Search
Close this search box.

Nefndarálit með breytingartillögu frumvarð til laga um breytingu á ýmsum lögum v/flutnings verkefna

Nefndarálit með breytingartillögu

um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra embætta og stofnana.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Ragnhildi Hjaltadóttur, Hermann Sæmundsson og Skúla Guðmundsson frá innanríkisráðuneytinu, Ástríði Jóhannesdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Þuríði Árnadóttur og Eyrúnu Guðmundsdóttur frá sýslumanninum í Reykjavík, Þórólf Halldórsson frá Sýslumannafélagi Íslands og Reimar Pétursson frá Lögmannafélagi Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Lögmannafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, sýslumanninum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands og Þjóðskrá Íslands.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra undirstofnana ráðuneytisins. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að markmið með flutningi verkefna sé að auka samlegð og hraða í málsmeðferð með því að fela stofnunum, sem ýmist hafa þekkingu á viðkomandi verkefnum eða sinna sambærilegum verkefnum, afgreiðslu þeirra. Eftir sem áður mun innanríkisráðuneytið fara með yfirstjórn þeirra málaflokka sem frumvarpið nær til auk þess að með þeirri breytingu að fela undirstofnunum ráðuneytisins ákveðin verkefni verða upphaflegar stjórnvaldsákvarðanir vegna þeirra teknar af lægra settu stjórnvaldi og því kæranlegar til ráðuneytisins í samræmi við meginreglu 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í því felst aukin réttarvernd borgaranna þar sem eðlilegt er og í samræmi við áherslur í stjórnsýslurétti að almennt beri borgurunum réttur til að fá stjórnvaldsákvarðanir endurskoðaðar af æðra stjórnvaldi.

Breytingar á lögum um lögmenn.

Í VI. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um lögmenn, nr. 77/1998. Þar er lagt til að ákveðin verkefni verði færð frá innanríkisráðuneytinu til sýslumanna. Í 20. gr. frumvarpsins er heimildarákvæði fyrir ráðherra að ákveða að verkefni sýslumanna samkvæmt lögunum verði falið einu sýslumannsembætti til einföldunar.
Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir þess efnis að það væri ekki til þess fallið að auka réttaröryggi borgaranna að fela sýslumönnum að annast útgáfu og niðurfellingu lögmannsréttinda. Þá geti það verið varasamt fyrir réttaröryggi borgaranna að lögmaður geti haldið réttindum sínum virkum þrátt fyrir ákvörðun sýslumanns um niðurfellingu þeirra, á meðan mál er í kæruferli hjá ráðuneytinu.
Nefndin ræddi þetta nokkuð. Það er álit hennar að það auki réttaröryggi borgaranna, jafnt almennings sem lögmanna, að úr málum á grundvelli laga um lögmenn verði leyst á tveimur stjórnsýslustigum eins og meginregla stjórnsýsluréttar kveður á um. Þegar sýslumaður hefur tekið ákvörðun um niðurfellingu lögmannsréttinda er um bindandi ákvörðun að ræða fyrir þann sem ákvörðuninni er beint að, sem og það stjórnvald sem tók ákvörðunina, þegar ákvörðunin hefur verið birt aðila máls. Réttaráhrif ákvörðunarinnar koma því fram strax og hún hefur verið birt aðila máls og kæra til æðra stjórnvalds, innanríkisráðuneytisins í þessu tilfelli, frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Nefndin telur að rétt sé að ákvarðanir í málaflokknum séu teknar af sýslumanni og að kæruheimild verði til ráðuneytisins.

Breyting á barnalögum.

Í 11. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á barnalögum, nr. 76/2003, þess efnis að úrskurðir sýslumanna vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. laganna verði endanlegir innan stjórnsýslunnar og ekki kæranlegir til ráðherra. Undir ákvæðið falla t.d. útgjöld vegna skírnar barns, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. Fyrir nefndinni kom fram að í innanríkisráðuneytinu hafi nýverið verið kveðnir upp úrskurðir sem hafi breytt eldri réttarframkvæmd nokkuð þannig að nú er meira tillit tekið til fjárhags aðila en áður hefur verið gert. Þá getur einnig verið um töluverða fjármuni að ræða en kostnaður við tannréttingar barna getur hæglega hlaupið á hundruðum þúsunda króna. Nefndin telur því, með tilliti til þess að um töluverða fjárhagslega hagsmuni getur verið að ræða, rétt að ákvarðanir sýslumanna skv. 60. gr. barnalaga verði kæranlegir til ráðuneytisins og leggur til breytingartillögu því til samræmis.

Aðrar breytingar.

Lögð er til sú breyting að ákvæði um miðlæga málaskrá öðlist gildi 1. júní 2014 í stað 1. apríl. Samkvæmt ákvæðinu verður Þjóðskrá Íslands falið að halda eina miðlæga málaskrá og verður skrá yfir lögræðissvipta einstaklinga, um lögráðamenn og ráðsmenn hluti af þeirri málaskrá. Af hálfu Þjóðskrár kom fram ósk um lengri undirbúningstíma þar til ákvæðið tekur gildi og fellst nefndin á það.
Þá leggur nefndin til breytingu á 3. gr. frumvarpsins lagatæknilegs eðlis.
Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

1. Í stað „1. mgr.“ í inngangsmálslið 3. gr. komi: 2. mgr. 
2. III. kafli falli brott. 
3. Síðari málsliður 27. gr. orðist svo: Þó öðlast 2.–4. mgr. 24. gr. gildi 1. júní 2014.

Alþingi, 9. desember 2013.

Unnur Brá Konráðsdóttir,

form., frsm.

Páll Valur Björnsson.

Höskuldur Þórhallsson.

Elsa Lára Arnardóttir.

Katrín Júlíusdóttir.

Helgi Hrafn Gunnarsson.

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur