Search
Close this search box.

Heimild til færslu innskatts þegar seljandi er ekki skráður á virðisaukaskattsskrá

Samkvæmt ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er það m.a. skilyrði innskattsfrádráttar „að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað“. Ákvæðið var lögfest með 6. gr. laga nr. 163/2010, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana), og tók það gildi 1. janúar 2011. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 163/2010 kemur fram að samkvæmt lögum nr. 50/1988, eins þau voru fyrir gildistöku laga nr. 163/2010, geti ,, … ríkisskattstjóri ekki neitað rekstraraðilum um færslu innskatts á grundvelli reikninga frá aðilum sem hafa verið afskráðir af virðisaukaskattsskrá en gefa engu síður út reikninga sem eru í samræmi við formákvæði laganna. Af þessum sökum hefur ríkissjóður orðið fyrir tapi bæði vegna þess að virðisaukaskattur á grundvelli reikningsins er ekki greiddur í ríkissjóð og rekstraraðilinn fær virðisaukaskattinn greiddan í formi innskatts. Verði komið í veg fyrir þetta hvetur það kaupendur vöru og þjónustu til þess að eiga eingöngu viðskipti við þá aðila sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá.“Í athugasemdum við framangreinda 6. gr. frumvarpsins segir svo:

„Með þessu ákvæði er lagt til að heimild til færslu innskatts sé háð því skilyrði að viðsemjandi skattaðilans sé á virðisaukaskattsskrá þegar viðskipti eiga sér stað. Upp hafa komið mörg tilvik þar sem skattaðili hefur talið virðisaukaskatt til innskatts án þess að viðsemjandi hans hafi verið með opið virðisaukaskattsnúmer eða jafnvel aldrei skráður á virðisaukaskattsskrá en þrátt fyrir það gefið út reikning með virðisaukaskatti og ekki staðið skil á honum í ríkissjóð. Með ákvæðinu er stefnt að því að koma í veg fyrir slík tilfelli og fyrirbyggja tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum.

Á upplýsingavef ríkisskattstjóra er með einfaldri uppflettingu hægt að fá upplýsingar um það hverjir hafa virðisaukaskattsnúmer. Hægt er að leita bæði eftir kennitölu og virðisaukaskattsnúmeri og birtast upplýsingar um það hvenær viðkomandi virðisaukaskattsnúmer var opnað og hafi því verið lokað koma fram upplýsingar hvenær það var gert.“

Samkvæmt framangreindu verður því talið eðlilegt að leggja þá skyldu á greiðanda reiknings að ganga úr skugga um að uppfylltar séu þær kröfur sem gerðar eru lögum samkvæmt um form og efni reikninga, þ.m.t. að athuga hvort að útgefandi reiknings sé skráður á virðisaukaskattsskrá þegar viðskipti eiga sér stað. Þau sjónarmið koma glögglega fram í áliti efnahags- og skattanefndar við það frumvarp er varð að lögum nr. 163/2010:

,,Þær kröfur hafa verið gerðar til þeirra sem óska frádráttar innskatts frá útskatti að þeir færi sönnur á réttmæti slíks frádráttar með því að tryggja að reikningar sem bera með sér að skattur hafi verið greiddur svari þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra skjala. Nefndin telur að þegar framangreind framkvæmd var útfærð í lögum og reglum hafi verið litið til þess að það stæði greiðanda slíkra reikninga næst að fylgjast með því að reikningarnir uppfylltu þær kröfur sem gerðar væru, enda væri óviðeigandi að fella slíka skyldu á útgefanda reikninganna og hvað þá á stjórnvöld sem á engan hátt gætu haft yfirsýn yfir að viðskipti ættu sér stað. Framangreind regla er í samræmi við þá meginreglu um sönnun að sönnunarbyrði hvíli á þeim sem næst stendur að tryggja sönnun. Nefndin telur að slíkt hið sama eigi við um tryggingu þess að viðskiptamenn séu skráðir á virðisaukaskattsskrá að breyttu breytanda.“

Nefnt ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 er samkvæmt framangreindu afdráttarlaust í þessum efnum og veitir ekki neitt svigrúm til mats og er skattyfirvöldum samkvæmt orðanna hljóðan óheimilt að fallast á færslu innskatts samkvæmt reikningi sem gefinn er út af hálfu aðila sem ekki er skráður á virðisaukaskattsskrá þegar viðkomandi viðskipti eiga sér stað.

Gengið hafa úrskurðir yfirskattanefndar þar sem gerður hefur verið ágreiningur um túlkun á framangreindu ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. t.d. mál nr. 70 og 71/2014, en þeir voru kveðnir upp 19. ágúst 2014. Í báðum tilvikunum var úrskurður ríkisskattstjóra staðfestur. Fyrrnefndi úrskurðurinn er birtur á vefsvæði yfirskattanefndar, www.yskn.is. Þeim úrskurði var skotið til dómstóla og var niðurstaða yfirskattanefndar staðfest og íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnanda með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. maí 2015, í máli nr. E-3526/2014. Vakin er athygli á því að dómurinn er reifaður á upplýsingavef ríkisskattstjóra, nánar tiltekið á síðunni http://www.rsk.is/fagadilar/domar/domur-heradsdoms-reykjavikur-i-mali-nr-e-3526-2014


Ríkisskattstjóri


Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur