Search
Close this search box.

Frumbarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti

Meðfylgjandi er frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum. Frumvarpið varðar fyrningu kröfuréttinda. Er í því lagt til að  fyrningarfrestur verði styttur á þeim kröfum  sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Verði hann 2 ár.    Sami frestur verði látinn gilda um kröfur sem ekki hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin, nema ef fyrnist á skemmri tíma samkvæmt núgildandi reglum.

Fleiri atriði er að finna í frumvarpinu.

Í umsögn   sinni um frumvarpið kemst fjármálaráðuneytið svo að orði varðandi skattkröfur:
   ” Samkvæmt gildandi lögum er fyrningarfrestur skattaskulda fjögur ár. Hinn almenna verklagsregla hjá innheimtumönnum ríkissjóðs í dag er sú að krefjast ekki nema í undantekningartilvikum gjaldþrots þegar um er að ræða skattskuldir einstaklinga. Þar er látið nægja að gera fjárnám til tryggingar kröfunni. Skuldaranum sjálfum er hins vegar frjálst að fara fram á gjaldþrotaskipti, en slíkt gerist afar sjaldan. Reynist fjárnámið árangurslaust fer krafan inn á biðskrá innheimtumanns þar sem hún situr alla jafna óhreyfð næstu fjögur árin, nema skuldarinn rjúfi sjálfur fyrninguna á tímabilinu. Að fjórum árum liðnum fer fram eignakönnun hjá viðkomandi einstaklingi og leiði hún í ljós eignaleysi er krafan afskrifuð og skuldari er þá laus allra mála.
    Verði umrætt frumvarp hins vegar að lögum styttist fyrningarfrestur skattaskulda úr fjórum árum í tvö ár óski skuldari eftir gjaldþrotaskiptum. Að tveimur árum liðnum lætur innheimtumaður ríkissjóðs gera eignakönnun og telji hann líkur á að skuldari verði borgunarfær á næstu árum getur hann óskað eftir því gagnvart héraðsdómi að rjúfa fyrninguna og þá hefst almennur fyrningarfrestur. Gera má ráð fyrir að þessi stytting á fyrningarfrestinum auki umsýslu með þessum málum hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, annars vegar vegna þess að reikna má með að einstaklingar muni í auknum mæli óska eftir gjaldþrotaskiptum sem kallar á kröfulýsingu o.fl. af hálfu innheimtumanns sem hefur aðeins gerst í undantekningartilvikum fram til þessa og hins vegar vegna þess að leggja þarf í viðbótarvinnu að aðeins tveimur árum liðnum varðandi rof á fyrningu gagnvart héraðsdómi ef líkur eru taldar á að skuldari reynist borgunarmaður síðar. Ekki er þó talin ástæða til að ætla að vinna við þessa umsýslu verði í þeim mæli að gera þurfi sérstaka áætlun um það.
    Mikil óvissa er um það hvaða áhrif þessi breyting muni hafa á innheimtu skatttekna á komandi árum en gera má ráð fyrir því að innheimtuhlutfallið geti lækkað eitthvað. Hugsanlegt er að einhverjir sjái sér hag í því að gera sig gjaldþrota til að komast fyrr út úr skuldum. Það sem kann þó að skipta meira máli er að minni tilhneiging kann að verða til svartrar vinnu til lengri tíma litið vegna þess að einstaklingar komast fyrr út úr þeim fjárhagslegu aðstæðum sem knúið hafa þá í þrot. Þannig má ætla að þeim einstaklingum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta takist fyrr að koma fjármálum sínum á réttan kjöl og taka þannig eðlilegan þátt í þjóðlífinu með öflun tekna og greiðslu skatta. Á þessu stigi er hins vegar með engu móti unnt að segja fyrir um áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs þegar upp verður staðið en varla er þó ástæða til að ætla að þau verði umtalsverð.
    Eins og að framan greinir er gert ráð fyrir því að samþykkt frumvarpsins muni hafa einhverja aukna vinnu í för með sér fyrir innheimtumenn ríkissjóðs sem þó er gert ráð fyrir að rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins. “

Þskj. 116  —  108. mál.

Frumvarp til laga

um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991,
með síðari breytingum (fyrningarfrestur).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)

1. gr.

    Í stað 2. mgr. 165. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.
    Fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að lánardrottinn höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að lánardrottinn sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar. Hafi lánardrottinn fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem miða að því að stytta fyrningarfrest á þeim kröfum eða þeim hluta þeirra sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Með því móti er þeim einstaklingum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta en bera áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin auðveldað að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.
    Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. byrjar nýr fyrningarfrestur kröfu að líða á þeim degi sem gjaldþrotaskiptum lauk ef krafa í þrotabú hefur verið viðurkennd en ella telst fyrningarfrestur frá þeim degi sem kröfunni er lýst. Hinn nýi fyrningarfrestur er sá sami og krafan bar áður og getur verið fjögur, tíu eða tuttugu ár eftir því um hvaða kröfu er að ræða. Unnt er að rjúfa fyrninguna á þessu tímabili og þannig viðhalda kröfunni um aldur og ævi. Við gjaldþrotaskipti á búi einstaklings fellur krafa ekki niður þótt henni hafi ekki verið lýst við skiptin, en fyrning hennar rofnar ekki vegna skiptanna og gildir þá sá fyrningarfrestur sem við á eftir almennum reglum.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að fyrningartími allra krafna sem lýst er í þrotabú verði sá sami án tillits til þess um hvers konar kröfu er að ræða. Sá tími verði tvö ár. Jafnframt er lagt til að sami frestur gildi um kröfur sem ekki hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin nema þær fyrnist á skemmri tíma eftir almennum reglum. Þetta er lagt til með tilliti til þess að lánardrottinn ætti að öðrum kosti færi á að láta almennan fyrningarfrest gilda um kröfu sína með því einu að lýsa henni ekki við skiptin. Að auki er lagt til að ekki verði unnt að slíta fyrningunni, hvort sem kröfu hefur verið lýst eða ekki, innan þessa tveggja ára frests nema í undantekningartilfellum, en til þess þurfi lánardrottinn að höfða mál fyrir dómstólum á hendur þrotamanni og fá viðurkenningu á því að fyrningu kröfunnar sé slitið. Til þess að fá slíkan viðurkenningardóm samkvæmt frumvarpinu þarf lánardrottinn að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið, auk þess sem hann verður að leiða líkur að því að hann geti fengið fullnustu kröfu sinnar með lengri fyrningartíma. Þegar rætt er hér um sérstaka hagsmuni lánardrottins er horft til þess af hvaða rót kröfurnar eru runnar og höfð í huga tilvik eins og krafa á hendur þrotamanni sem til hefur orðið með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans. Hér er að sjálfsögðu ekki um tæmandi talningu að ræða en til þess ber að líta að hér er gert ráð fyrir að um undantekningartilfelli verði að ræða og þrönga túlkun á heimildinni. Er ráðgert að það komi í hlut dómstóla að afmarka í framkvæmd hvers konar tilvik gætu heyrt hér undir. Fái lánardrottinn viðurkenningu dómstóls á því að fyrningu kröfunnar sé slitið hefst nýr fyrningarfrestur eftir almennum reglum. Þá er einnig lagt til að ef skuldari eignast á þessu tveggja ára tímabili eign og lánardrottinn gerir fjárnám í henni þá fyrnist ekki sá hluti kröfu hans sem greiðist af andvirði þess sem fjárnám var gert í. Sá hluti kröfunnar sem greiðist ekki af andvirði eignarinnar mundi á hinn bóginn fyrnast við lok þessa tveggja ára tímabils.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum (fyrningarfrestur).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fyrningarfrestur verði styttur á þeim kröfum eða þeim hluta krafna sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að fyrningartími allra krafna sem lýst er í þrotabú verði tvö ár án tillits til þess um hvers konar kröfu er að ræða. Sami frestur verði látinn gilda um kröfur sem ekki hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin, nema þær fyrnist á skemmri tíma samkvæmt almennum reglum. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir því að ekki verði hægt að slíta fyrningunni innan þessa tveggja ára frests nema í undantekningartilfellum og þarf þá dómsmál gegn þrotamanni til. Á þetta við hvort sem kröfu hefur verið lýst eða ekki. Fái lánardrottinn viðurkenningu fyrir dómi um að fyrningu kröfu sé slitið hefst nýr fyrningarfrestur eftir almennum reglum. Í gildandi lögum er fyrningarfrestur fjögur, tíu eða tuttugu ár eftir eðli kröfunnar og er unnt að rjúfa fyrninguna á þessu tímabili og viðhalda henni þannig um aldur og ævi.
    Í frumvarpinu er auk þess lagt til að ef skuldari eignast aðra eign á þessu tveggja ára tímabili sem lánardrottinn fær fjárnám í þá fyrnist ekki sá hluti kröfu hans sem greiðist af andvirði þeirrar eignar. Það sem ekki greiðist af andvirði nýju eignarinnar mun fyrnast við lok þessa tveggja ára tímabils.
    Samkvæmt gildandi lögum er fyrningarfrestur skattaskulda fjögur ár. Hinn almenna verklagsregla hjá innheimtumönnum ríkissjóðs í dag er sú að krefjast ekki nema í undantekningartilvikum gjaldþrots þegar um er að ræða skattskuldir einstaklinga. Þar er látið nægja að gera fjárnám til tryggingar kröfunni. Skuldaranum sjálfum er hins vegar frjálst að fara fram á gjaldþrotaskipti, en slíkt gerist afar sjaldan. Reynist fjárnámið árangurslaust fer krafan inn á biðskrá innheimtumanns þar sem hún situr alla jafna óhreyfð næstu fjögur árin, nema skuldarinn rjúfi sjálfur fyrninguna á tímabilinu. Að fjórum árum liðnum fer fram eignakönnun hjá viðkomandi einstaklingi og leiði hún í ljós eignaleysi er krafan afskrifuð og skuldari er þá laus allra mála.
    Verði umrætt frumvarp hins vegar að lögum styttist fyrningarfrestur skattaskulda úr fjórum árum í tvö ár óski skuldari eftir gjaldþrotaskiptum. Að tveimur árum liðnum lætur innheimtumaður ríkissjóðs gera eignakönnun og telji hann líkur á að skuldari verði borgunarfær á næstu árum getur hann óskað eftir því gagnvart héraðsdómi að rjúfa fyrninguna og þá hefst almennur fyrningarfrestur. Gera má ráð fyrir að þessi stytting á fyrningarfrestinum auki umsýslu með þessum málum hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, annars vegar vegna þess að reikna má með að einstaklingar muni í auknum mæli óska eftir gjaldþrotaskiptum sem kallar á kröfulýsingu o.fl. af hálfu innheimtumanns sem hefur aðeins gerst í undantekningartilvikum fram til þessa og hins vegar vegna þess að leggja þarf í viðbótarvinnu að aðeins tveimur árum liðnum varðandi rof á fyrningu gagnvart héraðsdómi ef líkur eru taldar á að skuldari reynist borgunarmaður síðar. Ekki er þó talin ástæða til að ætla að vinna við þessa umsýslu verði í þeim mæli að gera þurfi sérstaka áætlun um það.
    Mikil óvissa er um það hvaða áhrif þessi breyting muni hafa á innheimtu skatttekna á komandi árum en gera má ráð fyrir því að innheimtuhlutfallið geti lækkað eitthvað. Hugsanlegt er að einhverjir sjái sér hag í því að gera sig gjaldþrota til að komast fyrr út úr skuldum. Það sem kann þó að skipta meira máli er að minni tilhneiging kann að verða til svartrar vinnu til lengri tíma litið vegna þess að einstaklingar komast fyrr út úr þeim fjárhagslegu aðstæðum sem knúið hafa þá í þrot. Þannig má ætla að þeim einstaklingum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta takist fyrr að koma fjármálum sínum á réttan kjöl og taka þannig eðlilegan þátt í þjóðlífinu með öflun tekna og greiðslu skatta. Á þessu stigi er hins vegar með engu móti unnt að segja fyrir um áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs þegar upp verður staðið en varla er þó ástæða til að ætla að þau verði umtalsverð.
    Eins og að framan greinir er gert ráð fyrir því að samþykkt frumvarpsins muni hafa einhverja aukna vinnu í för með sér fyrir innheimtumenn ríkissjóðs sem þó er gert ráð fyrir að rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins.

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur