Search
Close this search box.

RSK – Dómur. Bifreiðahlunnindi. Skattmat

Í þessu máli verður að byggja á sömu túlkun og Hæstiréttur gerir í framangreindu
máli og leiðir það til þess að telja verður að skattstjóra hafi verið heimilt að
miða endurálagningu sína við reglurnar eins og hann gerði. Þetta leiðir til
þess, enda þótt afnot stefnanda kunni að hafa verið tiltölulega lítil af
bifreiðinni, að hann verður að sæta því, eins og málsatvik eru, að úrskurður
skattstjórans í Reykjanesumdæmi standi óbreyttur. Ber því að hafna kröfum
stefnanda.

Fimmtudaginn 7. desember 2006.


Nr. 286/2006.

Bergþóra Sveinsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen
hrl.)


 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar
Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. mars 2006.
Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 10. maí 2006 og var áfrýjað öðru
sinni 29. sama mánaðar. Áfrýjandi krefst þess að úrskurður skattstjórans í
Reykjanesumdæmi  1. júlí 2003 um endurákvörðun á opinberum gjöldum hennar verði
felldur úr gildi, þannig að skattframtöl hennar gjaldárin 2000, 2001 og 2002
verði lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda. Hún krefst og
málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og
málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að úrskurður skattstjóra 1. júlí
2003 verði aðeins felldur úr gildi að hluta og málskostnaður þá felldur
niður.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann
staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir
Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Bergþóra Sveinsdóttir, greiði stefnda, íslenska
ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                                                                 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar
2006.

I

Mál þetta sem dómtekið var 16. febrúar sl. höfðaði Bergþóra
Sveinsdóttir, kt. 020359-3669, Fögrubrekku 17, Kópavogi gegn fjármálaráðherra
f.h. íslenska ríkisins, embætti ríkisskattstjóra, Laugavegi 166, Reykjavík og
embætti skattstjórans í Reykjanesi Suðurgötu 14, Hafnarfirði með stefnu birtri
24. maí 2005.

Dómkröfur stefnanda eru þær „að úrskurður skattstjórans í
Reykjanesumdæmi frá 1. júlí 2003 um endurákvörðun á opinberum gjöldum stefnanda
vegna hækkunar á bifreiðahlunnindum hennar gjaldárin 2000, 2001 og 2002 verði
felldur úr gildi og að framlögð skattframtöl hennar hjá skattstjóranum í
Reykjanesumdæmi gjaldárin 2000, 2001 og 2002 standi óbreytt til grundvallar
álagningu skattstjórans á opinberum gjöldum hennar, þau hin sömu gjaldár, hvað
varðar framtalin bifreiðahlunnindi stefnanda, 50.000 krónur á ári ofangreind
gjaldár.“

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að verða
algerlega sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að
greiða stefndu málskostnað að mati dómsins. Til vara krefjast stefndu
þess að úrskurður skattstjórans í Reykjanesumdæmi frá 1. júlí 2003 verði aðeins
felldur úr gildi að hluta og að málskostnaður verði felldur niður.

II

Á skattframtölum fyrir tekjuárin 1999, 2000 og 2001 taldi
stefnandi fram til tekna, auk tekna frá Byggðaþjónustunni, hlunnindi sem námu
kr. 50.000 fyrir hvert ár. Ekki fylgdu sérstakar skýringar á því hver þau
hlunnindi væru. Óumdeilt er að þessar tekjur voru vegna afnota hennar af
bifreiðinni VY-992, sem er Pajerojeppi árgerð 1990 í eigu Byggðaþjónustunnar
ehf. Í skjölum sem stafa frá stefnanda kemur fram að hún hafi notið þessara
hlunninda frá 1. janúar 1998. Stefnandi er starfsmaður og nú einn af eigendum
Byggðaþjónustunnar ehf. Fyrirtækið skilaði bifreiðahlunnindamiðum vegna
hlunninda stefnanda fyrir skattárið 1998 en ekki ekki síðari ár.

Hinn 1. júlí 2003 endurákvarðaði skattstjórinn í Reykjanesumdæmi
tekjur stefnanda af umráðum bifreiðarinnar VY-973 fyrir árin 1999, 2000 og 2001
og miðaði við að tekjur stefnanda af afnotum væru 15% af verðmæti bifreiðarinnar
sem hann taldi vera kr. 2.890.000 árið 1999 en kr. 2.950.000 árin 2000 og 2001.
Maki stefnanda hafði talið fram til hlunninda af notum bifreiðarinnar kr. 60.000
tekjuárið 1999 og stefnandi kr. 50.000 árin þrjú eins og fyrr greinir. Þegar
tillit var tekið til þess hækkaði skattstjórinn hlunnindi stefnanda, og þar með
famtalsskyldar tekjur, um kr. 323.500 árið 1999, kr. 392.500 árið 2000 og kr.
392.500 árið 2001 eða samtals kr. 1.108.500 framangreind ár. Hækkun á
skattgreiðslu stefnanda vegna þessa nam samtals kr. 485.956. Stefnandi kærði
úrskurðinn til yfirskattanefndar en kærunni var vísað frá með úrskurði 30.
desember 2003 þar sem ekki hafði verið bætt úr annmörkum á kærunni þrátt fyrir
að nefndin hefði gefið stefnanda frest til þess.

Hinn 6. janúar 2000 mun skattstjórinn hafa sent stefnanda
fyrirspurnarbréf sem svarað er með bréfi dags. 11. janúar s.á. en varðar
tekjuárin 1997 og 1998. Skattstjórinn sendi annað bréf dags. 17. apríl 2000 sem
svarað var með bréfi dags. 26. apríl s.á. Í því bréfi kemur fram að skattstjóri
fer fram á að gögn séu lögð fram um takmörkuð afnot jeppabifreiðarinnar. Hvorugt
bréfa skattstjóra  hefur verið lagt fram í málinu. Er ljóst að þessi skrif varða
fyrri ár en þau sem koma við sögu í þessu máli.

Skattstjórinn sendi bréf til stefnanda 14. mars 2003 þar sem
hann spurðist fyrir um bifreiðahlunnindi stefnanda tekjuárin 1999, 2000 og 2001
og ítrekaði það bréf 8. apríl en virðist engin svör hafa fengið. Hinn 28. maí
2003 sendi skattstjórinn stefnanda bréf og boðar í því endurákvörðun opinberra
gjalda og er þar m.a. óskað eftir því að stefnandi leggi fram gögn um takmörkuð
afnot sín af bifreiðinni árin 1999-2001, hver afnotin hafi verið, hver hafi sett
þau og hvernig þeim hafi verið framfylgt ásamt ljósriti af samningi um afnotin
sé slíkur samningur fyrir hendi. Þá er beðið upplýsinga um hver séu eignarleg
tengsl stefnanda við félagið og stjórnunarleg staða stefnanda hjá því. Í bréfi
skattstjóra kemur m.a. fram að stefnandi hafi þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kosið
að tjá sig ekki um fram komnar fyrirspurnir skattstjóra. Þá er boðuð
endurálagning gjaldanna með útreikningum og eru þeir útreikningar á sama veg og
urðu í úrskurði skattstjóra hinn 1. júlí 2003. Stefnanda er veittur 16 daga
frestur til að svara bréfinu.

Svarbréf stefnanda er dags. 11. júní 2003 og kemur þar fram að
hún hafi  haft takmörkuð afnot af bifreiðinni VY-73 árin þrjú. Hún hafi engin
afnot haft frá kl. sjö að morgni og til kl. fjögur síðdegis og afnotin
takmarkist við 1200 kílómetra akstur á ári en svo mikill hafa aksturinn ekki
verið þessi ár. Þá bendir stefnandi á eftirfarandi: Bifreiðin sé oft úr umferð
vegna viðgerða, stefnandi gangi oft til vinnu sinnar, bifreiðin standi á
bifreiðastæði Byggðaþjónustunnar allar nætur og hún sé nú að verðmæti kr.
450.000. Samkvæmt gögnum málsins virðast önnur bréfleg samskipti ekki hafa orðið
á milli stefnanda og skattstjóra áður en skattstjóri kvað upp úrskurðinn 1. júlí
2003.

Í úrskurði skattstjóra kemur fram að hvorki stefnandi né
eiginmaður hennar séu skráðir bifreiðaeigendur.

Í málinu hefur verið lögð fram smurbók bifreiðarinnar þar sem
skráðar eru tölur af ökumæli. Samkvæmt útreikningum stefnanda eftir smurbókinni
var bifreiðinni ekið 19.120 kílómetrar árið 1999, þar af hafi akstur vegna
afnota starfsmanna verið 2.400 kílómetar, árið 2000 11.420 kílómetrar, þar af
vegna afnota starfsmanna 1.100 kílómetrar og á árinu 2001 4.015 kílómetrar þar
af vegna afnota starfsmanna 1.100 kílómetrar. Afrit reikninga frá smurstöð hafa
verið lögð fram um að bifreiðin hafi verið smurð á þeim tíma sem í smurbókina er
skráð.

III

Stefnandi byggir á því að endurgjaldslaus afnot hennar af
bifreið vinnuveitandans hafi verið takmörkuð. Reglur ríkisskattstjóra um
bifreiðahlunnindi eigi sér ekki stoð í lögum en í 1. mgr. 1. tl. a-liðs 7. gr.
laga nr. 75/1981 með síðari breytingum sé kveðið á um það að sá sem njóti
fríðinda og hlunninda, og falli bifreiðahlunnindi þar undir, beri að telja þau
sér til tekna án tillits til viðmiðunar. Þetta ákvæði verði að skilja svo að
ekki sé gert ráð fyrir því að við mat á skattskyldri fjárhæð eigi að leggja til
grundvallar verðmætamat ríkisskattstjóra. Þannig sé ekki heimilt að leggja neina
viðmiðun til grundvallar við álagningu skatta á bifreiðahlunnindi.

Í 116. gr. laga nr. 75/1981 sé ríkisskattstjóra veitt almenn
heimild til þess að gefa út reglur um mat á hlunnindum og séu þar engar skorður
settar við aðferðum eða viðmiðunum sem ríkisskattstjóri geti sett. Þessar
aðferðir og viðmið hefði átt að lögbinda en þar sem það hafi ekki verið gert
feli lagagreinin í sér ólögmætt framsal skattlagningarvalds og brjóti í bága við
77. gr. stjórnarskrárinnar.

Heimild ríkisskattstjóra til að meta hlunnindi til verðs hafi
áður verið í c-lið 7. gr. laga nr. 68/1971 sem síðar hafi orðið 116. gr. laga
nr. 75/1981. Þegar sú breyting hafi verið gerð hafi sérstaklega verið tekið fram
að hún fæli ekki í sér nýmæli. Engu að síður hefði ríkisskattstjóri gert þá
grundvallarbreytingu á teknamati árið 1989, og þá á grundvelli 116. gr., að í
stað þess að miða við ekna kílómetra skyldi miðað við ákveðið hlutfall af
staðgreiðsluverði þeirrar bifreiðar sem launþegi hefði ótakmörkuð umráð yfir.
Þessi breyting hafi ríkisskattstjóra verið óheimil að lögum.

Verði ekki á þessar röksemdir fallist byggi stefnandi á því að
skattmatsreglur ríkisskattstjóra eigi ekki í öllum tilvikum að vera almennar og
undanþágulausar samkvæmt 116. gr. laga nr. 1987. Álagning skatts vegna
bifreiðahlunninda stefnanda sé ómálefnaleg og ósanngjörn miðað við aðstæður
stefnanda. Bifreiðin hafi verið gömul og af frekar dýrri tegund en þó miði
skattstjóri skattálagninguna við 15% af verðmæti hennar, en 15% viðmiðunin sé
algerlega órökstudd og handahófskennd. Það sé ólögmæt, ótæk, ómálefnaleg og
ósanngjörn niðurstaða að meta bifreiðina á kr. 2.950.000 og hækka tekjur
stefnanda þannig um kr. 1.108.500 þau þrjú ár sem endurálagningin nái til.
Stefnandi hafi hins vegar við framtal sitt miðað eftir föngum við raunveruleg
not af bifreiðinni til þess að ekki yrði um að ræða skatttekjur af tilbúnum
tekjum og beri að leggja framtal hennar til grundvallar álagningunni. Stefnanda
sé hins vegar með endurálagningunni gert að greiða skatt af tekjum sem hún hafi
aldrei haft. Það brjóti og í bága við meðalhófsreglu skattstjórnsýslunnar og
lögmætisreglu stjórnarskrárinnar.

Skattstjórinn hafi enga tilraun gert til þess að kynna sér
raunveruleg not stefnanda af bifreiðinni og hafi þar með brotið rannsóknarreglu
stjórnsýsluréttar. Hann hafi ekki tekið tillit til þeirra upplýsinga sem
stefnandi hafi gefið um notin. Í málinu liggi fyrir sannanir, sem smurbók
bifreiðarinnar hafi að geyma, um það að notkunin hafi verið lítil og að miklu
leyti í þágu fyrirtækisins.

Þá hafi skattstjórinn ekki heimild til þess að endurákvarða
skatt fyrir árin 1999 og 2000 samkvæmt 97. gr. laga nr. 75/1981.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að annað sé ósannað en
stefnandi hafi verið einn af eigendum Byggðaþjónustunnar ehf. Ekki hafi verið
svarað fyrirspurn skattstjórans þar að lútandi og ekki gerð athugasemd við
fullyrðingu skattstjórans þar um fyrr en í stefnu málsins. Ekki sé annað upplýst
en stefnandi hafi haft ótakmörkuð og endurgjaldslaus afnot af bifreiðinni
VY-973.

Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að skattstjóri hafi
ekki heimild að lögum til að gefa út viðmiðunarreglur um skattmat hlunninda og
vísar til þess að í dómi Hæstaréttar hinn 10. febrúar 2000 í máli nr. 356/1999
hafi niðurstaðan verið sú að um skattlagningu bifreiðahlunninda ætti að fara
eftir reglum ríkisskattstjóra sem væru einfaldar, hlutlægar og gagnsæjar.
Ríkisskattstjóri hafi fullt vald að lögum sbr. 116. gr. laga til að setja
viðmiðunarreglur og endurgjaldslaus afnot af bifreið vinnuveitanda séu
skattskyld hlunnindi samkvæmt 7. gr. laga nr. 75/1981. Sé sérstaklega kveðið á
um það í 1. tl. a-liðar þeirrar lagagreinar.

Skattmatsreglur ríkisskattstjóra séu þannig lögmætar, þær séu
málefnalegar og reistar á almennum efnislegum mælikvarða. Þær séu og einfaldar,
hlutlægar, gegnsæjar og málefnalegar en í þeim sé ýmist miðað við 20 eða 15% af
verði nýrrar bifreiðar sömu tegundar og skattþegn hafi afnot af. Þannig séu
tekjur af hlunnindunum reiknaðar af verðmæti bifreiðar að teknu tilliti til
aldurs en án tillits til aksturs í eigin þágu. Aksturinn sjálfur sé ekki hið
eiginlega inntak slíkra hlunninda heldur hin ótakmörkuðu, endurgjaldslausu
afnot. Í framangreindum dómi Hæstaréttar séu þessi sjónarmið staðfest. Reglurnar
nái jafnt til allra skattgreiðenda og ríki þannig jafnræði á milli þeirra. Efni
reglnanna sé og í samræmi við meðalhófsregluna.

Í skattskýrslum stefnanda fyrir árin 1999-2001 komi ekki fram
hvaða bifreið stefnandi hafi haft til afnota en talin séu fram bifreiðahlunnindi
á þessum árum, kr. 50.000 hvert áranna. Upplýsingar úr smurbók sem lögð hafi
verið fram í málinu sýni hins vegar að akstur bifreiðarinnar hafi verið
mismunandi þessi ár. Launagreiðandi hafi ekki skilað neinum upplýsingum um
bifreiðahlunnindin þessi ár, en það hafi hann gert árið 1998. Skattstjóri hafi
farið fram á upplýsingar um takmarkanir á afnotum stefnanda af bifreiðinni en um
þau hefðu ekki borist fullnægjandi  upplýsingar og hefði hann því verið í fullum
rétti til þess að miða úrskurð sinn við ótakmörkuð afnot. Skattstjóri hafi sent
fyrirspurnarbréf til stefnanda 14. mars 2003 og ítrekað það 8. apríl en engin
svör fengið. Skattstjóri hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni og til hans hafi
ekki verið leitað eftir leiðbeiningum. Leiðbeiningarskylda samkvæmt 7. gr.
stjórnsýslulaga sýnist því ekki eiga við í þessu tilviki. Það hafi fyrst verið
eftir að skattstjóri boðaði endurálagningu með bréfi 28. maí að stefnandi hafi
andmælt, eða í bréfi dags. 11. júní 2003.

 Þar sem ekki hafi komið fram í framtölum stefnanda fullnægjandi
upplýsingar um not hennar af bifreiðinni eigi 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981
ekki við hér.

IV

Úrskurður skattstjóra var kveðinn upp með heimild í 1. og 5.
mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Skylda stefnanda til
að greiða skatt árin 1999-2001 fór eftir lögum nr. 75/1981 með síðari breytingum
og verður yfirleitt vitnað til ákvæða þeirra laga hér á eftir, en þau ákvæði eru
raunar hin sömu og í lögum nr. 90/2003.

Í skattmati í staðgreiðslu bifreiðahlunninda, sem
ríkisskattstjóri gefur út árlega, er gert ráð fyrir því að endurgjaldslaus afnot
launamanns af bifreið launagreiðanda geti verið með ýmsum  hætti og reglurnar
miðaðar við það. Afnotin geta ýmist verið ótakmörkuð eða takmörkuð á einn eða
annan hátt og í skattmatinu er tekið mið af því. Samkvæmt skattframtölum
stefnanda fyrir tekjuárin 1999-2001 hafði hún afnot af bifreið, sem óumdeilt er
að var bifreiðin VY-973, sem hún taldi sér til tekna að fjárhæð kr. 50.000 hvert
ár. Í skattframtölunum er ekki að finna frekari upplýsingar um afnot þessi og
samkvæmt gögnum málsins er það fyrst í bréfi stefnanda til ríkisskattstjóra
dags. 11. júní 2003, þegar skattstjórinn hafði boðað endurálagningu, að
stefnandi heldur því fram að afnotin hafi verið takmörkuð. Þar er sagt að
afnotin séu engin frá því kl. 7 að morgni til kl. 16 síðdegis og hafi takmarkast
við 1200 kílómetra á ári. Af þessu má strax slá föstu að ákvæði 2. mgr. 97. gr.
laga nr. 90/2003 á hér ekki við.

Af hálfu launagreiðanda stefnanda, sem bifreiðina átti, liggja
engar upplýsingar fyrir um hver afnot stefnanda voru af bifreiðinni, hvort þau
voru takmörkuð af hans hálfu eða ekki. Þá liggja heldur ekki fyrir haldbærar
upplýsingar um hver afnot stefnanda voru í raun og hver voru afnot eigandans
sjálfs, enda þótt lagðar hafi verið fram upplýsingar um það hve mikið
bifreiðinnni var ekið umrædd ár. Þegar þetta er haft í huga þykir skattstjórinn
hafa mátt leggja endurálagningu sinni til grundvallar að stefnandi hafi haft
afnot af bifreiðinni án takmarkana. Verður ekki annað séð en skattstjórinn hafi
við endurálagninguna farið eftir þeim málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga sem
við eiga.

Í dómi Hæstaréttar frá 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999 er
tekin afstaða til málsástæðna sem varða heimild ríkisskattstjóra til að setja
reglur um mat á endurgjaldi vegna bifreiðahlunninda og efni þeirra. Þær
málsástæður eru að efni til hinar sömu og stefnandi byggir málflutning sinn á
varðandi þessar reglur. Sú niðurstaða Hæstaréttar sem hér skiptir máli er að
ríkisskattstjóri hafi haft heimild samkvæmt 116. gr. laga nr. 75/1981 til að
setja reglurnar, reglurnar séu einfaldar, hlutlægar og gagnsæjar og við það
miðað að heimilt sé að skattleggja ótakmörkuð afnot af bifreið hver svo sem þau
í raun kunna að hafa verið. Í þessu máli verður að byggja á sömu túlkun og
Hæstiréttur gerir í framangreindu máli og leiðir það til þess að telja verður að
skattstjóra hafi verið heimilt að miða endurálagningu sína við reglurnar eins og
hann gerði. Þetta leiðir til þess, enda þótt afnot stefnanda kunni að hafa verið
tiltölulega lítil af bifreiðinni, að hann verður að sæta því, eins og málsatvik
eru, að úrskurður skattstjórans í Reykjanesumdæmi standi óbreyttur. Ber því að
hafna kröfum stefnanda.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð.

Stefndu, íslenska ríkið, ríkisskattstjóri og skattstjórinn í
Reykjanesumdæmi, skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Bergþóru
Sveinsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

 

 

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur