Meðfylgjandi er dómur Hæstaréttar í máli sem varðar innheimtu skatta.
Deilan stóð um hvort skuld vegna þing- og sveitasjóðsgjalda AB E 1994 teldist fyrnd. Nánar tiltekið um hvort innborgun gjaldandans inn á opinber gjöld sín hafi falið í sér viðurkenningu hans á þinggjaldaskuld og þar með hefði gjaldandinn rofið fyrningu hennar.
Um var að ræða virðisaulaskattskröfu annars vegar en þinggjaldaskuld hins vegar og ráðstöfun innheimtumanns á innborgun gjaldandans .
Héraðsdómur taldi kröfuna ekki fyrnda og bæri gjaldandanum því að greiða hana.
Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu.
Hæstiréttur benti á að meðal gagna málsins væri kvittun sem gjaldandi hafi fengið í hendur þegar hann innti greiðsluna af hendi. Í kvittuninni hafi komið fram að greiddur hafi verið virðisaukaskattur en ekki minnst á önnur opinber gjöld. Ósannað væri að hann hafi við greiðsluna fengið í hendur upplýsingar um að greiðslan hafi komið til ráðstöfunar inn á þá skuld sem deilt var um í málinu. Taldi dómurinn að þvert á móti mætti ráða af þeirri kvittun að greiðslunni hefði verið ráðstafað inn á virðisaukaskattskuld hans, enda var þar um að ræða skuld sem var eldri en sú skuld sem um var deilt í málinu.
Var því ekki fallist á að fyrning hinnar umdeildu kröfu hafi rofnað við innborgunina og krafa ríkissjóðs því fyrnd og féll greiðsluskylda hennar vegna niður.