. janúar 2021 verða sektir lækkaðar úr 600.000 kr. niður í 360.000 kr. (40% lækkun) fyrir öll félög sem skila hnappsreikningi á tímabilinu 7. desember til miðnættis þriðjudaginn 6. janúar 2021.
Kveðja / Regards
Halldór I. Pálsson
………………………………………………………………………………………..
Ríkisskattstjóri Reykjavík Internal Revenue, Main Office Reykjavík |