139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 77 — 73. mál.
um breytingu á lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.
2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki voru samþykkt á 137. löggjafarþingi og tóku gildi 1. janúar sl. Þau koma þó aðeins til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010. Samkvæmt upphaflegu frumvarpi til téðra laga, sem lagt var fram af fjármálaráðherra, var eitt þeirra skilyrða sem lögaðilar þyrftu að uppfylla, til þess að þeim yrði veitt staðfesting sem nýsköpunarfyrirtæki í skilningi laganna og þeim væri heimill ákveðinn skattfrádráttur, að sýnt væri fram á með gögnum að varið yrði a.m.k. 20 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili. Eftir að efnahags- og skattanefnd Alþingis hafði fjallað um frumvarpið lagði hún fram tillögur til breytinga á frumvarpinu. Meðal tillagna nefndarinnar var að viðmiðunarfjárhæð til rannsókna og þróunar, sem skilyrði staðfestingar sem nýsköpunarfyrirtæki, yrði lækkuð úr 20 í 5 millj. kr. Var tillagan reist á þeim efnislegu rökum að slíkt skilyrði skattfrádráttar kynni að vera of íþyngjandi og stæði af þeim sökum í vegi fyrir því að smærri þekkingarfyrirtæki nytu góðs af ákvæðum frumvarpsins. Framangreind breytingartillaga nefndarinnar var samþykkt í atkvæðagreiðslu á Alþingi 17. desember 2009 og varð frumvarpið að lögum svo breytt.
Við samningu frumvarps til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki var m.a. litið til SkatteFUNN-kerfis Norðmanna sem heimilar skattfrádrátt vegna útlagðs kostnaðar við rannsóknar- og þróunarverkefni. Þar er ekki að finna í lögum neina lágmarksupphæð sem fyrirtæki þarf að leggja í nýsköpun og þróun heldur virðist höfuðáhersla vera lögð á að verkefnið sé í eðli sínu nýsköpunarverkefni og að skattfrádráttur fari ekki umfram áætlanir. Er af þeim sökum aðeins sett hámark á stofn útreiknings frádráttar en ekkert lágmark. Markmið hinna íslensku laga er að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknir og þróunarstarf þeirra. Sérstaklega er tekið fram í almennum athugasemdum við lagafrumvarpið að: „[…] Markmið stjórnvalda með slíkum stuðningi [sé] að stuðla að verðmætaaukningu í íslenskum þjóðarbúskap með sköpun nýrra atvinnutækifæra og fjölgun starfa sem ella hefðu ekki orðið til. Sú verðmætasköpun mun[i] án efa leiða til aukinna skatttekna, bæði beinna og óbeinna, til allrar framtíðar, sem búast má við að geri gott betur en að vega upp beinan kostnað af þeirri ríkisaðstoð sem efnt kann að vera til í þessu sambandi.[…]“
Af framangreindu verður ráðið að íslensk stjórnvöld hafa við framlagningu frumvarps til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki talið sig eygja þann möguleika að óbein fjárfesting íslenska ríkisins í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum, í gegnum skattalega ívilnun, kynni að borga sig samfélags- og fjárhagslega til lengri tíma litið. Vandséð er hvernig markmiðum laganna verður náð þegar lágmarksupphæð 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. þeirra getur í raun haft hamlandi áhrif á minni nýsköpunarfyrirtæki einmitt á þeim tíma þegar þau eru viðkvæmust, að hefja rekstur og þurfa einna mest á stuðningi að halda. Af þeim sökum er með frumvarpi þessu lagt til að ákvæði um áskilda lágmarksupphæð, sem ætlað er að verja til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili, verði fellt brott.