Febrúarráðstefna Fvb var haldin á Hótel Loftleiðum föstudaginn sl. og var metþátttaka. 100 manns hlýddu á fyrirlestra um nýjustu skattalagabreytingarnar, starfsleikni og nýjungar í netframtölum. Ráðstefnan var sett kl.10 og stóð Elías Jóhannsson, úr endurmenntunarnefnd, sig með prýði sem ráðstefnustjóri og sá til þess að allt gengi snurðulaust fyrir sig.
Fyrst í pontu var Jóhanna A. Jónsdóttir, lögfræðingur hjá PWC, og fór hún yfir nýjustu breytingarnar á virðisauka- og tekjuskattslögunum. Þar bar hæst nýja 7% virðisauka-skattþrepið sem leggst á allar vörur til manneldis. Einnig að heimaönnunarstyrkir verða undanþegnir tekjuskatti, aldurstakmark barnabóta hækkar úr 16 árum í 18 ár og ótekjutengdar barnabætur og viðmiðunarmörk tekna vegna tekjutengdra barnabóta hækka um 25%.
Eftir fróðlegan fyrirlestur og fjörugar umræður var haldið í hádegismat þar sem starfsmenn Hótel Loftleiða höfðu reitt fram dýrindis þriggja rétta hádegisverðarhlaðborð.
Eftir hádegið hélt Steinunn I. Stefánsdóttir frá Starfsleikni, fyrirlestur um vinnugleði. Hún fjallaði um vinnumenningu Íslendinga og hvernig álag í starfi getur bæði verið of lítið og of mikið. Best væri ef álagið væri hæfilegt þannig að starfsmenn geti nýtt styrkleika sína sem best.
Að lokum komu starfsmenn frá Ríkisskattstjóra og fræddu ráðstefnugesti um allt það nýjasta í netframtölum. Hrefna Einarsdóttir kynnti alþjóðavefinn á rsk.is (www.rsk.is/international), einfaldari tegund skattframtala fyrir útlendinga og norræna skattavefinn (http://nordisketax.net).
Eftir kaffihlé voru það svo Jón Ásgeir Tryggvason og Haraldur Hannesson sem héldu áfram þar sem frá var horfið og fóru yfir endurbætt eyðublöð í tengslum við kaup og sölu hlutabréfa og kaup og sölu fasteigna. Einnig sýndu þeir hvernig bifreiðaskráin er orðin aðgengilegri og tæknilegri sem auðveldar útfyllingu bifreiðahlunnindamiða.
Ráðstefnunni var svo slitið kl.17. Þetta var frábærlega vel heppnað í alla staði og á endurmenntunarnefndin hrós skilið!
Fyrirlestrana í heild sinni má finna á innri vefnum undir Námskeiðsefni.