Sæl veriði.
Í síðustu viku voru samþykkt á Alþingi lög sem m.a. varða breytingar á úrræðum tengdum kórónuveirufaraldrinum. Lögin hafa ekki verið birt í Stjórnartíðindum þegar þetta er skrifað.
Um er að ræða mál nr. 769, þskj. 1340 sem tekur til:
- Sérstaks barnabótaauka við álagningu á einstaklinga í lok þessa mánaðar.
- Breytinga á viðspyrnustyrkjum.
- Breytinga á lokunarstyrkjum.
Og mál nr. 698, þskj. 1177 sem tekur til:
- Greiðsludreifingar á áður frestaðri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna og tryggingjalds.
- Heimildar til úttektar á séreignarsparnaði.
Vegna þessa þarf að búa til og breyta umsóknarkerfum hjá Skattinum. Verður það gert eins fljótt og auðið er en fyrir liggur að það verður ekki allt gert í einu og þarf því að hafa á þessu ákveðna röð. Gert er ráð fyrir að fyrst verði álagning á einstaklinga kláruð að meðtöldum sérstökum barnabótaauka, þá verði opnað fyrir umsóknir um lokunarstyrk 6, næst opnað fyrir umsóknir um greiðsludreifingu á staðgreiðslu en umsóknarfrestur er til 10. júní 2021, þá gerðar breytingar á umsóknum um viðspyrnustyrki þar sem við bætist “eitt þrep”, þ.e. ef tekjufall er á bilinu 40-60%, og loks gerðar lítils háttar breytingar á lokunarstyrkjum.
Nánari upplýsingar verða birtar á skatturinn.is eftir því sem efni standa til.
Kveðja / Regards