Meðfylgjandi er dómur í máli ákæruvaldsins á hendur Hirti J. Hjartar og Ágústi Þórhallssyni vegna brots gegn lögum um einkahlutafélög.
Var ákært fyrir að þeir hefðu í lok árs 2007 vísvitandi sent Hlutafélagaskrá, Laugavegi 166, Reykjavík, ranga tilkynningu vegna einkahlutafélagsins FS13, varðandi breytingu á prókúru, stjórn og firmaritun og nýjar samþykktir. Í þessari tilkynningu kom fram ranglega að þær ráðstafanir sem þar voru tilkynntar hefðu verið ákveðnar á löglegum hluthafafundi einkahlutafélagsins, en ákærðu, sem skrifuðu undir fundargerð umrædds fundar var þá kunnugt um að svo var ekki. Vissu þeir að þær ráðstafanir sem tilkynningin varðaði væru því ólöglegar.
Einnig var ákært fyrir brot þeirra að því leyti sem þau beindust að þeim mikilvægu hagsmunum sem felast í réttri skráningu félaga hjá Hlutafélagaskrá svo að treysta megi upplýsingum sem skráin geymir.
Loks var ákært fyrir brot ákærðu gegn ríkum einkahagsmunum hluthafa eins í félaginu en aðgerðir ákærðu miðuðu að því að svipta hann hlut sínum í einkahlutafélaginu FS13.
Þótti refsing beggja ákærðu hæfilega ákveðin 500.000 króna sekt til ríkissjóðs og 28 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.