Meðfylgjandi er frumvarp til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt og lögum um vörugjöld.
Í frumvarpinu er lagt til að heimildir til undanþágu gjalda vegna vistvænna ökutækja verði framlengdar til 31. desember 2009.
Um er að ræða reglur sem heimila tímabundið að lækka vörugjald af tvíorkubifreiðum sem knúnar eru með metangasi eða rafmagni að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu.
Einnig er heimilt að lækka eða endurgreiða 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu umhverfisvænna hópferðabifreiða.
Jafnframt má fella niður vörugjald af ökutækjum sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, t.d. rafhreyfli eða vetni .
Loks er fyrir hendi heimild til að fella niður vörugjald á sérhæfða varahluti í vetnisbifreiðar.