Mál þetta er einkum athyglisvert vegna kröfugerðar stefnda í málinu.
Í málinu var deilt um réttnæti reiknings frá bókhaldara til fyrirtækis.Fór bókhaldarinn í mál. Var dæmt honum í hag og fyrirtækinu gert að greiða.
Af hálfu fyrirtækisins kom fram gagnkarfa til skuldajafnaðar. Um var að ræða kröfu um skaðabætur vegna tjóns sem bókhaldarinn hafi valdið því með saknæmum og ólögmætum hætti. Til stuðnings þeirri kröfu lagði fyrirtækið fram úrskurði ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar þar sem fundið var að bókhaldi þess. Voru gjaldstofnar til tekjuskatts vegna áranna 1995-1998 hækkaðir og 25% álag lagt á. Byggði skaðabótakrafa fyrirtækisins á því að bókhaldarinn hafi annast bókhald þess á þessu tímabili og beri að bæta það tjón sem hann olli fyrirtækinu með ófullnægjandi vinnu sinni. Umfang tjónsins sé fjárhæð þess skatts sem fyrirtækinu var gert að greiða af álagi samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar vegna áðurgreinds tímabils. Ekki taldist sannað í málinu að bókhaldarinn hefði tekið að sér umrædda vinnu og var gagnkrafan því ekki tekin til greina.
Aðalkrafan í málinu laut að greiðslu reiknings útgefinn af bókhaldaranum þann 29. september 2003, að fjárhæð kr. 232.900,-, vegna bókhaldsvinnu fyrir fyrirtækið árið 2002. Var því ekkimótmælt af hálfu þess að þessi vinna hafi verið innt af hendi og engar athugasemdir gerðar við fjölda unninna stunda eða tímagjald. Í bréfi skattstjóra Norðurlandsumdæmis eystra er ástæða þess að skattframtal 2002 var ekki lagt til grundvallar álagningar opinberra gjalda 2002 sögð sú að vegna eldri mála sé ekki unnt að taka afstöðu til þeirra framtala sem á eftir koma. Var því ekkert talið fram komið í málinu sem létti af fyrirtækinu þeirri skyldu að greiða stefnanda fyrir þá vinnu sem þegar hafði verið innt af hendi.