“Rafræn fyrirtækjaskrá RSK14.11.2017
Ríkisskattstjóri hefur undanfarið unnið að gerð rafrænnar fyrirtækjaskrár fyrir nýskráningu félaga og breytingar á skráningu þeirra.
Mun þessi rafræna skráning fara fram á þjónustuvef ríkisskattstjóra, www.skattur.is. Búið er að opna fyrsta áfanga rafrænnar fyrirtækjaskrár, þ.e. að stofna og gera breytingar á skráningu einkahlutafélaga, en endanleg útgáfa skránnar er enn í vinnslu.
Með rafrænni fyrirtækjaskrá er öll skráning upplýsinga við stofnun einkahlutafélags rafræn og fer undirritun gagna eingöngu fram með rafrænum skilríkjum. Þegar búið er að skrá inn þær upplýsingar sem krafist er við stofnun félags verða stofnskjölin sjálfkrafa til í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Ekki er því lengur nauðsynlegt fyrir viðskiptavini RSK að útbúa stofngögnin sjálfir, en hægt er að hlaða upp eigin gerð stofnskjala ef ástæða er til. Þegar stofnskjölin hafa verið samþykkt er sendur tölvupóstur til allra þeirra sem þurfa að undirrita skjölin rafrænt. Samhliða er stofnuð krafa fyrir skráningargjaldinu í heimabanka skráningaraðila. Þegar allir hlutaðeigandi hafa rafrænt undirritað nauðsynleg gögn og skráningargjaldið hefur verið greitt tekur ríkisskattstjóri við skráningu félagsins og afgreiðir hana. Mun þetta fyrirkomulag stytta afgreiðslutíma nýskráninga verulega en áætlað er að skráning einkahlutafélaga muni taka tvo virka daga í stað tíu áður.
Til að skrá einkahlutafélag rafrænt, og gera breytingar á skráningu, þarf að fara inn á þjónustusíðuna www.skattur.is undir:
Almennt > Fyrirtækjaskrá > Nýskráning”
Á vef rsk.is má sjá stutt kynningarmyndband um rafræna fyrirtækjaskrá
Allar nánari upplýsingar um rafræna fyrirtækjaskrá veitir Ástríður Þórey Jónsdóttir í síma 442 1000