144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 930 — 11. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.
Frá atvinnuveganefnd.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson, Margréti Sæmundsdóttur og Þórð Reynisson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Margréti Hjálmarsdóttur frá Einkaleyfastofunni, Eirík Svavarsson frá Lögmannafélagi Íslands, Ingvar Rögnvaldsson og Jón Ásgeir Tryggvason frá embætti ríkisskattstjóra, Reinhard Reynisson frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Þórð Hilmarsson frá Íslandsstofu, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Sigurð B. Halldórsson frá Samtökum iðnaðarins. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Byggðastofnun, efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, Einkaleyfastofunni, IÁ-hönnun ehf., Íslandsstofu, Lögmannafélagi Íslands, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Seðlabanka Íslands.
Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði að nýju heildarlög um ívilnanir sem stjórnvöldum og sveitarfélögum verði heimilt að veita vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Markmiðið er að örva og efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri. Frumvarpið byggist á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 99/2010, sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Ef sérstök lög eru í gildi um veitingu slíkra ívilnana verður ferlið skilvirkara og þarf þá ekki að setja sérlög um hvert fjárfestingarverkefni ásamt því að leita eftir samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA í hvert sinn.
Helstu atriði frumvarpsins eru þau að í 5. gr. eru sett skilyrði fyrir ívilnunum. Til dæmis ber að stofna sérstakt félag um verkefnið hér á landi auk þess sem a.m.k. 75% af fjárfestingarkostnaði skal fjármagna án ríkisaðstoðar og þar af minnst 20% af eigin fé umsækjanda. Jafnframt er skilyrði um árlega veltu upp á a.m.k. 300 millj. kr. eða að nýfjárfestingin skapi að lágmarki 20 ársverk hjá umsækjanda við reksturinn fyrstu tvö árin. Einnig má sem dæmi nefna að umsækjanda ber að sýna fram á að fjárfestingin verði ekki arðbær án ívilnana.
Heimildir stjórnvalda til að veita ívilnun byggjast á 61.–64. gr. EES-samningsins en slíkar heimildir eru, hvað varðar aðstoðarhlutföll og byggðakort, útfærðar frekar af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ívilnanir geti numið allt að 15% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði. Fyrir meðalstór fyrirtæki er hámark ívilnunar 25% af fjárfestingarkostnaði en fyrir lítil fyrirtæki er hámarkið 35%. Í 3. gr. frumvarpsins er skilgreint hvað teljist vera lítil, meðalstór og stór fyrirtæki. Í 8. gr. er getið um helstu frávik frá lagaákvæðum um skatta og gjöld. Viðkomandi lögaðili mun njóta 15% tekjuskattshlutfalls í stað 20%, lægri fasteignaskatts og lægra tryggingagjalds auk undanþágu frá tollum og vörugjöldum vegna innflutnings og kaupa á tilteknum aðföngum. Skv. 11. gr. verður skipuð sérstök nefnd sem fer yfir og leggur mat á umsóknir og kallar eftir gögnum.
Við umfjöllun um málið í nefndinni var gerð athugasemd þess efnis að ekki væri að finna í frumvarpinu ákvæði um almennar undanþágur líkt og voru í IV. kafla laga nr. 99/2010. Fram kom hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að fyrirhugað væri að lögfesta hér á landi reglur um frekari fjárfestingaraðstoð við nýfjárfestingarverkefni á grundvelli reglugerðar ESB um almennar hópundanþágur (e. General Block Exemption Regulation) sem tók gildi 1. júlí 2014. Þar er kveðið á um ívilnanir sem er unnt að hrinda í framkvæmd án þess að skylt verði að leita samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA og án tillits til staðsetningar. Í reglugerðinni eru tilgreindir flokkar aðstoðar, hámarksaðstoðarhlutföll og kveðið á um gagnsæi í veitingu aðstoðar. Sem dæmi um flokka má nefna byggðaaðstoð, rannsóknar- og þróunaraðstoð, aðstoð vegna orku- og umhverfisverndar, aðstoð vegna lagningar háhraðanets, menningar og varðveislu menningararfleifðar, orkugrunnvirkja, hljóð- og myndmiðlaverka og aðstoð til að bæta tjón vegna tiltekinna náttúruhamfara.
Samkvæmt a-lið 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um að fjárhæð ívilnunar skuli ekki vera umfram það sem nauðsynlegt geti talist til að verkefnið verði nægjanlega ábatasamt. Fram kom athugasemd um að ekki væri að fullu ljóst hvort verkefni væri nægjanlega ábatasamt. Ljóst er að erfitt getur verið að meta það en fram kom hjá ráðuneytinu að fylgja bæri leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem skýrt er kveðið á um að forsenda ríkisaðstoðar sé að þeir sem standa að fjárfestingunni geti sýnt fram á hvatningaráhrif ívilnunar. Meðal annars er horft til sambærilegra fjárfestingarverkefna og atriða eins og kröfu lánastofnunar um skuldaþekju, kostnað við fjármögnun verkefnisins og arðsemi eigin fjár. Byggðaaðstoð verður að vera í samræmi við EES-samninginn og er lagt upp með að ívilnun breyti hegðun fjárfesta og hafi hvetjandi áhrif til frekari fjárfestinga á viðkomandi svæði. Ef fjárfesting yrði að veruleika án ívilnunar væri talið að um væri að ræða ríkisaðstoð sem ekki væri samrýmanleg EES-samningnum.
Við umfjöllun um málið var rætt um hvernig haldið yrði utan um ívilnanir og hvernig yrði fylgst með því hverju ívilnun skilar. Í 16. gr. frumvarpsins er fjallað um eftirlit með ívilnunum en þar er mælt fyrir um að sá sem nýtur ívilnunar sendi ráðuneytinu árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnis, hlut ívilnunar í framgangi þess o.fl. Einnig skulu sveitarfélög senda ráðuneytinu skýrslu á hverju ári um heildarfjárhæð veittrar ríkisaðstoðar fyrir hvert verkefni. Jafnframt er kveðið á um að ráðuneytið og sveitarfélög hafi gagnkvæma upplýsingaskyldu hvað það varðar að upplýsa um atvik sem geta haft áhrif á gildi samninga sem hafa verið gerðir. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að skyldur stjórnvalda og heimildir vegna eftirlits með notkun ívilnana aukist töluvert frá því sem var samkvæmt lögum nr. 99/2010. Enn fremur er í f-lið 14. gr. kveðið á um að í fjárfestingarsamningi milli umsækjanda og ráðherra skuli kveðið á um eftirlit og endurgreiðslu ívilnunar ef skilyrði samnings eru ekki uppfyllt. Fram kom við umfjöllun um málið að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti haldi utan um fjárhæðir ívilnana með þeim hætti að reikna út þá ríkisaðstoð sem stjórnvöld hyggjast veita fjárfestingarverkefni. Þá verði reiknuð út áætluð ívilnun fyrir hvert ár sundurliðað eftir tegund ívilnunar. Stjórnvöldum ber að fylgjast með því hvernig ívilnanir eru nýttar af félaginu með því að kalla eftir upplýsingum frá því um skatt- og gjaldgreiðslur á ársgrundvelli. Einnig kom fram að stjórnvöld stöðvi frekari ívilnanir til verkefnis ef félag hefur nýtt ríkisaðstoð að fullu innan þess tíma sem getið er í fjárfestingarsamningi. Ef veitt hefur verið ívilnun umfram það sem kemur fram í viðkomandi samningi þá krefja stjórnvöld félagið um endurgreiðslu á mismuninum, sbr. 17. gr. frumvarpsins um afturköllun og/eða endurgreiðslu ívilnunar.
Nefndinni bárust athugasemdir vegna laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/ 1966, þess efnis að ástæða væri til að afnema ákvæði um hámark leigutíma lands og eigna. Nefndin telur eðlilegra að slík ákvæði séu í þeirri löggjöf sem er til endurskoðunar í innanríkisráðuneytinu.
Nefndin bendir á að ekki eru með frumvarpinu lagðar til breytingar frá brottföllnum lögum um ívilnanir, nr. 99/2010, hvað varðar undanþágur frá sköttum og gjöldum. Hin skattalegu frávik eru skýrt afmörkuð og skilyrði ívilnunar eru skýr. Til þessa hefur hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar, sbr. 7. gr., verið metið í ráðuneytinu en vegna EES-samningsins þarf slíkt mat að fara fram þegar ríkisstyrkir eru veittir í formi byggðaaðstoðar. Ráðuneytið hefur leitað til Eftirlitsstofnunar EFTA við framkvæmd matsins og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð nánari reglur um mat á hámarki leyfilegrar byggðaaðstoðar. Fram kom athugasemd við meðferð málsins þess efnis að fyrningarreglur væru rýmri í frumvarpinu en þær sem skattalög almennt mæla fyrir um. Ákvæðið svarar til ákvæðis í eldri lögum, nr. 99/2010, og er slíkt ákvæði í eldri fjárfestingarsamningum. Bent var á af hálfu ráðuneytisins að ekki hefði borið á því að þetta ákvæði eldri laga hefði valdið vanda í framkvæmd. Hvað varðar afslátt af tryggingagjaldi kom fram við umfjöllun um málið að slík ívilnun sé mikilvæg enda komi hún til framkvæmda við upphaf rekstrar. Launakostnaður er oft hátt hlutfall af heildarrekstrarkostnaði ekki síst hjá minni og meðalstórum fyrirtækjum. Að mati ráðuneytisins hefur sambærilegt ákvæði eldri laga ekki valdið vanda í framkvæmd.
Við umfjöllun um málið kom fram það sjónarmið að telja mætti 20% eigið fé of lágt og því væri lítið borð fyrir báru til að mæta óvæntum áföllum. Nefndin bendir á að 20% hlutfallið er hið sama og gilti samkvæmt eldri lögum og er auk þess í samræmi við reglur Evrópusambandsins um veitingu byggðaaðstoðar. Ef hlutfallið væri hærra er hætt við skekktri samkeppnisstöðu landsins.
Í c-lið 5. gr. er það sett sem eitt af skilyrðum fyrir veitingu ívilnunar að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki hafið áður en samningur um ívilnun er undirritaður. Fram kom athugasemd þess efnis að óljóst gæti verið hvenær fjárfestingarverkefni sé hafið. Upplýst var fyrir nefndinni af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að ráðuneytið muni setja reglugerð á grundvelli laganna þar sem m.a. þetta atriði yrði skýrt nánar. Um þetta er mælt fyrir í leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA sem ráðuneytið styðst við og er upphaf verkefnis miðað við það þegar framkvæmdir við mannvirkjagerð hefjast eða fyrirvaralausar skuldbindingar um pöntun á búnaði eru gerðar eða teknar eru aðrar óafturkræfar ákvarðanir um fjárfestinguna. Í þessu sambandi telst það almennt ekki upphaf fjárfestingarverkefnis að keypt hafi verið lóð eða að annars konar undirbúningsvinna hafi farið fram vegna verkefnisins svo sem að sækja um leyfi eða framkvæma áreiðanleikakönnun.
Í k-lið 5. gr. er umhverfismat tilgreint sem eitt skilyrða ívilnunar og er þar vísað til laga um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Bent var á við umfjöllun um málið að skilyrðið gæti orðið flöskuháls og leitt til óþarfa tafa. Nefndin bendir á að í ákvæðinu er fyrir mistök vísað til laga nr. 105/2006. Nefndin leggur til leiðrétta lagatilvísun þannig að vísað verði til laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Jafnframt leggur nefndin til þá breytingu að umsækjandi geri grein fyrir því hvort framkvæma þurfi mat á umhverfisáhrifum, þ.e. að upplýsingar um það liggi fyrir. Hins vegar þurfi mat á umhverfisáhrifum ekki að hafa farið fram.
Í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins kemur fram að frávik frá almennum reglum um skatta og gjöld gildi í 10 ár frá því að félag sem nýtur ívilnunar hefur greiðslu gjalds eða skatts en þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings. Bent var á að í eldri lögum, nr. 99/2010, hefði upphafstímamarkið verið miðað við það þegar skatt- eða gjaldskylda myndaðist. Nefndin leggur til breytingu í þessu veru, þ.e. að upphafstímamark miðist við það þegar greiðsluskylda vegna skatta og gjalda myndast eða hefði myndast.
Þá leggur nefndin til þá breytingu á 9. gr. að við bætist málsliður sem veiti heimild til þess að byggðaaðstoð geti verið í formi sérstakrar lækkunar gatnagerðargjalds samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. K-liður 5. gr. orðist svo: að fyrir liggi upplýsingar um hvort fjárfestingarverkefnið sé háð umhverfismati samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.
2. Í stað orðanna „félag sem nýtur ívilnunar hefur greiðslu“ í 3. mgr. 8. gr. komi: greiðsluskylda myndast eða hefði myndast vegna.
3. Við 1. mgr. 9. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig getur byggðaaðstoð verið í formi sérstakrar lækkunar gatnagerðargjalds samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
Björt Ólafsdóttir skrifar undir nefndarálit þetta með fyrirvara þar sem nánast ekkert er vikið að svokölluðum almennum ívilnunum í frumvarpinu og telur hún afar brýnt að hraðað verði undirbúningi að innleiðingu slíkra reglna hér á landi. Þetta er nauðsynlegt fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki sem falla ekki undir ívilnanir samkvæmt þessu frumvarpi.
Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með fyrirvara með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna um fastanefndir Alþingis.
Ásmundur Friðriksson og Páll Jóhann Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
Alþingi, 29. janúar 2015.
Jón Gunnarsson, form. |
Lilja Rafney Magnúsdóttir, frsm., með fyrirvara. | Sigurður Örn Ágústsson. |
Björt Ólafsdóttir, með fyrirvara. |
Kristján L. Möller. | Þórunn Egilsdóttir. |
Þorsteinn Sæmundsson. |