Nafn og tilgangur
1. gr.
Félagið heitir Félag viðurkenndra bókara, skammstafað fvb, enska starfsheitið er
Certified Bookkeeper.
2. gr.
Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.
3. gr. Félagsmenn eru þeir einir sem hafa hlotið viðurkenningu sem viðurkenndir bókarar, fullnægja skilyrðum 43. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, og hafa óskað skriflega eftir aðild að félaginu.
4. gr.
Tilgangur félagsins er:
• Að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna.
• Að vinna að samræmingu á vinnubrögðum félagsmanna, m.a. með útgáfu á leiðbeinandi reglum um bókhald, reikningsskil og skattskil og birtingu þeirra á heimasíðu félagsins.
• Að vinna að bættri þjónustu félagsmanna við viðskiptavini sína, opinbera aðila og aðra
er byggja á störfum þeirra.
• Að vinna að kynningu á starfssviði félagsmanna.
• Að vera í forsvari fyrir félagsmenn sem heild á opinberum vettvangi.
• Að vera vettvangur fyrir gagnkvæm kynni félagsmanna.
• Að vinna að því að almennt aðhald sé með starfsemi og framkvæmd starfa félagsmanna.
• Að koma fram fyrir hönd viðurkenndra bókara gagnvart stjórnvöldum um þau málefni
sem stétt þeirra varða.
5. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með reglulegum fundum félagsmanna, ályktunum og
samþykktum. Með námskeiðahaldi fyrir félagsmenn og starfsmenn þeirra, sem
félagið stendur sjálft fyrir eða í samstarfi við aðra. Með útgáfu fréttabréfs og annarra upplýsingarita – og er birting á heimasíðu félagsins eða sending með tölvupósti jafngild prentaðri útgáfu. Ennfremur með samantekt fræðslugagna sem varða störf félagsmanna, í samstarfi við hliðstæð félög innlend og erlend og með öðrum þeim hætti sem forsvarsmenn félagsins telja henta og við eiga hverju sinni.
Félagsmenn
6. gr.
Félagsmenn geta þeir verið sem hafa réttindi sem viðurkenndir bókarar samkvæmt ákvæðum 43. gr. laga nr. 145/1994 og óska skriflega eftir aðild að félaginu við stjórn þess. Félagsaðild fellur niður ef viðurkenningin fellur niður samkvæmt ákvæðum laga um viðurkennda bókara, þeir segja sig skriflega úr félaginu, þeir uppfylla ekki endurmenntunarkröfur sbr. 21. gr. eða eru í skuld við félagið í eitt ár eða lengur. Félagsmanni er jafnframt ekki heimilt að ganga í félagið nema að gera upp gamla skuld. Skuld fyrnist á 4 árum.
Ef félagsmaður gerist að mati stjórnar fvb uppvís að alvarlegu broti í starfi gagnvart opinberum aðilum eða viðskiptavinum sínum getur stjórnin vikið honum úr félaginu að undangenginni umfjöllun laga-, samskipta- og aganefndar, sbr. 9. grein í samskipta- og agareglum félagsins.
7. gr.
Samskipta- og agareglur fvb eru sjálfstæður hluti laga félagsins.
8. gr.
Hafi félagsmaður unnið mikilvæg störf í þágu félagsins eða stéttarinnar í heild getur aðalfundur kjörið þann hinn sama heiðursfélaga, enda beri stjórn félagsins fram tillögu þar að lútandi.
9. gr.
Félagsmönnum ber að upplýsa stjórn félagsins um breytingar sem verða á lögheimili þeirra og heimilisfangi starfsstöðvar, sem og netfangi. Skal stjórnin halda nákvæma félagaskrá. Við hverja útstrikun úr skránni skal geta dagsins þegar hún er gerð. Sending fundarboða og annarra tilkynninga er gild ef þær eru sendar á heimilisfang eða netfang þeirrar starfsstöðvar sem hann hefur tilkynnt.
10. gr.
Um réttindi og skyldur félagsmanna fer eftir ákvæðum þessara laga.
Stjórn og nefndir
11. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og tveimur félagsmönnum til vara.
Formaður skal kosinn til eins árs í senn. Óheimilt er að kjósa sama formann oftar en
þrisvar í röð.
Varaformaður skal kosinn til eins árs í senn og þrír meðstjórnendur eru kosnir til tveggja ára.
Ef fleiri en tveir fá atkvæði í formannskjöri en enginn þeirra helming greiddra atkvæða skal kosið að nýju milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu í fyrri kosningu.
Varamenn skulu kosnir til tveggja ára, einn á hverju ári.
Stjórnin skiptir með sér verkum; ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.
Laga-, samskipta- og aganefnd er skipuð þremur félagsmönnum. Nefndarmaður skal sitja í a.m.k. tvö ár. Kosið er um einn annað árið og tvo hitt. Varamenn eru tveir og skulu þeir kosnir til eins árs ísenn. Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara til eins árs í senn.
Skemmtinefnd fvb er skipuð þremur félagsmönnum, sem kosnir eru til eins árs í senn.
Sérstök nefnd, fræðsluefnd, skal hafa umsjón með endurmenntun félagsins, m.a. námskeiðum og ráðstefnum fyrir félagsmenn samkvæmt verklagsreglum sem stjórnin setur. Skal einn stjórnarmaður vera tengiliður stjórnar og fræðslunefndar.
Fimm nefndarmenn skulu vera í fræðslunefndinni, þar af einn formaður. Nefndarmaður skal sitja í a.m.k. tvö ár. Kosið er um tvo annað árið og þrjá hitt.
Tveir varamenn eru í fræðslunefnd og er einn kosinn á ári, til tveggja ára.
Félagar í fræðslunefnd félagsins þurfa ekki að greiða þátttökugjöld á námskeiðum.
Skrifstofustjóri er á launum hjá félaginu og sér um daglegan rekstur félagsins ásamt þeim störfum sem stjórn ákveður hverju sinni, samkvæmt verklagsreglum. Stjórn tekur ákvörðun varðandi starfshlutfall og laun skrifstofustjóra.
Stjórnar- og nefndarmenn fá greitt fyrir fundasetu, varamenn stjórnar og nefnda fá ekki greitt nema þeir séu kallaðir inn til starfa.
Greiðsla fyrir fundasetu stjórnar- og nefndarmanna séu ákvörðuð með hliðsjón af meðallaunum viðurkenndra bókara.
Að hámarki er greitt fyrir starfsárið:
20 tímar hjá hverjum stjórnarmanni
28 tímar hjá hverjum fræðslunefndarmanni
8 tímar hjá hverjum laganefndarmanni
4 tímar hjá hverjum skemmtinefndarmanni
3 tími hjá skoðunarmanni
Formenn allra nefnda senda inn skýrslu vegna fundasetu nefndarmanna á hverju sex mánaða tímabili og eru laun/verktakalaun greidd samkvæmt því.
Formaður stjórnar fær frítt á námskeið félagsins.
12. gr.
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin skal í hvívetna gæta hagsmuna félagsins í störfum sínum.
Stjórnin skal setja verklagsreglur fyrir stjórn og nefndir.
Stjórnin skal hafa heimild til að skipa nefndir til lengri eða skemmri tíma.
Fundir og fundaseta
13. gr.
Formaður boðar stjórnarfundi. Ef einn eða fleiri meðstjórnenda óska eftir fundi skal formaður verða við því.
14. gr.
Til félagsfunda skal stjórnin boða með bréfi eða tölvupósti til félagsmanna með minnst sjö daga fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála er fjallað skal um á fundinum.
20% félagsmanna að lágmarki hafa rétt til að krefjast félagsfundar.
Skal það gert skriflega og greina frá fundarefni. Stjórninni er skylt að boða til fundarins með venjulegum hætti og skal hann haldinn innan 21 dags frá því að henni barst krafa þar um. Geta skal fundarefnis í fundarboði.
15. gr.
Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í mars ár hvert. Skal boðað til hans bréflega eða með tölvupósti með minnst 2 vikna fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Atkvæðisrétt hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald yfirstandandi árs og eru skuldlausir við félagið.
Aðalfundi stýrir fundarstjóri sem kosinn er til þess af fundarmönnum og tilnefnir hann
fundarritara. Hann kannar lögmæti fundarins í fundarbyrjun, hvort löglega hafi
verið til fundarins boðað og lýsir því síðan hvort svo sé.
Fundarstjóri skal stjórna fundinum samkvæmt lögum félagsins og almennum reglum um
fundarsköp.
Dagskrá aðalfundarins skal vera þannig:
1. Kosning fundarstjóra.
2. Tilnefning fundarritara og tveggja atkvæðateljara.
3. Skýrsla formanns og stjórnar, umræður um skýrsluna og hún borin upp til samþykktar.
4. Gjaldkeri leggur fram og skýrir ársreikning félagsins, umræður um ársreikninginn og hann borinn upp til samþykktar.
5. Skýrslur nefnda og umræður um þær.
6. Lagabreytingar.
7. Kosning formanns og varaformanns.
8. Kosning meðstjórnenda.
9. Kosning varamanna í stjórn.
10. Kosning skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
11. Kosning nefnda.
a. Fræðslunefnd og varamenn.
b. Laga-, samskipta- og aganefnd (LSA) og varamenn.
c. Skemmtinefnd.
12. Lögð fram fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
13. Tillaga stjórnar um félagsgjald og inntökugjald næsta reikningsárs.
14. Önnur mál.
Atkvæðagreiðslur fara fram eftir því sem fundarstjóri kveður nánar á um. Þó skal skrifleg
atkvæðagreiðsla fara fram ef einhver fundarmanna krefst þess.
16. gr.
Á fundum félagsins ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála nema öðruvísi sé ákveðið í
lögum þessum.
17. gr.
Haldin skal gerðabók þar sem í skal rita stutta skýrslu um það sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess er farið hefur fram á fundinum.
Í gerðabók skal einnig skrá skýrslu um stjórnarfundi með sama hætti og undirrita hana allir viðstaddir stjórnarmenn. Gerðabók getur einnig verið í tölvutæku formi og er staðfesting á fundargerð síðasta fundar getið í upphafi næsta fundar. Fundargerð aðalfundar staðfestist með tilkynningu til félagsmanna eftir að hún hefur verið birt og athugasemdir bókaðar.
Fjármál
18. gr.
Félag viðurkenndra bókara er ekki rekið í hagnaðarskyni, heldur skal nota allar eignir og
tekjur þess til að vinna að markmiði þess. Fjárhagur félagsins er óháður fjárhag einstakra
félagsmanna. Enginn félagsmaður á hlutdeild í eignum félagsins, né er nokkur þeirra
ábyrgur fyrir greiðslu skuldbindinga þess. Ef til skattlagningar kemur er félagið sjálfstæður skattaðili.
19. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
Á aðalfundi skal stjórn leggja fyrir fjárhagsáætlun næsta starfsárs til kynningar.
20. gr.
Aðalfundur ákveður félagsgjald og inntökugjald fyrir hvert ár fyrirfram.
Stjórn félagsins er heimilt að fella niður félagsgjald ef sérstakar ástæður eru fyrir
hendi. Sé félagsmaður í skuld við félagið í 2 ár eða lengur er stjórninni heimilt að fella
hann af félagaskrá, sbr. 6. gr.
Gjalddagi félagsgjalda er 1. september og 1. apríl ár hvert og eindagi 30 dögum
síðar. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga ef ekki er greitt fyrir eindaga. Á þetta einnig
við ef um aðrar skuldir félagsmanna er að ræða. Félagsréttindi öðlast félagsmaður á
ný, er hann hefur greitt skuld sína við félagið og greiðir hann inntökugjald við
skráningu á ný. Nýir félagsmenn greiða félagsgjöld frá þeim tíma sem þeir
ganga í félagið.
Hafi félagmaður hætt störfum sökum aldurs, kjarasamningsbundinni eftirlaunaréttinda eða veikinda getur hann eftir sem áður
haldið félagsaðild sinni án þess að greiða félagsgjald og þarf ekki að sinna
endurmenntunarkröfum félagsins sbr. 21. grein. Félagsmaður framvísi gögnum þessu til staðfestingar.
Félagsmaður sem fer úr félaginu, hvort heldur er vegna úrsagnar eða af öðrum ástæðum, á
hvorki endurkröfurétt til greiddra félagsgjalda né inntökugjalda.
Hafi vinnuveitandi félagsmanns samþykkt að greiða félagsgjöld og/eða námskeiðsgjöld
hans er félagsmaður eftir sem áður ábyrgur fyrir greiðslu á þeim.
Óski félagsmaður eftir inngöngu í félagið á ný, greiðir hann inntökugjald á ný.
Endurmenntun félagsmanna
21. gr.
Félagsmaður skal á hverju þriggja ára tímabili sækja endurmenntun sem félagið viðurkennir,
sem svarar til 45 eininga, sbr. 2. mgr. Heimilt er að víkja frá þessu ef sérstaklega
stendur á, t.d. vegna veikinda.
Einingar skulu reiknaðar sem hér segir:
Fundir og námskeið á vegum fvb eða önnur námskeið sem félagið viðurkennir
Hálfsdags námskeið eða ráðstefna: 7,5 einingar
Heilsdags námskeið eða ráðstefna: 15,0 einingar
Önnur fagnámskeið og fræðslufundir: 1,5 eining pr. klst.
22. gr.
Félagsmaður skal skrá þátttöku sína í námskeiðum eða fyrirlestrum sem haldnir eru utan
félagsins á þar gerðu eyðublaði og ber að skila því ásamt staðfestingu á þátttöku til fvb fyrir 31. janúar ár hvert.
Félagið heldur skrá yfir einingafjölda hvers félagsmanns og tilkynnir viðkomandi
félagsmanni ef hann uppfyllir ekki ákvæði 21. gr. um endurmenntun. Félagið sjálft ber
ekki kostnað vegna endurmenntunar félagsmanna.
Breytingar á lögum
23. gr.
Tillagna um breytingar á lögum félagsins eða um félagaslit skal ítarlega getið í fundarboði
og skulu þær bornar fram á aðalfundi. Öðlast þær tillögur aðeins gildi ef 2/3 hlutar
greiddra atkvæða eru með þeim.