Starfshópur sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í febrúar sl. og vinnur að endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis óskar eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og annarra vegna áformanna. Endurskoðunin lýtur í meginatriðum að því að rannsaka núverandi fyrirkomulag og framkvæmd skattlagningar ökutækja og eldsneytis, leggja til breytingar á gildandi lögum og gera tillögu að framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum efnum. sjá skýrslu
Starfshópurinn skilar til ráðherra tillögum að breytingum á núverandi kerfi og framkvæmd skattlagningar ökutækja og eldsneytis og leggur til framtíðarsýn stjórnvalda hvað skattlagninguna snertir. Í framhaldinu vinnur starfshópurinn drög að lagafrumvarpi sem vænst er að verði lagt fyrir Alþingi næsta haust.
Starfshópurinn er skipaður fimm fulltrúum, þar af tveimur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, einum fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, einum frá innanríkisráðuneyti og einum frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Starfshópnum er falið að hafa eftirfarandi að leiðarljósi í vinnu sinni:
- Einfalt og réttlátt skattkerfi
- Samræmi og skilvirkni skattkerfisins
- Orkusparnað og aukna notkun innlendra orkugjafa
- Að dragai úr losun gróðurhúsalofttegunda og skaðlegra efna í útblæstri ökutækja
- Mótun framtíðarsýnar um hlutdeild vistvænna ökutækja í skatttekjum ríkisins
- Að draga úr skattlagningu við öflun og eign á ökutækjum
- Að tryggja ríkissjóði nægar skatttekjur m.a. til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja
- Að tryggja að fyrirkomulag skattlagningarinnar samræmist ákvæðum nýrra laga um opinber fjármál
Til þessa hefur starfshópurinn unnið að afmörkun verkefnisins og nauðsynlegri gagnaöflun. Að mati hópsins er eðlilegt að vinnan taki við af vinnu starfshóps sem þáverandi fjármálaráðherra skipaði vorið 2007 og skilaði árið 2008 skýrslunni „ Heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis “. Starfshópnum er jafnframt ætlað að hafa samráð við hagsmunaaðila í starfi sínu. Því er óskað eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og annarra sem áhuga hafa á endurskoðun skattlagningarinnar. Er þess farið á leit að erindi verði send ráðuneytinu skriflega, eða með tölvupósti á [email protected], í síðasta lagi mánudaginn 4. apríl 2016. “
(Af vef fjmrn)
UMRÆDD SKÝRSLA