Meðfylgjandi er frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum,eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,með síðari breytingum.
Með frumvarpinu er lagt til að endurgreiddur verði hluti virðisaukaskatts og vörugjalds af notuðum vélknúnum ökutækjum sem eru seld eða flutt úr landi fram til 1. apríl 2009.
Er markmið frv að greiða fyrir sölu notaðra bifreiða úr landi og rjúfa kyrrstöðu í sölu á nýjum bifreiðum.
Samkvæmt frumvarpinu er endursala á bifreið til útlanda ekki skilyrði fyrir endurgreiðslu heldur einungis flutningur úr landi.
Frumvarpið gerir ráð fyrir því að virðisaukaskattur og vörugjöld sem greidd voru af bifreiðum við tollafgreiðslu þeirra myndi endurgreiðslugrunn.
Endurgreiðsluhlutfallið lækkar með aldri bílsins frá tollafgreiðsludegi. Lækkun er 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðina og 1,5% á mánuði eftir það. Hefur þannig fyrning náðst að fullu rúmum 5 árum eftir tollafgreiðslu.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts nær ekki til þeirra ökutækja sem hafa notið innskatts . Í slíkum tilfellum yrðu þó vörugjöld endurgreidd .