Search
Close this search box.

RSK- dómur héraðsdóms – hlbr sem kaupgreiðsla

Meðfylgjandi er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í morgun í málinu:  Hreggviður Jónsson gegn Íslenska ríkinu . Um var að ræða ágreining um niðurstöðu skattyfirvalda um gjaldstofna í framhaldi af skattrannsókn. Viðkomandi gjaldandi var stjórnandi fyrirtækis og hafði hann gert samning um afhendingu hlutabréfa sem kaupgreiðslu frá því.

Nánar tiltekið laut ágreiningur í máli þessu  að því hvort skattyfirvöldum hafi verið heimilt að ákvarða gjaldandanum tekjuviðbót á gjaldárinu 2000, vegna tekjuársins 1999, að fjárhæð 20.049.947 krónur, vegna umbreytingar á hlutabréfum hans í Íslenska útvarpsfélaginu hf., að nafnverði 4.568.000 krónur, í hlutabréf í Norðurljósum hf., að nafnverði 20.528.526 krónur, svo og að bæta 25% álagi við þá tekjuviðbót. Jafnframt gerði gjaldandi kröfu um að 2,5% álag, sem leiddi af endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum hans fyrir tekjuárin 1999, 2000 og 2001, að fjárhæð 559.870 krónur félli niður.  Óumdeilt var í málinu að  hluti ráðningarkjara gjaldanda hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. var réttur hans til hlutabréfa í félaginu, sem  safnaðist upp á árunum 1997 – 1999, alls að nafnverði 4.568.000 krónur, án greiðslu af hans hálfu. Gjaldandi hélt því  fram að hann hafi 2. desember 1999 framselt hlutabréfin til Kaupþings Luxemborg. Gerði hann skattyfirvöldum grein fyrir sölunni í skattframtali árið 2000 og greiddi fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði. Kaupþing Luxemborg hafi nokkru síðar,  eða 23. desember sama ár, framselt hlutabréfin til félags í eigu bankans, að nafni Saxi Holding. Því hafi skattskyldu gjaldanda vegna umræddra hlutabréfa verið lokið, og hafi umbreyting hlutabréfanna í Íslenska útvarpsfélaginu hf. í hlutabréf í Norðurljósum hf. átt sér stað gagnvart Saxi Holding, sem þáverandi eiganda hlutabréfanna. Nánari málalistan er að finna í dómnum sjálfum og vísast til hans í því efni.  Athyglisverð er niðurstaða réttarins um að fella beri niður almennt 25% álag á gjaldstofna gjaldandans.  Þar segir svo í dómnum:  "Samkvæmt skattframtali stefnanda árið 2000, vegna tekjuársins 1999, gerði hann grein fyrir sölu hlutabréfa sinna í Íslenska útvarpsfélaginu hf., að nafnvirði 4.568.000 krónur, til Kaupþings Luxemborg, og var kaupverð skráð  tvöfalt nafnverð. Þótt stefnanda hafi mátt vera það ljóst að fjárhagslegur ávinningur af umbreytingu hlutabréfa hans í Íslenska útvarpsfélaginu hf.  fyrir hlutabréf í Norðurljósum hf. teldust skattskyldar tekjur samkvæmt 1. mgr. 1. tl. A. liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981, telur dómurinn að líta verði hér til allra atvika, svo og til þeirrar óvissu sem ríkti um verðviðmiðun hlutabréfanna, ásamt því að reglur um skattalega meðferð hlutabréfa í viðskiptum sem þessum voru nýmæli og ekki svo skýrar sem skyldi. Í ljósi þess og með vísan til 3. mgr. 108. gr. Laga nr. 90/2003 er það álit dómsins að fallast beri á kröfu stefnanda og fella niður 25% álag á ofangreinda tekjuviðbót, vegna tekjuársins 1999. Samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar í máli stefnanda nr. 148/2006 nam fjárhæð álagsins 6.652.440 krónum. "  Í málinu var vikið að verðmatsgrundvelli þeirra hlutabréfa sem um var að ræða. M.a. því sem nefnt var viðskiptavild Norðurljósa hf.   Segir  í dómnum að þótt skattyfirvöld hafi hafnað því í skattskilum Norðurljósa hf. að taka tillit til viðskiptavildar félagsins, þyki dóminum engu að síður óvarlegt að draga þá ályktun að sú ákvörðun hafi einhverju breytt um raunverulegt verðmæti hlutafjár í félaginu. Í málinu hafi legið fyrir takmarkaðar upplýsingar um ætlað gangverð hlutabréfa í Íslenska útvarpsfélaginu hf. á þeim tíma sem skipti hlutabréfanna fóru fram. Hins vegar lægju fyrir upplýsingar um gangverð á hlutabréfum í Fjölmiðlun hf. Á sama tíma.  Í ljósi þeirra upplýsinga, og þar sem ætla mætti að markaðsverðmæti Fjölmiðlunar hf. endurspeglaði markaðsverðmæti Norðurljósa hf., taldi dómurinn að hin umdeilda tekjuviðbót hafi ekki verið ofákvörðuð á gjaldanda með því að miða við eiginfjárstöðu Íslenska útvarpsfélagsins hf. og Norðurljósa hf. í árslok 1999. Rétturinn staðfesti þannig niðurstöðu skattyfirvalda um hina umþrættu tekjuviðbót.  Sjá dóminn

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur