Search
Close this search box.

Launagreiðandi kaupir tryggingar fyrir starfsmann. Svar rsk við fyrirspurn um skattalega meðferð.


Iðgjaldagreiðslur launagreiðanda fyrir launþega – skattskylda 

Vísað er til fyrirspurnar, dags. 17. nóvember 2014, þar sem óskað er eftir upplýsingum um skattskyldu tryggingaiðgjalda þegar launagreiðandi kaupir tryggingar hjá tryggingafélagi vegna starfsmanna sinna. Annars vegar er um að ræða svokallað „Group insurance agreement“ sem eru í þágu ákveðinna launþega vinnuveitandans og felur í sér hóplíftryggingu (e. life insurance) þar sem ákveðin fjárhæð er greidd út í einu lagi við andlát og veikinda- og slysatryggingu (e. disability insurance) þar sem dagpeningar eru greiddir upp að ákveðinni fjárhæð og hins vegar samning um sjúkratryggingu (e. health insurance) fyrir alla starfsmenn umrædds félags sem felur í sér greiðslu sjúkrakostnaðar launþega og fjölskyldu hans.

Í fyrirspurninni er A-liður 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, reifaður og sú ályktun dregin að ekki verði annað séð en að við móttöku tryggingafjár þeirra trygginga sem hér um ræðir séu mótteknar fjárhæðir skattskyldar, að líftryggingunni undanskilinni. Það sem fyrirspurnin lúti að sé hins vegar hvort þau iðgjöld sem launagreiðandi greiði til tryggingafélags vegna ofangreindra trygginga teljist til skattskyldra hlunninda hjá launþeganum og hvort einhverju skipti hvort umræddar tryggingar séu tryggingar sem kjarasamningur kveði á um að vinnuveitandi skuli taka fyrir starfsmenn sína og gildi bæði utan og innan vinnu. Ef greidd iðgjöld einhverra ofangreindra trygginga teljist ekki vera skattskyldar tekjur í hendi launþega óskist upplýst á hvaða forsendum það sé.

Í tilefni af fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Tekjuhugtak laga nr. 90/2003, um tekjuskatt (tsl.), er rúmt hugtak og tekur til hvers konar gæða sem aðila hlotnast og unnt er að meta til peningaverðs „með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir …“, sbr. upphafsákvæði 7. gr. og er þá verið að vísa til þess að ákveðnar tekjur eru undanþegnar skatti, sbr. t.d. 2. tölul. A-liðar 7. gr. og 28. gr. laganna. 

Samkvæmt 5. tölul. 28. gr. tsl. telst framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um starfstengda eftirlaunasjóði ekki til skattskyldra tekna. Þó skal telja framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda til skattskyldra tekna ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni fara fram úr 12% af iðgjaldsstofni auk 2.000.000 kr. á ári. Þá segir að hafi í kjarasamningum verið samið um iðgjald í lífeyrissjóð eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða það bundið í lögum skuli það aldrei teljast til skattskyldra tekna. Framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda launþega umfram það sem rakið er hér að framan myndi almennt teljast til skattskyldra tekna hjá launþega. Iðgjaldagreiðslur vinnuveitanda til öflunar annarra réttinda fyrir launþega en getið er hér að framan heyra ekki undir framangreinda undanþágu og ekki er vikið að slíkum iðgjaldagreiðslum í öðrum ákvæðum laganna. Um slíkar greiðslur vinnuveitanda gilda því almennar reglur.

Greiði launagreiðandi iðgjöld til tryggingafélaga í eigin nafni til að tryggja sig fyrir því að greiða starfsmönnum sínum laun í veikindum eða vegna slysa teljast slík iðgjöld til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar en tryggingagreiðslurnar til skattskyldra tekna hjá launagreiðandanum, komi til þeirra. Ef á hinn bóginn launagreiðandi greiðir tryggingaiðgjöld vegna persónulegra trygginga fyrir starfsmenn sína teljast iðgjöldin til skattskyldra hlunninda hjá starfsmönnunum þegar þau eru innt af hendi. Um greiðslur frá tryggingafélögum í slíkum tilvikum fer eftir almennum reglum miðað við eðli trygginganna. 
Ríkisskattstjóri

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur