Search
Close this search box.

Lög

Nafn og tilgangur

1. gr

Nafn félagsins er: Félag viðurkenndra bókara, skammstafað Fvb.

2. gr

Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

3. gr

Félagsmenn eru þeir einir sem hafa hlotið viðurkenningu fjármálaraðuneytis sem viðurkenndir bókarar og sem óska eftir aðild og fullnægja skilyrðum laga þessara.

4. gr

Tilgangur félagsins er:

  • Að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna.
  • Að vinna að samræmingu á vinnubrögðum félagsmanna m.a. með útgáfu og birtingu á heimasíðu félagsins um leiðbeinandi reglur um bókhald, reikningsskil og skattskil.
  • Að vinna að bættri þjónustu félagsmanna við viðskiptavini sína, opinbera aðila og aðra er byggja á störfum þeirra.
  • Að vinna að kynningu á starfssviði félagsmanna.
  • Að vera í forsvari fyrir félagsmenn sem heild á opinberum vettvangi.
  • Að vera vettvangur fyrir gagnkvæm kynni félagsmanna.
  • Að vinna að því að almennt aðhald sé með starfsemi og framkvæmd starfa félagsmanna.
  • Að koma fram fyrir hönd viðurkenndra bókara gagnvart stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða.

5. gr

Tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með reglulegum fundum félagsmanna, ályktunum og samþykktum, námskeiðahaldi fyrir félagsmenn og starfsmenn þeirra, eitt sér eða í samstarfi við aðra aðila, einnig með útgáfu fréttablaðs og annarra upplýsingarita og er birting á heimasíðu félagsins eða sending með tölvupósti jafngilt sem prentað, samantekt fræðslugagna sem varða störf félagsmanna, í samstarfi við hliðstæð félög innlend og erlend og með öðrum þeim hætti sem forsvarsmenn félagsins telja henta og við eiga hverju sinni.

 

Félagsmenn

6. gr

Félagsmenn geta þeir orðið sem hafa réttindi sem viðurkenndir bókarar samkvæmt ákvæðum laga þar um nú laga nr. 145/1994 grein 43 og óska skriflega eftir aðild að félaginu við stjórn þess. Félagsaðild manna fellur niður ef viðurkenningin fellur niður samkvæmt ákvæðum laga um viðurkennda bókara, þeir segja sig skriflega úr félaginu, þeir uppfylla ekki endurmenntunarkröfur sbr. 21. gr., eða eru í skuld við félagið í 2 ár eða lengri tíma. Ef félagsmaður gerist að mati stjórnar Fvb sannur að alvarlegu broti í starfi gagnvart opinberum aðilum eða gagnvart viðskiptavinum sínum getur stjórnin gert tillögu til aðalfundar um að víkja þeim aðila úr félaginu, sbr. 20. gr. þessara laga.

7. gr

Samskiptareglur Félags viðurkenndra bókara (Fvb) eru sjálfstæður hluti laga félagsins.

8. gr

Ef einhver félagsmaður hefur unnið mikilvæg störf í þágu félagsins eða stéttarinnar í heild getur aðalfundur kjörið slíkan mann heiðursfélaga enda beri stjórn félagsins fram tillögu þar að lútandi.

9. gr

Félagsmönnum ber að upplýsa stjórn félagsins um breytingar sem verða á lögheimili þeirra og heimilisfangi starfsstöðvar sem og netfangi. Skal stjórnin halda nákvæma félagaskrá. Sending fundarboða og annarra tilkynninga er gild ef þær eru sendar á heimilisfang þeirrar starfsstöðvar sem hann hefur tilkynnt eða netfang.

10. gr

Um réttindi og skyldur félagsmanna fer eftir ákvæðum þessara laga.

 

Stjórn

11. gr

Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum.
Formaður skal kosinn til eins árs í senn.

Ef fleiri en tveir fá atkvæði í formannskjöri en enginn þeirra helming greiddra atkvæða, skal kosið að nýju milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu í fyrri kosningu.

Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir ár hvert.

Óheimilt er að kjósa sama mann til formanns oftar en þrisvar í röð.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, varaformaður, gjaldkeri , ritari og meðstjórnandi.

Stjórnarmenn fá þóknun fyrir störf sín skv. samþykkt aðalfundar hverju sinni.

Kjósa skal einn skoðunarmann reikninga og annan til vara til eins árs í senn.

12. gr

Stjórn félgagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin skal í hvívetna gæta hagsmuna félagsins í störfum sínum.

 

Fundir og fundarseta

13. gr

Formaður kveður stjórnina til funda þegar hann telur þess þörf eða einn meðstjórnenda óskar þess.

14. gr

Til félagsfunda skal stjórnin boða með bréfi eða tölvupósti til hvers og einstaks félagsmanns með minnst 7 daga fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála er fjallað skal um á fundinum.

Fimmti hluti félagsmanna hið fæsta hefur rétt til að krefjast félagsfundar. Skal það gert skriflega og greina frá fundarefni. Skal stjórninni skylt að boða til fundarins með venjulegum hætti sem haldinn skal innan 21 dags frá því að henni barst krafa þar um og geta skal fundarefnis í fundarboði.

15. gr

Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í nóvember ár hvert. Skal boðað til hans bréflega eða með tölvupósti með 2 vikna fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Atkvæðisrétt hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald yfirstandandi árs og eru skuldlausir við félagið.

Aðalfundi stýrir fundarstjóri sem kosinn er til þess af fundarmönnum og tilnefnir hann fundaritara. Hann rannsakar í fundarbyrjun hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan hvort svo sé.

Fundarstjóri skal stjórna fundinum samkvæmt lögum félagsins og almennum reglum um fundarsköp.

Dagskrá fundarins skal vera:

  1. Kosning fundarstjóra
  2. Kosning fundarritara og  tveggja atkvæðateljara
  3. Skýrsla stjórnar og umræður 
  4. Skýrslur nefnda og umræður 
  5. Lagður fram ársreikningur til samþykktar, umræður 
  6. Tillögur til breytinga á lögum félagsins ef um þær er að ræða
  7. Kosning formanns
  8. Kosning meðstjórnenda
  9. Kosning skoðunarmanns reikninga og annars til vara
  10. Kosning nefnda
    a. Endurmenntunarnefnd
    b. Samskiptanefnd
    c. Skemmtinefnd
  11. Tillaga stjórnar um félagsgjald félagsmanna og inntökugjald næsta reikningsár
  12. Tillaga stjórnar um þóknun til stjórnar- og nefndarmanna
  13. Önnur mál

Atkvæðagreiðslur fara fram eftir því sem fundarstjóri kveður nánar á um. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram ef einhver fundarmanna krefst þess.

16. gr

Á fundum félagsins ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

17. gr

Haldin skal gerðarbók þar sem í skal rita stutta skýrslu um það sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er farið hefur fram á fundinum.

Í gerðarbók skal einnig skrá skýrslu um stjórnarfundi með sama hætti og undirrita hana allir viðstaddir stjórnarmenn. Gerðabók getur einnig verið í tölvutæku formi og er staðfesting á fundargerð síðasta fundar getið í upphafi næsta fundar.Fundargerð aðalfundar staðfestist með tilkynningu til félagsmanna eftir að hún hefur verið birt og athugasemdir bókaðar.

 

Fjármál

18. gr

Félag Viðurkenndra bókara er ekki rekið í hagnaðarskyni, heldur skal nota allar eignir og tekjur þess til að vinna að markmiði þess. Fjárhagur félagsins er óháður fjárhag einstakra félagsmanna. Enginn félagsmaður á hlutdeild í eignum félagsins, né er nokkur þeirra ábyrgur fyrir greiðslu skuldbindinga þess.

Ef til skattlagningar kemur, er félagið sjálfstæður skattaðili.

19. gr

Reikningsár félagsins er frá 1. október til 30. september.

20. gr

Aðalfundur ákveður félagsgjald félagsmanna og inntökugjald fyrir hvert ár fyrirfram. Skal stjórnin leggja fram tillögur þar að lútandi.

Stjórn félagsins er heimilt að fella niður félagsgjald, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Hafi félagsmaður eigi greitt félagsgjald sitt fyrir næsta aðalfund vegna yfirstandandi starfsárs er stjórninni heimilt að fella hann af félagaskrá. Gjalddagi félagsgjalda er 1. mars og eindagi 30. apríl. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga ef ekki er greitt fyrir eindaga. Á þetta einnig við ef um aðar skuldir félagsmanna er að ræða. Félagsréttindi öðlast hann á ný, er hann hefur greitt skuld sína við félagið.

Félagsmaður sem fer úr félaginu hvort heldur vegna úrsagnar eða af öðrum ástæðum á hvorki endurkröfurétt til greiddra félagsgjalda né inntökugjalda.

 

Endurmenntun félagsmanna

21. gr

Félagsmaður skal á hverju 3ja ára tímabili sækja endumenntun sem félagið viðurkennir, sem svarar til 45 eininga, sbr. 2. mgr. Heimilt er að víkja frá þessu ef sérstaklega stendur á s.s veikindi.

Einingar skulu reiknaðar sem hér segir:

Fundir og námskeið á vegum Félags viðurkenndra bókara eða önnur sem félagið viðurkennir:

   Hálfdags námskeið eða ráðstefna ………………. 7,5 einingar
   Heilsdags námskeið eða ráðstefna ……………… 15,0 einingar
   Önnur fagnámskeið og fræðslufundir …………… 1,5 eining pr klst

22. gr

Félagsmaður skal skrá þátttöku sína í námskeiðum eða fyrirlestrum á eyðublöð sem Félag viðurkenndra bókara útbýr til notkunar við framkvæmd lagagreina þessara og ber að skila því til Félags viðurkenndra bókara fyrir 31. janúar ár hvert.
Félagið heldur skrá yfir einingafjölda hvers félagsmanns og tilkynnir viðkomandi félagsmanni ef hann uppfyllir ekki ákvæði 22. grar um endurmenntun. Félagsmaður skal framvísa gögnum um þátttöku sína í námskeiðum sem veita einingar óski stjórn Félags viðurkenndra bókara þess. Verði félagsmaður ekki við ósk félagsins um að framvísa umbeðnum gögnum skal tilkynning viðkomandi falla niður. Félagið sjálft ber ekki kostnað vegna endurmenntunar félagsmanna.

23. gr

Óski félagsmaður eftir áframhaldandi veru í félaginu skal hann sýna fram á að hann hafi sinnt endurmenntun sbr. 21. gr. Skili félagsmaður ekki staðfestingu á endumenntun sbr. 21. gr  fellur hann af félagasskrá.

24. gr

Sérstök nefnd skal hafa umsjón með endurmenntun félagsins m.a. með námskeiðum og ráðstefnum fyrir félagsmenn. Að jafnaði skal þó einn stjórnarmaður hafa umsjón með starfi nefndarinnar.

Fimm nefndarmenn skulu vera í nefndinni, þar af einn formaður. Nefndarmaður skal sitja í a.m.k. 2 ár og kosið um 2 annað árið og 3 hitt.

 

Breytingar á lögum

25. gr

Tillaga um breytingar á lögum félagsins eða um félagaslit skal ítarlega getið í fundarboði og skulu þær bornar fram á aðalfundi. Öðlast þær tillögur aðeins gildi ef 2/3 hluta greiddra atkvæða eru með þeim.

Hið sama gildir um tillögur um brottrekstur úr félaginu.

 

Samþykkt á aðalfundi 9.nóvember 2007.

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur