Ákæruvaldið gegn Gylfa Þór Guðbjörnssyni
Mál þetta er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, útgefinni 12. desember 2014, á hendur Gylfa Þór Guðlaugssyni, kt. 000000-0000, Bjarnastaðavör 8 í Garðabæ.
Í ákæru er ákærði sóttur til saka fyrir fyrir „meiri háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins GS2012, kt. 000000-0000, með því að hafa: 1. Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar rekstrarárið 2012 og janúar-febrúar og maí-júní rekstrarárið 2013 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2011, janúar-febrúar, mars-apríl og júlí-ágúst rekstrarárið 2012 og janúar-febrúar og maí-júní rekstrarárið 2013, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 9.384.532 […] 2. Eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna maí, júní, júlí, ágúst, september og október rekstrarárið 2012 og janúar, febrúar, mars, maí, júní, júlí og ágúst rekstrarárið 2013, samtals að fjárhæð kr. 8.733.735 […] “
er í ákæru talin varða við 1. mgr. 262. gr. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 að því er varðar 1. tölulið ákæru og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að því er varðar 2. lið hennar.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Með úrskurði 15. apríl 2015 var kröfu ákærða um frávísun málsins hafnað, en hún var að meginstefnu til byggð að sömu röksemdum og hann teflir fram fyrir sýknukröfu sinni og varakröfu samkvæmt framansögðu. Í úrskurðinum kom fram að ákærandi hefði metið það svo að fullnægjandi rannsókn á málinu hefði farið fram, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og á grundvelli hennar gefið út ákæru, sbr. 145. gr. laganna. Við þá ákvörðun hafi borið að gæta jafnræðis svo sem ótvírætt leiddi af reglu 142. gr. sömu laga. Ákvörðun um saksókn væri hluti af meðferð ákæruvalds á valdheimildum sem því væru fengnar að lögum og gæti eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn máls.
I
Einkahlutafélagið GS2012 hét áður Stálsmiðjan Málmey, en nafni þess var samkvæmt gögnum sem send voru hlutafélagskrá breytt 28. október 2013. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 7. nóvember sama ár.
Ákæra í málinu styðst við lögreglurannsókn sem fram fór á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til sérstaks saksóknara 6. október 2014 og rannsóknargagna sem því fylgdu. Svo sem fram er komið beinist saksóknin að ákærða einum, en óumdeilt er að hann var stjórnarmaður í umræddu einkahlutafélagi á því tímabili sem ákæra tekur til og að auki skráður framkvæmdastjóri þess. Lúta varnir ákærða að því að hann hafi í reynd ekki gegnt starfi framkvæmdastjóra og því ekki borið ábyrgð á skilum á virðisaukaskattskýrslum, virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Hann hafi að sönnu verið í stjórn félagsins allt frá stofnun þess, fyrst sem meðstjórnandi og síðan sem aðalmaður frá júní 2006, en ekkert komið nærri skattskilum á umræddum tíma. Hann sé hugvitsmaður á sviði málmiðnar og hafi enga bókhalds- eða viðskiptaviðskiptafræðiþekkingu og enga slíka reynslu. Á því tímabili sem ákært er fyrir hafi hann gegnt starfi yfirmanns tæknisviðs hjá félaginu. Hann hafi aldrei komið að reikningsgerð eða haft með höndum greiðslu reikninga fyrir það og aldrei nýtt prókúru sína í því skyni. Í september 2011 hafi verið ráðinn til félagsins framkvæmdastjóri, B, sem búið hafi yfir þekkingu og reynslu af rekstri og stjórnun fyrirtækja. Hann hafi þaðan í frá sinnt því starfi með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Samhliða verktakasamningi um framkvæmdastjórn hafi B eignast 25% hlut í félaginu. Á hluthafafundi í því í ágúst 2012 hafi meðal annars verið samþykkt að breyta heiti félagsins, hækka hlutafé þess og ráða B í starf framkvæmdastjóra með prókúruumboð. Framlögð gögn í málinu staðfesti þetta, en tilkynning um þessar breytingar hafi aldrei verið send hlutafélagskrá. Til samræmis við þetta hafi B annast eða átt að annast daglegan rekstur félagsins, þar á meðal að sjá um fjármál þess og mannaráðningar.
Með vísan til þess sem að framan er rakið byggir ákærði á því að brotinn hafi verið á honum réttur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi sem tryggður sé með 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Á því er byggt að sú skylda til að hafa með höndum skattskil fyrir GS2012 ehf., sem samkvæmt ákæru taki eingöngu til ákærða, hafi í öllu falli einnig hvílt á B sem framkvæmdarstjóra félagins, sbr. 2. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hafi honum borið að hafa nægilegt eftirlit með bókhaldi félagsins og meðferð fjármuna þess. Réttindi og skyldur framkvæmdastjóra, þar á meðal ábyrgð á því að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna sé með tryggilegum hætti, sé ekki bundið við það að tilkynning um ráðninguna hafi verið send hlutafélagaskrá. Lög um einkahlutafélag leggi ekki þær skyldur á forsvarsmenn einkahlutafélaga að slík tilkynning sé skilyrði fyrir ráðningu framkvæmdastjóra. Dómafordæmi Hæstaréttar sýni glögglega að rétturinn hafi túlkað refsiákvæði laga nr. 50/1998 og 45/1987 þannig að í þeim tilvikum þegar fleiri en einn fyrirsvarsmaður lögaðila er sakfelldur fyrir sameiginleg brot skuli ákvæðunum um sektarlágmark beitt með þeim hætti að samanlögð sekt hinna ákærðu sé ekki undir hinu lögbundna lágmarki. Þessi túlkun hafi svo áhrif við ákvörðun vararefsingar komi til sakfellingar. Á því er byggt að dómstólar verði að gæta að því að sakborningur verði ekki látinn sæta þyngri refsingu en lög standa til. Samkvæmt framansögðu sé það síður en svo útilokað að annar maður hafi ásamt ákærða borið ábyrgð á þeim brotum sem ákært er fyrir. Andstætt því sem almennt gildi leiði samverknaður vegna þeirra brota sem ákæran lýtur að til refsilækkunar en ekki refsiþyngingar. Með þeirri ákvörðun ákæruvalds að sækja B ekki til saka fyrir þau brot sem lýst er í ákæru hafi verið brotið á rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Sé sækjandi með þessu í raun að taka sér dómsvald og ákveða refsingu ákærða. Slík framganga fari gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.
Kröfugerð sína í málinu byggir ákærði einnig á 65. gr. stjórnarskrárinnar, en samkvæmt því ákvæði eigi ákærði rétt á því þegar kemur að refsiákvörðun að vera ekki verr settur en þeir sem á undan honum hafa verið sakfelldir fyrir brot gegn sömu lagaákvæðum og um ræðir í þessu máli. Í ljósi reglunnar verði þá að leysa úr málinu með þeim hætti að láta ákærða njóta góðs af því við ákvörðun sektar ef ekki er talið útilokað að annar maður hafi borið ábyrgð við hlið hans á þeim brotum sem hann er ákærður fyrir.
Loks byggir ákærði ákærði á því að greiðslum vegna vangoldinna skatta hafi ekki verið ráðstafað á þann hátt sem hagfelldast hafi verið fyrir hann og að því er varðar skil á staðgreiðslu hafi laun hans sjálfs og B ekki komið til frádráttar við útreikning á vanskilum.
II
Á meðal gagna málsins er verktakasamningur sem Stálsmiðjan Málmey ehf. annars vegar og Dögun Capital ehf. og áðurnefndur B hins vegar gerðu sín í milli 30. september 2011. Í 1. gr. samningsins kemur fram að Dögun Capital sem verksali selji B „út sem tímabundinn stjórnanda til verkkaupa“, Stálsmiðjunnar Málmeyjar. Þar segir enn fremur að B muni gegna starfi framkvæmdastjóra í 50-70% starfi og að hann eigi að vinna að því að skipuleggja alla þætti reksturs verkkaupa á samningstímanum, sem samkvæmt 2. gr. var 6 til 12 mánuðir, en um verkefni hans var vísað til sérstaks fylgiskjals með samningnum. Þá var tekið fram í 4. gr. samningsins að B fengi aðgang að öllum upplýsingakerfum verkkaupa og einnig skoðunaraðgang að bankareikningum hans. Í sömu grein kom einnig fram að samhliða þessum samningi væri gerður samningur um kaup hlutafélags í eigu B á 25% hlut í Stálsmiðjunni Málmey ehf. Samkvæmt fylgiskjalinu var B nánar tiltekið ætlað að vinna að fjármögnun félagsins, húsnæðismálum, markaðsmálum og „mönnun fyrirtækisins“. Að auki er þar vikið að rekstri og undir þann lið felld framleiðsla, innkaup, upplýsingakerfi, þar á meðal fjárhags- og verkbókhald, starfsmannamál og verkferlar. Þá er þess að geta að samkvæmt fyrirliggjandi tilkynningu sem samkvæmt yfirskrift hennar er beint til hlutafélagskrár var meðal annars samþykkt á hlutahafafundi í Stálsmiðjunni Málmey ehf. 31. ágúst 2012 að ráða Bí starf framkvæmdastjóra félagsins og að hann fengi jafnframt prókúruumboð. Fyrir liggur, svo sem ákærði hefur haldið fram og áður er getið, að tilkynning þessi var ekki send hlutafélagaskrá og hefur B því aldrei verið skráður þar sem framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi. Þá verður ekki annað séð en að B hafi aldrei haft prókúruumboð fyrir félagið.
III
Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins áréttaði ákærði þá málsvörn sína að hann hafi enga aðkomu átt að fjármálastjórn einkahlutafélagsins GS2012 á þeim tíma sem ákæra tekur til, það er frá september 2011 til og með júní 2013. Það hafi verið í hans verkahring að teikna, hanna og selja en B hafi séð um allan rekstur félagsins, þar á meðal fjármálahliðina. B hafi í fyrstu gegnt starfi fjármálaráðgjafa hjá félaginu en síðan tekið við framkvæmdastjórastarfi með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja haustið 2011. Allt frá því að B tók við því starfi hafi ákærði einbeitt sér að hönnun og sölu á vörum félagsins og ekkert fylgst með því hvort skattskil þess væru í lagi. Hann hafi gengið út frá því að í þeim efnum væri allt eins og það ætti að vera. Annað hafi síðar komið í ljós. Þá kvaðst hann hafa staðið í þeirri trú að B hefði skilað framangreindri tilkynningu um ráðningu framkvæmdastjóra í ágúst 2012 til hlutafélagaskrár, en það hefði verið í hans verkahring að gera það.
Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði B svo frá að hann hafi um áramótin 2010/2011 verið fenginn til að aðstoða við fjárhagslega endurskipulagningu á rekstri Stálsmiðjunnar Málmeyjar ehf. Því verki hafi lokið haustið 2011 og hafi ákærði þá beðið hann um að starfa áfram hjá félaginu. Á það hafi hann fallist. Þeir hefðu þá gert með sér verksamning og kvaðst B þaðan í frá og allt þar til í október 2012 hafa séð um tiltekna þætti í rekstrinum sem tilgreindir voru á fylgiskjali. Í því hafi aðallega falist aðstoð við daglegan rekstur. Samkvæmt verksamningnum hafi hann haft tillögurétt, en ákvarðanir um allt sem máli skipti hafi þurft að bera undir ákærða til samþykktar. Vísaði B sérstaklega til þess hvað þetta varðar að samkvæmt samningnum hafi hann aðeins haft skoðunaraðgang að bankareikningum félagsins. Til samræmis við þetta hafi hann ekki haft heimild til að greiða reikninga og þannig hafi það verið allan þann tíma sem hann starfaði hjá félaginu. Hann hafi þó sett fram tillögur um það hvað skyldi greitt en greiðslan hafi verið í höndum annars starfsmanns, H, og þá að fengnu samþykki ákærða. Þá hafi D eiginkona ákærða líka séð um að greiða reikninga. Ákvörðunarvald að því er tekur til skattskila hafi alfarið verið í höndum ákærða og H hafi séð um greiðslu á þeim sköttum sem ákærði hafi gefið fyrirmæli um að skyldu greiddir. Að sögn B urðu ákveðin þáttaskil í lok ágúst 2012 þegar samþykkt hafi verið að hann tæki við starfi framkvæmdastjóra. Ákveðnar forsendur hefðu legið þeirri ákvörðun til grundvallar af hans hálfu. Ekki hafi liðið langur tími, í mesta lagi fjórar vikur, þar til hann hafi áttað sig á því að þær forsendur gengu ekki eftir. Það hafi með öðrum orðum ekki reynst vera grundvöllur fyrir skipulagsbreytingum sem hann hefði unnið að. Fyrirhugaðar breytingar hefðu því fallið um sjálfar sig og hafi ákærði verið fyllilega meðvitaður um það. Skýrði B svo frá að þetta hafi orðið til þess að hann hafi að mestu látið af störfum hjá félaginu í október eða nóvember 2012 og alfarið á fyrri hluta árs 2013. Í ljósi þeirrar stöðu sem samkvæmt framansögðu var komin upp í október 2012 hafi kaup hans á hlut í félaginu, sem kveðið var á um í verksamningnum árið áður, gengið til baka.
Samkvæmt vitnisburði H sá hann um bókhald félagsins frá því í ársbyrjun 2012 og fram á haustmánuði 2013. Þá kvaðst hann hafa haft með höndum greiðslu á reikningum og skil á skilagreinum vegna opinberra gjalda. Ákvörðun um hvað skyldi greitt hverju sinni hafi verið í höndum ákærða, D eiginkonu hans og B og hann hafi aldrei innt af hendi greiðslu án fyrirmæla frá einhverju þeirra.
Auk þeirra B og H gáfu vitnaskýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins eiginkona ákærða, D, E, fyrrum útibússtjóri Landsbankans, og F, sem var um sex mánaða skeið starfsmaður Stálsmiðjunnar Málmeyjar ehf. Í skýrslu sinni staðhæfði D að B hafi alfarið séð um fjármál félagsins. Það hafi verið í hans verkahring að ákveða hvað skyldi borga. Hlutverk ákærða hafi verið að afla verkefna og stýra þeim. Hann hafi ávallt lagt á það áherslu að staðið væri í skilum með greiðslu opinberra gjalda, en áherslur B hefðu verið aðrar. Í vitnisburði E kom meðal annars fram að hann hafi sem útibússtjóri átt samskipti við B vegna fjármála félagsins sumarið 2012 og B þá kynnt sig sem framkvæmdastjóra þess. Kvaðst E hafa litið svo á að B hafi haft framkvæmdastjórn í félaginu með höndum allt fram í febrúar 2013 þegar þeir áttu síðast samskipti vegna málefna þess. Í vitnisburði sínum greindi F svo frá að hlutverk ákærða hafi verið að sinna verklegum þáttum í rekstri félagsins og hann hafi haft orð á því við vitnið að hann vildi ekki koma nálægt fjármálum þess.
IV
Svo sem rakið hefur verið lýtur mál þetta að skilum á skýrslum vegna virðisaukaskatts og greiðslu á þeim skatti og staðgreiðslu opinberra gjalda í starfsemi einkahlutafélagsins GS2102, sem áður hét Stálsmiðjan Málmey.
Stjórnarmenn einkahlutafélaga bera almennt ábyrgð á því að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, þar á meðal að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Á hinn bóginn bera framkvæmdastjórar slíkra félaga, þegar þeir eru ráðnir, einnig ábyrgð, sbr. 2. og 3. mgr. 44. gr. laganna. Skal framkvæmdastjóri meðal annars annast daglegan rekstur félags og sjá um að bókhald þess sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.
Ákærði var stjórnarmaður félagsins sem um ræðir á þeim tíma sem ákæra tekur til og að auki skráður framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Þá liggur ekki annað fyrir en að hann hafi átt meirihluta í félaginu. Ef horft er til þessarar stöðu ákærða bar hann ábyrgð á því að skila virðisaukaskattskýrslum og staðgreiðsluskilagreinum vegna starfsemi félagsins á lögmæltum tíma og standa skil á slíkum gjöldum. Að því virtu sem rakið er í kafla II hér að framan og að gættum vitnisburði H og B eru að mati dómsins ekki efni til að líta svo á að þessu hafi í reynd verið annan veg háttað þannig að skattskil og skýrslugerð í tengslum við þau hafi ekki verið á ábyrgð ákærða á því tímabili sem ákært er fyrir. Með því að ákærði sinnti ekki þeim skyldum sínum sem að þessu lutu verður felld á hann refsiábyrgð og hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Eru brot hans þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 kveða á um fésektarlágmark í tilvikum eins og þeim sem hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin og vanrækt var að greiða. Þegar virt eru framangreind ákvæði sem kveða skýrt á um fésektarlágmark eru ekki efni til að líta til fullyrðinga ákærða um ætlaða samábyrgð annars einstaklings vegna starfa hans í þágu félagsins. Slíkt kæmi eingöngu til greina ef fleiri menn hafa verið ákærðir og sakfelldir fyrir sömu brot. Ekki kemur til álita að dómstóll fjalli um mögulega sakfellingu manns á slíkum grundvelli sem ekki hefur verið ákærður, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 3. mars 2011 í málum nr. 71 og 78/2010.
Enginn fótur er fyrir þeirri málsvörn ákærða að ekki hafi verið tekið tillit til innborgana honum til hagsbóta svo sem lög leyfa. Samkvæmt því nemur vangoldinn virðisaukaskattur 9.384.532 krónum og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda 8.733.735 krónum.
Samkvæmt málatilbúnaði ákæruvalds og í samræmi við gögn málsins telst vangoldinn virðisaukaskattur vegna þriggja af þeim sjö tímabilum sem ákæran lýtur að, það er janúar-febrúar 2012 og 2013 og mars-apríl 2012, hafa verið greiddur að verulegu leyti. Á hinn bóginn var virðisaukaskattskýrslum vegna beggja janúar-febrúar tímabilanna ekki skilað á réttum tíma. Verður samkvæmt þessu miðað við að undanþága frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 eigi við um skuld vegna tímabilsins mars-apríl 2012 að fjárhæð 16.698 krónur. Um skuldir vegna annarra tímabila, sem nema samtals 9.367.834 krónum, gildir hins vegar sektarlágmark ákvæðisins. Þá á sektarlágmark samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda við um skuld vegna staðgreiðslu samkvæmt 2. lið ákæru að fjárhæð 7.826.697 krónur og nær undanþága frá því eingöngu til skuldar vegna janúar 2013 að fjárhæð 907.038 krónur.
Samkvæmt framangreindu verða viðurlög vegna vanskila að fjárhæð 923.736 ákveðin í samræmi við fyrrgreindar undanþágur. Á hinn bóginn gildir sektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um vanskil að fjárhæð 17.194.531 krónu.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Að teknu tilliti til þess og með vísan til þess sem að framan er rakið þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði, sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærða gert að greiða 34.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Verði sektin eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa skal ákærði í hennar stað sæta fangelsi í 12 mánuði.
Ákærða verður gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, sem að teknu tilliti til virðisaukaskatts þykja hæfilega ákveðin 992.000 krónur. Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.
Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri dæmir mál þetta.
Dómsorð:
Ákærði, Gylfi Þór Guðlaugsson, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði 34.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson