Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um Ríkisútvarpið ohf.
(innheimta gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjalds).
Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
a. 1. mgr. orðast svo:
Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur úr ríkissjóði.
Framlag úr ríkissjóði fer eftir ákvörðun Alþingis og kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
b. 2. og 3. mgr. falla brott.
II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
a. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Tekjur úr ríkissjóði. Framlag úr
ríkissjóði fer eftir ákvörðun Alþingis og kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
b. 2. mgr. fellur brott.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Greinargerð.
Markmið þessa frumvarps er að einfalda innheimtu gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjalds. Samkvæmt núgildandi lögum eru gjöldin innheimt sérstaklega. Með því að hætta sérstakri innheimtu þessara gjalda og hækka skattprósentu í samræmi við þau má ná fram hagræði og sparnaði. Með lögum nr. 174/2008, um breytingu á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., voru gerðar þær breytingar að útvarpsgjald rann beint til ríkissjóðs. Í ljósi þess að útvarpsgjald rennur nú þegar til ríkissjóðs er ekki um að ræða neina breytingu varðandi útvarpsgjaldið nema sem viðkemur innheimtunni.