Dómur:Íslenska ríkið gegn Orkuveitu Reykjavíkur:Orkuveitan greiði fjármagnstekjuskatt.
Deilt var um hvort breyting á 80. gr. orkulaga nr. 58/1967, sem gerð var með 3. gr. laga nr. 78/2001, hafi undanþegið O skyldu til að greiða skatt af fjármagnstekjum sem felld hafði verið á hann með breytingu á 72. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að þeir aðilar sem tilgreindir voru í 80. gr. orkulaga eins og hún hljóðaði í upphafi, hafi notið skattfrelsis allt frá gildistöku laga nr. 75/1981. Með 4. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 97/1996, hafi þeim aðilum sem tilgreindir voru í 80. gr. orkulaga, þó verið gert að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum. Með þeirri breytingu á 80. gr. orkulaga, sem gerð var með 3. gr. laga nr. 78/2001, var mælt fyrir um að sömu reglur og fyrir voru í greininni skyldu jafnframt gilda um hitaveitu og rafveitur, sem fullnægðu nánar tilteknum skilyrðum, en óumdeilt er að O féll þar undir. Var því ljóst að á O hvíldi skylda til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Var kröfu O um endurgreiðslu vegna fjármagnstekjuskatt sem O hafði þegar innt af hendi því hafnað.