Meðfylgjandi eru nýsamþykkt en enn óbirt og ónúmeruð lög.
Með þessari lagasetningu eru gerðar breytingar á þrennum lögum sem ætlað er að bæta stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti og frestun á nauðungarsölu svo skuldari fái tækifæri til að endurskipuleggja fjármál sín.
Ákvæði laganna geta varðað innheimtu opinberra gjalda.
Þannig eru í 6.grein í lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 reglur á þessa leið: "Dráttarvextir skulu vera samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana (grunnur dráttarvaxta) auk [sjö hundraðshluta álags]1) (vanefndaálag), nema um annað sé samið skv. 2. mgr. þessarar greinar. …1) Seðlabankinn skal birta dráttarvexti samkvæmt þessari málsgrein eigi skemur en viku fyrir gildistökudaga dráttarvaxta sem eru [fyrsta dag hvers mánaðar].1)"
Í 6.grein meðfylgjandi laga er sett ákvæði til bráðabirgða við lög nr 38/2001 á þessa leið:
"Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laganna skulu dráttarvextir sem leggjast á skattkröfur nema fimmtán hundraðshlutum á ársgrundvelli, þó aldrei hærri en almennir dráttarvextir, frá og með 1. apríl til og með 31. desember 2009. "
Lögin voru samþykkt á Alþingi 25. mars 2009 og öðlast þegar gildi við birtingu þeirra i Stjórnartíðindum.