Meðfylgjandi er frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
Um er að ræða frumvarp sem hefur að geyma ýmsar úrbætur á sviði framkvæmdarinnar.
Þetta skal helst tilgreint:
1. Lagt verður gjald á þá aðila sem ekki skila skýrslum á réttum tíma. Berist virðisaukaskattsskýrsla eftir að skattaðili hefur sætt áætlun skal ríkisskattstjóri leggja á hann gjald að fjárhæð 5.000 kr. fyrir hverja virðisaukaskattsskýrslu sem hefur ekki verið skilað á réttum tíma.
2. Skylt verður að skila skýrslum rafrænt. En gert er ráð fyrir því að ríkisskattstjóri geti veitt skattaðilum heimild til að skila virðisaukaskattsskýrslum á pappír ef sérstök vandkvæði eru á því að skila þeim rafrænt.
3. Synja má skráningu ef aðili hefur sætt áætlun gjalda. Ríkisskattstjóra verður heimilt að synja aðila um skráningu á virðisaukaskattsskrá liggi fyrir að opinber gjöld hans séu áætluð á einhverju ári af næstliðnum þremur tekjuárum á undan því ári sem sótt er um skráningu á virðisaukaskattsskrá.
4. Skilyrði innskattsfrádráttar verði að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.
5. Fjárhæðarmörk þeirra sem eru undanþegnir skattskyldu verði hækkuð úr 500.000 kr. í 1.000.000 kr.
6. Fjárhæðarmörk þeirra sem eru í ársskilum verði hækkuð í 3.000.000 kr. úr 1.400.000 kr.
7. Framlengd verði til ársloka 2011 heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða til þeirra sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni.
8. Framlengd verði til ársloka 2011 heimild til endurgreiðslu 100% virðisaukaskatts til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis. Þetta á jafnframt við um húsnæði sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra.
9. Skilgreint er hvað telst vera útflutningur á rafrænt afhentri þjónustu og teljist þar með ekki til skattskyldrar veltu. Ákvæði núverandi laga hafa þótt óljós hvað þetta varðar og gerir breyting þessi einnig betur kleift að afmarka það hvað teljist til afhendingar á rafrænni þjónustu hjá gagnaverum hér á landi. Sjá frumvarp hér